Málefni flóttamanna settu mikinn svip sinn á árið. Straumur flóttamanna inn í Evrópu hefur aldrei verið meiri og réttara að kalla þjóðflutninga en hefðbundinn flóttamannastraum. Aðstæðurnar sem fólk er að flýja eru það hryllilegar að það leggur á sig stórhættulegan flótta á gúmmíbátum yfir úfið haf að næturlagi í leit að öryggi og betra lífi. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að við Íslendingar sameinumst um að taka á móti fólki og veita því skjól hér. Við eigum að gera miklu betur í móttöku flóttamanna en jafnframt í móttöku hælisleitenda og þeirra sem hingað koma sjálfir í leit að framtíð.
Við erum mörg sem viljum sjá meiri mannúð í kerfinu hér á landi þar sem aðstæður hvers og eins eru skoðaðar sérstaklega en tölvan ekki látin segja nei á þeim forsendum að fólk passi ekki inn í fínu boxin okkar. Mannúðarsjónarmið verða að ráða för. Út á það gengur líka löggjöfin þó að í verki hafi lagagrein frá árinu 2014 um lista yfir örugg ríki verið látin ráða flokkun á fólki. Viðbrögð þingsins vegna albönsku fjölskyldnanna sýndi vilja þingsins í þessum efnum. Við komum sameinuð fram í viðkvæmu máli og fyrir það þakka ég nú á þessum jólum.
Haustþingið – samhent stjórnarandstaða
Mörg ykkar tóku örugglega eftir því að stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir mættu samhentir til leiks á þessu haustþingi og lögðu fram sameiginlegar tillögur við fjárlögin. Við settum þrjú mál á oddinn; Bætt kjör eldri borgarara og öryrkja, aukið fé til Landspítala og heilbrigðismála og að lokum að útvarpsgjaldið skilaði sér allt til RÚV. Þetta var auðvelt fyrir okkur flokkana fjóra að ná saman um þetta því mikilvægi þessara mála eru svo augljós. Við náðum einhverjum árangri með því að pressa stíft í langri umræðu í þinginu; RÚV fékk hækkun uppá 175 milljónir og Landspítalinn fékk 200 milljónir auk þess sem milljarður fer í öldrunarstofnanir. Við hefðum þurft að sjá hækkun upp á 3 milljarða í Landspítalann bara svo hann geti haldið í horfinu þannig að þetta er eingöngu brot af því sem þarf en þó meira en ríkisstjórnin hafði lagt til upphaflega.
Eldri borgarar og öryrkjar skildir eftir
Baráttan fyrir kjörum eldri borgara og öryrkja var tvíþætt. Annarsvegar að hækkanir sem þessir hópar fá nú um áramótin verði afturvirk til 1.maí sem er í samræmi við það sem aðrir hópar hafa fengið á árinu. Hinsvegar var krafan að hækkun lægsta lífeyris almannatrygginga yrði í takt við hækkun lægstu launa. Við náðum því miður ekki að koma vitinu fyrir ríkisstjórnarflokkana þegar kom að kjörum eldri borgara og öryrkja. Talsmenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sögðu það síðan skýrt að þeir teldu ekki að þessir hópar ættu að vera með sömu tekjur og lægstu laun. Þetta var eins og að tala við vegg. Skilningurinn var enginn. Fyrir hækkun er nettógreiðsla lægsta lífeyris almannatrygginga til þeirra sem eru í sambúð um 170 þúsund krónur og ef viðkomandi býr einn um 191 þúsund krónur. Þúsundir Íslendinga eru í þessum sporum. Rétt upp hönd sem treystir sér til að borga af húsnæði, reka litla bifreið, kaupa í matinn og gefa barnabörnunum jólagjafir fyrir þessa fjárhæð. Auðvitað réttir enginn upp hönd því við vitum að það er ekki hægt svo vel sé. Við munum halda baráttunni fyrir bættum kjörum þessara hópa áfram.
