„Í ár eru 100 ár síðan konur fengu kosningarétt á Íslandi.” Þetta var ein algengasta setning ársins, í ræðum og riti – á samfélagsmiðlum og í opinberum umræðum og einkasamtölum. Pólitískur annáll ársins hlýtur að taka mið af því.
Opinber hátíðarhöld
Afmælisárið hefur gefið tilefni til að líta yfir farinn veg, þakka fyrir baráttu og framlag formæðra okkar og fagna þeim árangri sem náðst hefur í jafnréttisbaráttunni. Ekki síður hefur árið vakið fólk til umhugsunar um allt það sem enn er ógert – um óréttlætið sem ríkir í samfélaginu í dag, heilum 100 árum eftir að konur öðluðust formleg lýðræðisréttindi á við karla.
Reykjavíkurborg lét ekki sitt eftir liggja á árinu heldur fagnaði árunum 100 með 100 viðburðum. Markmiðið var að hampa þeim árangri sem hefur náðst og hvetja til framfara á sviði jafnréttismála á sama tíma. Á heimasíðu borgarinnar má skoða tæmandi lista yfir viðburðina sem voru fjölbreyttir og áhrifaríkir.
Tímamótin hafa þegar haft áhrif til framtíðar. Hátíðarfundur kvenna í borgarstjórn samþykkti að setja á laggirnar ofbeldisvarnarnefnd, menningarmerkingar um konur og sýningar á verkum kvenna munu standa áfram og stelpurnar úr Stelpur rokka og Stelpur filma munu hafa áhrif um ókomna tíð svo fátt eitt sé nefnt af 100 verkefnum borgarinnar. Því til viðbótar stóðu ríki, fyrirtæki og félagasamtök að ýmsum hátíðarhöldum með veglegum hætti.
Grasrótin
Það er eins með kvenfrelsisbaráttuna og aðra mannréttindabaráttu, hún verður seint háð af hinu opinbera. Þó Reykjavíkurborg sé öll af vilja gerð og beiti sér sem stjórnvald, sveitarfélag og samstarfsaðili að bættu samfélagi, þá verður þekkingin, krafturinn og gróskan alltaf mest í grasrótinni.
Á meðan hið opinbera fagnaði á sinn hátt hristi grasrótin upp í samfélaginu. Grasrótin vildi engin helvítis blóm, heldur frelsaði geirvörturnar, afhjúpaði sexdagsleikann, talaði upphátt, skilaði skömminni, stóð saman og sigraði Skrekk.
Miðað við allt og allt var afmælisárið eins og best verður á kosið. Hátíðlegt og byltingarkennt á sama tíma. Sagan (og hið hversdagslega misrétti samtímans) varð grasrótinni innblástur sem vakti samfélagið til umhugsunar og krafðist aðgerða, úrbóta og raunverulegrar sanngirni.
Framhaldið
Á næsta ári verður 101 ár frá því konur fengu kosningarétt á Íslandi. Öll afmæli eru stór og við eigum að taka hverjum degi fagnandi. Viðfangsefnin eru ærin, við megum auðvitað vera þakklát fyrir árangur og baráttu formæðra okkar en verðum að halda ótrauð áfram.
Á meðan 10 ára stelpur eru kallaðar hórur, á meðan réttarkerfið tekur harðar á búðahnupli en nauðgunum, á meðan karlar tala viðstöðulaust við karla um karla í fjölmiðlum, á meðan launamunur kynjanna er til staðar og kona hefur aldrei verið seðlabankastjóri, á meðan hvítur miðaldra gagnkynhneigður karl er viðmiðið og allt annað frávik, á meðan misréttið er jafn augljóst og yfirþyrmandi og raun ber vitni – þá ber okkur að halda áfram. Öllum í sameiningu.
Áramótaheitið mitt í ár: Að verða róttækari og ákveðnari, beita mér fyrir fleiri og stærri skrefum í átt að jafnrétti, innblásin af baráttuanda formæðra minna og komandi kynslóða. Ég skora á þig lesandi góður, á Kjarnann og aðra fjölmiðla, á samstarfsfólk mitt í borgarstjórn, annað sveitarstjórnarfólk, þingmenn, fyrirtæki og félagasamtök að gera slíkt hið sama. Í sameiningu getum við þannig gert þetta hátíðlega byltingarár sem brátt er að baki að upphafinu að einhverju stórkostlegu.