Fordómar, flóttafólk, þjóðkirkjan og trúfrelsi
Prestarnir Árni Svanur Daníelsson og Kristín Þórunn Tómasdóttir fjalla um aðskilnað ríkis og kirkju.
Við viljum staldra við fernt í umræðunni um trúmál á árinu sem er að líða: Fordóma, flóttafólk, stöðu þjóðkirkjunnar og trúfrelsi.
Fordómar ársins
Ef veitt væru verðlaun fyrir fordóma ársins á sviði trúmála þá kæmu þau líklega í hlut Donalds Trump sem á dögunum lýsti því yfir að banna ætti múslimum að koma til Bandaríkjanna, hvort sem þeir væru ferðamenn eða innflytjendur.
Það má hafa mörg orð um yfirlýsingu hans en tvennt sló okkur: Í fyrsta lagi gerði Trump sig sekan um alhæfingu sem býr til einsleitan massa úr öllum múslimum. Í öðru lagi virðist hann ganga út frá því að fólk sem er islamtrúar sé líklegra til að vinna hryðjuverk en aðrir. Hvorugt stenst nokkra rýni.
Þarna er Trump því miður ekki einn á ferð. Skoðanir sem þessar hafa sést í ræðu og rit á árinu sem er að líða, ekki síst í umræðum um flóttafólk, stríðsátökin fyrir botni Miðjarðarhafs og ofbeldisverk ISIS.
Átök og ofbeldi hafa verið fylgifiskur mannkyns gegnum aldirnar. Stundum tengjast trúarbrögð átökum beint eða óbeint. Stundum eru trúarbrögð notuð sem tyllástæða átaka. Ofbeldisverk ISIS í kjölfar ófriðarins í Sýrlandi, ekki síst þau sem hafa voru unnin í Frakklandi, hafa sett ofbeldi í trúarbragðabúningi á dagskrá á Vesturlöndum og enn á ný vakið umræðu um notkun trúarbragða í hagsmuna- og valdabaráttu.
Mál málanna
Ársins 2015 verður þó líklega minnst fyrir að augu Evrópu opnuðust fyrir flóttamannavandanum sem má rekja til stríðsátaka í Sýrlandi. Flóttafólkið fékk andlit og nöfn og ekki var lengur hægt að líta fram hjá mannlegum hörmungum og áskorunum þeirra sem flýja átök og áföll og leita öryggis í nýju landi.
Fyrir tæpum sjötíu árum voru gífurlegir fólksflutningar í kjölfar síðari heimstyrjaldarinnar og átaka herveldanna. Milljónir Evrópubúa voru á vergangi. Það var í þeim aðstæðum sem margar af þeim alþjóðastofnunum sem nú sinna málefnum fólks á flótta litu fyrst dagsins ljós. Þjóðkirkjan á aðild að einni þeirra, Lútherska heimssambandinu. Það sinnir flóttamannaaðstoð, hjálparstarfi og þróunarhjálp um allan heim – óháð trúarskoðunum þeirra sem þiggja aðstoðina.
Stríði í Sýrlandi og nálægum löndum hefur vakið athygli umheimsins á hvað minnihlutahópar, þ.m.t. trúarlegir minnihlutahópar, eru oft í viðkvæmri stöðu og hversu fólk er berskjaldað í aðstæðum sem skapast þegar ólíkir hópar takast á.
Þetta sjáum við meira að segja hér á Íslandi, þar sem kristnum hælisleitendum frá múslimskum löndum hefur fjölgað í þeim ört stækkandi hópi sem sækir um alþjóðlega vernd. Þetta verðum við vör við í starfi þjóðkirkjunnar á Reykjavíkursvæðinu þar sem Laugarneskirkja og Hjallakirkja standa fyrir reglulegum guðsþjónustum og hópastarfi fyrir hælisleitendur. Þar finnum við sannarlega fyrir því að heimurinn okkar er lítill og að við erum öll tengd.
Þjóðkirkja?
Er þjóðin að yfirgefa kirkjuna í þeim mæli að óhætt sé að tala um endalok þjóðkirkjunnar? Af umfjöllun fjölmiðla og niðurstöðum skoðanakannana má ráða lítil stemning sé fyrir núverandi fyrirkomulagi samskipta ríkis og kirkju þar sem ríkið fer með forsjá yfir eignum þjóðkirkjunnar og skuldbindur sig í staðinn til að styðja hana og vernda, eins og segir í stjórnarskránni. Það má þó ekki rugla breytingum á tengslum ríkis og kirkju saman við stöðu og framtíð þjóðkirkjunnar sem trúfélags. Svo má ekki gleyma að fyrir örfáum árum var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að sérstakt ákvæði ætti að vera um þjóðkirkju í nýrri stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Þeir sem aðhyllast beint lýðræði geta ekki horft framhjá því.
Við tökum undir með þeim sem benda á að umræða um aðskilnað ríkis og kirkju er iðulega á villigötum, sérstaklega þegar hún snýst um fjármuni. Það er einfaldlega rangt að ríkið muni spara svo og svo marga milljarða ef fallið verður frá núverandi fyrirkomulagi.
Við tökum undir með þeim sem benda á að umræða um aðskilnað ríkis og kirkju er iðulega á villigötum, sérstaklega þegar hún snýst um fjármuni. Það er einfaldlega rangt að ríkið muni spara svo og svo marga milljarða ef fallið verður frá núverandi fyrirkomulagi. Greiðslur hins opinbera til þjóðkirkjunnar hvíla á samningi sjálfstæðra aðila. Ríkið greiðir kirkjunni endurgjald – rétt eins og það hefði eignir á leigu. Formleg tengsl ríkis og kirkju eru ekki forsenda þess að greitt sé af þessum samningi.
Hins vegar er alveg óþarfi fyrir unnendur kristni á Íslandi að vera upptekin af þjóðkirkjufyrirkomulagi sem byggir á óbreyttum samskiptum ríkis og kirkju. Það er ekkert sjálfgefið að núverandi form þeirra samskipta þjóni kirkju eða ríki. Orkunni sem færi í að berjast fyrir óbreyttu ástandi í því máli væri líklega betur varið í annað. Þjóðkirkjan lifir nefnilega, sama hvert formið er á sambandi hennar við íslenska ríkið.
Trúfrelsi í múltí kúltí samhengi
Að síðustu þetta. Trúfrelsi er ekki lúxusmál heldur hluti af grundvallarmannréttindum. Það eru líka sjálfsögð mannréttindi að standa utan trúfélaga og iðka sitt trúleysi í friði. Þessa sér ekki alltaf merki í samskiptum og stefnumörkun á Íslandi. Það má alveg færa rök fyrir því að ýmsar samþykktir stjórnmálahreyfinga og borgaryfirvalda síðustu misserin birti ekki djúpan skilning á hlutverki trúar í menningu og samfélagi. Úr því þarf að sjálfsögðu að bæta.
Það er von okkar nú þegar nýtt ár lítur dagsins ljós, að íslenska umræðan um trú, trúarbrögð, kirkju, trúfélög og trúleysi, taki minni svip af Donaldi Trump og fordómum um trú annarra og meiri svip af samfélagi sem metur framlag trúarbragða og lífsskoðana í mannrækt og mannvirðingu og tryggir raunverulegt trúfrelsi fyrir alla þegna sína.
Árni Svanur Daníelsson og Kristín Þórunn Tómasdóttir, prestar