Þöggun
Pólitísk umræða hefur breyst mikið undanfarin misseri. Ef ráðafólk er gagnrýnt fáum við oftar en ekki þau viðbrögð að um sé að ræða andlegt ofbeldi, einelti eða persónuárásir. Þannig hafa sumir ráðherrar í þessari ríkisstjórn oftar en ekki brugðist við umræðu um störf þeirra sem og þingmenn stjórnarflokkanna. Ráðamenn eru ekki fórnarlömb í okkar samfélagi, nema þá kannski helst lýðræðislegrar umræðu sem þeim kann að þykja óþægileg á köflum. Gagnrýni á lág framlög til Landspítala er þannig ekki andlegt ofbeldi gagnvart þeim sem ráða framlögunum. Hér er um að ræða eina leið til þöggunar alveg eins og það að ráðast til baka á persónu gagnrýnandans eins og við höfum séð mörg dæmi um á árinu. Þessir þöggunartilburðir eru að steingelda alla efnislega og innihaldsríka pólitíska umræðu. Sú sem þetta ritar fór á árinu að sakna stjórnmálamanna eins og Björns Bjarnasonar, Einars Odds Kristjánssonar, Valgerðar Sverrisdóttur og Þorgerðar Katrínar sem aldrei veigruðu sér við alvöru pólitískum debat sama hversu þung gagnrýnin varð. Í stjórnmálum eigum við að takast á um hugmyndir og ef einhver er manni ekki sammála þá er það merki um heilbrigða umræðu sem gæti mögulega leitt til farsællar niðurstöðu í máli. Í samfélagi þöggunar eru einstaklingar hinsvegar ófrjálsir og samfélagið þvingað.
Heimilin og framtíðin
Lítið hefur farið fyrir umræðu um heimilin í landinu á þessu ári. Verðtryggingin sem lofað var að afnema lifir enn góðu lífi. Og þó að það hilli undir breytingar á fjármagnshöftunum er langt í frá að menn muni getað afnumið þau algerlega á meðan við erum með íslensku krónuna. Þá hafa vextir einnig farið að hækka að nýju og frekar hækkanir liggja í loftinu. Á sama tíma lækkar ríkisstjórnin barnabætur sem er sérstakur stuðningur við barnafjölskyldur með þunga greiðslubyrði og hún lækkar vaxtabætur sem ætlað er að mæta þessum séríslenska himinháa verðtryggða lántökukostnaði. Við í Samfylkingunni höfum löngum tala fyrir breytingum á þessum séríslensku aðstæðum með upptöku Evru. Okkur hefur verið mætt með hrópum og köllum og við sögð eiga þetta eina svar við öllu. Þeir sem hæst hrópa ættu þá kannski að fara að kynna fyrir íslenskum heimilum og atvinnulífi hvaða valkostur annar verði hér í boði fyrir okkur annar en óbreytt ástand. Umræða okkar um aðild að ESB er nefnilega umræða um lífskjarabætur fyrir heimilin í landinu með lægri lántökukostnaði og lægra, stabílla vöruverði. Ef upptöku Evru er ýtt út af borðinu er þá til of mikils mælst að óska eftir því að þeir hinir sömu leggi fram annan valkost?
Frjálst og öflugt viðskiptalíf
Við jafnaðarmenn höfum ætíð verið talsmenn öflugs atvinnulífs sem byggir á jafnræði, gagnsæi og frelsi. Til að tryggja það þurfa eftirlitsstofnanir að vera nægjanlega burðugar til að sinna skyldum sínum. Í frjálsu öflugu viðskiptalífi eru umgjörð skýr og fyrirsjáanleiki til langrar framtíðar. Við það búum við ekki hér. Lenskan hér á landi hefur verið sú að fáum aðilum eru skapaðar aðstæður til að hagnast á meðan aðrir fá ekki sömu tækifæri. Það er ekki merki um frjálst og öflugt viðskiptalíf. Þessu þurfum við í stjórnmálunum að beina sjónum okkar að nýju ári ásamt því að veita ríkisstjórninni aðhald í áformum þeirra um sölu ríkisbankanna. Þá þarf að hefja lækkun tryggingagjaldsins til að styrkja minni og meðalstóru fyrirtækin. Eins er mikilvægt að hin pólitíska umræða um gjaldmiðilinn fari einnig fram í tengslum við íslenskt atvinnulíf. Við búum ekki í opnu hagkerfi sem á í heilbrigðum alþjóðlegum viðskiptum okkur öllum til hagsbóta, á meðan við erum með fjármagnshöft og gjaldmiðil sem enginn treystir.
Að lokum
Eins og sjá má verður af nægu að taka á næsta ári;
eldri borgarar, öryrkjar, flóttamenn, heilbrigðiskerfið, heimilin og
atvinnulífið þurfa athygli okkar stjórnarmálamanna. Best væri ef við næðum að
vinna betur saman þverpólitískt. Taka hvern málaflokk fyrir sig, takast á um
hvar við viljum vera eftir 10 ár og leggja niður verkefnin sem þarf að ráðast í
til að ná þangað. Kona má láta sig dreyma!