Árið 2015 líður senn undir lok og eftir stendur minning um sérstakt ár. Margs konar verkefni hafa ratað á borð innanríkisráðuneytisins og þau hef ég fengið að takast á við með samhentu samstarfsfólki. Nú er ár liðið frá því ég tók við embætti innanríkisráðherra og hefur það bæði verið krefjandi og ánægjulegt verkefni.
Það sem stendur upp úr á þessu ári er að það eru meiri háttar breytingar í Evrópu og heiminum öllum. Við stöndum frammi fyrir breyttri heimsmynd. Verkefni mín sem innanríkisráðherra litast mjög af þessum breytingum og standa málefni útlendinga, í breiðum skilningi þess orðs, því óneitanlega upp úr á árinu sem er að líða.
Við sjáum hvernig heimurinn iðar og hvernig álfan okkar hefur tekist á við og reynt að leggja sitt af mörkum til að hjálpa þeim sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna óskaplegra hörmunga heima fyrir. Við verðum vitni að því sem við vonum auðvitað að muni ekki verða örlög okkar þjóðar en á að færa okkur heim sanninn um það hversu heimurinn er hverfull og hversu fljótt fornar menningarþjóðir fá að kynnast hroðalegum atburðum sem neyða fjölskyldur, fullorðna og börn á vergang.
Flóttamannastraumurinn sem við nú sjáum í Evrópu er nánast fordæmalaus. Þeir sem hafa langt minni, muna hvernig ástandið var í lok síðari heimstyrjaldarinnar. Við horfum nú til atburða sem minna á það. Eflaust verður langt framhald á því og við Íslendingar eigum eftir að verða í vaxandi mæli varir við þessa atburði – enda erum við hluti af stærri heild, þ.e. álfunni og heiminum öllum.
Málefni útlendinga eru viðmikil, viðkvæm og oft snúin. Við höfum mikið regluverk og flókið um málefni útlendinga og hefur það allt verið í endurskoðun. Nú hillir undir að lagafrumvarp verði lagt fyrir Alþingi. Með því er stefnt að margvíslegum umbótum í þessum málaflokki. Það er alltaf viðkvæmt að fjalla um líf einstaklinga hvort sem þeir leita hingað eftir atvinnu, betri lífskjörum eða blátt áfram til þess að bjarga lífi sínu og flýja átök og hættur heima fyrir.
Í því tilliti öllu þarf að gera greinarmun á flóttamönnum og innflytjendum. Flóttamenn eru þeir sem hafa verið neyddir til að flýja heimili sín og líf sitt og eiga engra annarra kosta völ. Innflytjendur eru þeir sem kjósa að flytjast til annars lands, hvort sem það er í leit að betra lífi, til að mennta sig, öðlast reynslu á nýjum stað eða hvaðeina annað. Mikilvægt er að gera greinarmun á þessum hópum enda eru þarfir þeirra mjög ólíkar og verkefni stjórnvalda gagnvart þeim sömuleiðis. Það mun taka okkur Íslendinga tíma að ná utan um þessa þræði sem við nú erum með á hendi.
Það sem skiptir máli að missa ekki sjónar af er að í þessu felast bæði áskoranir og tækifæri. Við þurfum að vera raunsæ, takast á við verkefnin af festu en við þurfum líka að líta yfir sviðið og sjá tækifærin, mannauðinn og það sem er svo sterkt í okkur öllum – viljann til að öðlast gott líf – fyrir sig og sína.
Að öðru leyti hafa verkefnin einkennst af því að efnahagslífið er smá saman að rísa úr öldudal. Við höfum ekki enn nægilega fjármuni til að hrinda öllum verkefnum í framkvæmd hvort sem er á sviði þjónustu, nýjunga eða fjárfestinga. Við þurfum að forgangsraða í þágu þess sem brýnast er og skilar okkur mestum framförum. Það höfum við gert og við horfum bjartsýn fram á veginn.
Árið 2015 var margt sérstakt fyrir mig persónulega. Mesta breytingin var sú að taka við embætti innanríkisráðherra. Það var mikil áskorun að takast embættið á hendur og ég gerði mér grein fyrir því að það yrði ekki auðvelt. Ég var þá nýlega staðin upp úr erfiðum veikindum. Enginn veit þó hvað framtíðin beri í skauti sér og ég er ævinlega þakklát fyrir það hæfa starfsfólk sem sinnir heilbrigðiskerfi okkar og okkur sem á því þurfum að halda. Við vitum aldrei með vissu hvaða verkefni lífið færir okkur.
Í lok árs höfum við tilhneigingu til að líta til baka og hugleiða hvernig við höfum tekið á þeim málum sem okkur eru falin, hvernig við komum fram hvort við annað – heima hjá okkur, á milli hjóna, hvernig við tölum við og ölum upp börnin okkar og hvað það er sem við viljum innræta hjá þeim. Og um leið – hvað við viljum rækta með sjálfum okkur.
Ég er sátt þegar ég lít til baka. Sátt við að hafa fengið að njóta margvíslegra persónulegra gæða og sátt við nýja reynslu sem embættið hefur fært mér á mörgum sviðum. Ég hef kynnst nýju fólki og nýjum verkefnum og tekist á við pólitísk verkefni frá annarri hlið en ég hef áður reynt. Á síðari hluta ársins ákvað ég svo að gefa kost á mér í embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Með þessu hef ég snúið af fullum krafti í stjórnmálin á ný. Eftir að ég tók við embætti innanríkisráðherra varð ég smá saman sannfærð um að ég gæti haft eitthvað til málanna að leggja á vettvangi stjórnmálanna, ekki aðeins í embætti ráðherra heldur einnig sem virkur þátttakandi í mínum flokki. Stjórnmálin eru lifandi og ófyrirsjáanleg eins og lífið sjálft. Við vitum ekki hvað kemur næst þótt við þykjumst reyna að sjá það fyrir.
Við göngum nú til móts við jólahald og áramót. Ég hlakka til nýs árs og nýrra verkefna, þau munu bera að án þess að við fáum rönd við reist og án þess að við vitum hvað er framundan. Við tökumst á við þau með þeirri reynslu og þekkingu sem við búum yfir.
Megi tímamótin færa okkur frið og kjark til að takast á við verkefnin sem okkur eru falin.