Það vakti athygli í gær þegar greint var frá því að meðal fyrstu embættisverka Guðna Th. Jóhannessonar sem forseti Íslands verður að flytja hátíðarávarp á Hinsegin dögum, eða Reykjavík Pride. Hann ætlar að fljúga frá Dalvík, þar sem hann tekur þátt í Fiskideginum mikla, til þess að geta verið þátttakandi í hátíðinni.
Fréttirnar vöktu kannski ekki síður athygli vegna þess að þetta er í fyrsta sinn sem forseti tekur þátt í þessari hátíð, sem er þó ein allra stærsta hátíð sem haldin er á Íslandi og hefur löngu skipað sér sess í samfélaginu. Aðstandendur Hinsegin daga greindu frá því að þeir hefðu verið hóflega bjartsýnir á þátttöku Guðna vegna þess að Ólafur Ragnar Grímsson hafi jafnan hafnað þátttöku þegar eftir því hafi verið leitað á fyrstu árum hátíðarinnar. Þetta kom reyndar fram í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum, þegar fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtakanna '78 sagði að Ólafur Ragnar hafi aldrei mætt á viðburði þar sem sigrum í réttindabaráttu hinsegin fólks hafi verið fagnað. Forsetinn þáverandi brást ókvæða við þessu og sagðist alltaf hafa stutt baráttu samkynhneigðra og lagt henni lið. En hann útskýrði ekki hvers vegna hann hefði aldrei mætt á Hinsegin daga.
Það er óþarfi að dvelja frekar við fortíðina í þessum málum, en kannski er hún enn frekari ástæða til að fagna þessum sterku skilaboðum sem nýr forseti sendir í mannréttindabaráttu strax fyrstu dagana í embætti.