Sem fyrr, þegar hallar að jólum og áramótum, er litið til baka yfir árið sem er að líða. Spurningin sem leitar á mann; hefur maður gengið götuna til góðs; hefur eitthvað mjakast fram á við frá því í fyrra? Þegar stjórnmálin eru annars vegar, sér hver málin út frá sínu sjónarhorni, sem vonlegt er. Niðurstaðan er yfirleitt sú sama, sumt hefur gengið fram, annað ekki; enginn fær allt, en vonandi allir eitthvað. Það væri hægt að tína til ýmsar tölfræðilegar staðreyndir úr hagfræðinni sem staðfesta að árangurinn á ýmsum sviðum er æði góður. En viðgangsefni stjórnmálamanna ganga aldrei til þurðar. Stjórnmál einkennast á köflum af viðbrögðum við hinu óvænta. Þótt ýmsum verkefnum sé nú lokið, taka alltaf ný við. Sum eru kannski fyrirsjáanleg, sum alls ekki. Tveir málaflokkar heyra undir mig og því rétt að fara í stuttu máli yfir þá.
Sjávarútvegur
Sjávarútvegurinn á Íslandi er sá eini innan OECD
sem ekki þiggur stuðning frá ríkinu. Það sem meira er; hann skilar þjóðarbúinu
gríðarlegum tekjum. Útflutningstekjur af sjávarútvegi eru um 40% af heildar
vöruútflutningstekjum þjóðarinnar. Sjávarútvegurinn á í óvæginni erlendri
samkeppni og því mikilvægt að hann hafi tækifæri til að standast hana. Við
leggjum mikla áherslu á sjálfbærar veiðar og uppbyggingu fiskistofna í okkar
lögsögu. Um það hefur ríkt mikil samstaða milli stjórnvalda og
atvinnugreinarinnar sjálfrar. Fyrir þá stefnu og hvernig við höfum staðið að
okkar málum, tengdum sjávarútvegi, höfum við hlotið virðingu og viðurkenningu á
alþjóðavettvangi. Þar er mikilvægt að sjávarútvegurinn rísi undir þeim
væntingum sem til hans eru gerðar. Frá mínum bæjardyrum séð, gerir hann það.
Á dögunum komu þær upplýsingar frá Hafrannsóknarstofnun
að vísitala þorsks í stofnmælingu að hausti í ár, sé sú hæsta síðan mælingar
hófust fyrir tæpum tveimur áratugum. Það sama gildir um nokkrar aðrar tegundir.
Í mínum huga er þetta afar skýr vísbending um að vel hefur verið haldið á málum
og nýting verið skynsamleg á undanförnum árum. Með sama áframhaldi er þess vonandi
skammt að bíða að þorskveiði verði komin yfir 300 þúsund tonn á ári. Það er
mikil breyting frá því að hún var eingöngu um 130 þúsund tonn. Við þetta bætist
að mun meira er nú nýtt af hverjum fiski en áður. Ekki síst á vettvangi
líftækni. Fiskveiðistjórnunarkerfið á sinn þátt í þessu, en ekki síst vísindin.
Á þau hefur verið hlustað og ég hef í störfum mínum farið eftir veiðiráðgjöf
Hafrannsóknarstofnunar og hyggst gera það áfram.
Íslenskur sjávarútvegur berst á alþjóðlegum
markaði; oft á tíðum við ríkisstyrktan sjávarútveg. Þeim mun merkilegri er
góður árangur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. En hann er ekki sjálfgefinn.
Mikilvægt er að hlúa að sjávarútveginum svo hann geti áfram verið sú stoð í
íslensku efnahagslífi sem hann hefur verið um langt skeið.
Landbúnaður
Nú standa yfir viðræður við bændur um svo kallaðan
búvörusamning. Í þeim er tekist á um hver aðkoma ríkisins á að vera að
matvælaframleiðslu sem er í þeirra höndum. Rætt hefur verið um að gera nokkrar
breytingar á ríkjandi fyrirkomulagi á starfsumhverfi bænda. Það hefur löngum
verið þyrnir í augum margra, að bændur hafa þurft að kaupa stuðningsgreiðslur
frá ríkinu; svo kallað greiðslumark. Í nýjum samningum verður reynt að vinda
ofan af þessu fyrirkomulagi í stuttum skrefum. Í núverandi kerfi fer allnokkur
stór hluti af tekjum margra bænda í að greiða fyrir kaup á greiðslumarki.
Stuðningsgreiðslurnar koma þeim bændum ekki að fullu til góða; þær enda í
höndum þeirra sem fjármagna kaupin, það er bönkum og fjármálastofnunum.
Mér hefur lengi fundist að brjótast þurfi út
úr þessu kerfi, þó án þess að þeir sem fjárfest hafa í greiðslumarki verði
fyrir áföllum. Stefnt er að því að stuðningurinn greiðist út aðra þætti en
greiðslumark, eins og til dæmis gripi. Með því móti eykst einnig frelsi bænda
til að framleiða það sem þeir telja arðbært og þar með yrðu þeir ekki lengur
bundnir við að framleiða það sem þeir hefðu greiðslumark fyrir. Nýtt
fyrirkomulag ætti einnig að gera nýjum bændum auðveldara að hefja búskap, því
þeir þyrftu ekki að byrja á því að kaupa sér ríkisstuðning. Þótt einstaka manni
kunni að finnast best að sitja sem fastast á núverandi kerfi, þá tel ég litla
framtíð í því fyrir bændur. Matvælaframleiðsla sem miðast eingöngu við
innanlandsmarkað mun aldrei verða til
þess að hleypa auknu lífi í sveitir landsins og matvælaframleiðslu. Að
sjálfsögðu tel ég möguleika fyrir hendi á erlendum mörkuðum. Krafa fólks um
heilnæm og hrein matvæli verður sífellt háværari og það væri glapræði fyrir
Íslendinga að reyna ekki að nýta þau tækifæri sem kunna að felast í því. Og ég
heyri ekki betur en framvarðasveit bænda sé að mestu sammála mér um að stefna
beri á útflutning, ekki síst á grundvelli ímyndar.
Að lokum óska ég lesendum Kjarnans og landsmönnum öllum góðra jóla og farsældar á nýju ári.
Höfundur er varaformaður Framsóknarflokksins.