Það er fagnaðarefni þegar samkeppni eykst neytendum til hagsbóta. Netflix tók enn eitt risaskrefið í gær í sinni þjónustu og opnaði sjónvarpsefnisveitu sína á 130 nýjum markaðssvæðum, þar á meðal á Íslandi.
Áskriftarleiðirnar sem í boði eru kosta á bilinu eitt þúsund til 1.700 krónur á mánuði, sem telst mjög ódýrt á íslenskan mælikvarða, og vafalítið margir sem fagna þessari þjónustu.
Stjórnendur fyrirtækja sem selja aðgang að sjónvarpsefni í áskrift hér á landi, hljóta að vera margir hverjir með í maganum vegna innreiðar Netflix, ekki síst stærsta fyrirtækið á þeim markaði, 365. En almenningur græðir á þessu, þar sem fleiri valkostir eru í boði, og samkeppni um verð hlýtur að harðna. Annað væri óeðlilegt.
Innkoma Netflix er fagnaðarefni fyrir neytendur, og dæmi um hvernig alþjóðleg samkeppni birtist sem jákvæð innspýting í þjónustuumhverfi fólks.