Óskrifuð regla er á mörgum heimilum að það sé ekki sami einstaklingurinn sem eldar og vaskar upp eftir matinn. Ef pabbi eldar þá vaskar mamma eða börnin upp.
Þetta kerfi er svo gamalt og hefðin svo gróin að það er nánast ómögulegt að hugsa sér annarskonar kerfi. Hefðin er svo vel rótuð að við látum okkur ekki einu sinni detta það í hug að skora á hvort hefðin sé af hinu góða, eða hvort megi bæta hana.
Þegar hefðin er skoðuð nánar, og í gegnum gleraugu hagfræðinnar, er nokkuð ljóst að hún er misheppnuð. Hvatarnir eru allir á þvers og kruss. Og kokkurinn græðir á kostnað uppvaskarans. Ástæðan er einföld: Kokkurinn ber ekki kostnaðinn af eigin óskilvirkni og leti.
Ef kokkurinn veit að hann þarf að taka til eftir eldamennskuna reynir hann af öllum mætti að lágmarka skítug eldhúsáhöld og leirtau. Hann getur gert það með því að vanda valið á matnum (sumir réttir krefjast fleiri áhalda). Einnig getur hann endurnotað sleifar í hina ýmsu potta. Svo getur hann sparað sér þrifin seinna með því að vaska upp á milli verka. Ef kokkurinn ber allan kostnað – og nýtur bata – verka sinna, þá reynir hann að framleiða eins lítið uppvask og hann mögulega getur.
En ef það er ekki sami einstaklingur sem eldar og vaskar upp breytist allt. Kokkurinn getur nú eldað forrétt í nokkrum pottum, hver með sína sleif. Því næst getur hann ofnbakað grænmeti, sem krefst nokkurra skurðbretta og bökunarskúffu. Hann getur svo gert fjöldan allan af tilraunum með sósur. Ef þær brenna aðeins á botni pottsins þá getur hann bara sótt annan pott. Ekki eins og hann þurfi að vaska upp.
Eftir matinn getur kokkurinn svo breitt úr sér á sófanum. Maki hans, uppvaskarinn, fer inn í eldhús og á móti tekur Tjernóbil, í formi eldhúss. Makinn þarf nú, með troðfullan magann, að strita í nokkra klukkutíma. Skrúbba brunann úr pottinum, hreinsa ofnskúffuna, sem er ómögulegt í venjulegum vaski og þrífa tómatslettur úr loftinu.
Ef fólk ber ekki fullan kostnað gjörða sinna þá gerir fólk meira af því slæma en samfélag þeirra hefur gott af. Ef bílafólk borgar ekki fyrir slit á malbikinu þá keyrir það of mikið. Ef álver borga of lágt rafmagnsverð og eru ekki rukkuð fyrir að menga, þá menga þau of mikið. Ef Hvalur hf. borgar ekki fyrir mannorðsskaðann sem Ísland verður fyrir vegna hvalveiða þá veiða þeir of marga hvali.
Að þvo sósupott áður en sósan harðnar tekur hálfa mínútu. En að þrífa pottinn, þegar allt er orðið þurrt og hart eftir matinn, getur tekið allt að fimm mínútur. Ef kokkurinn hefði þurft að vaska upp sjálfur þá hefði hann gert það strax og sparað samfélaginu 4,5 mínútur. En svo lengi sem makinn vaskar upp þá heldur þessi sóun áfram.
Þegar okkar kynslóð liggur á dánarbeðinu og við fylgjumst með næstu kynslóð þrífa upp skítinn eftir okkur, þá á það eftir að taka þau lengri tíma að laga til heldur en ef við hefðum bara drullast til að taka til eftir okkur, samhliða því sem við rusluðum okkar stórfenglegu plánetu út.