Skeggjaður maður í kjól rústaði Eurovision um síðustu helgi. Hann rústaði auðvitað ekki keppninni bókstaflega, eða gjörvallri Evrópu eins og hatursmenn hans fullyrða að sé í aðsigi, heldur vann hann söngvakeppnina með fádæma yfirburðum. Hann var glæsilegur, einkar vel til hafður, og söng sigurlagið af stakri prýði, sem mér fannst reyndar ekki skemmtilegt lag. En það skiptir auðvitað engu máli, því ég gæti ekki verið ánægðari með úrslitin.
Með fullri virðingu fyrir sigurlaginu leyfi ég mér að efast um að lagasmíðin hafi ráðið úrslitum. Það er mín skoðun, en ég gæti alveg haft rangt fyrir mér. Ég held að Conchita Wurst hafi rústað Eurovision af því að hún opnaði augu og vakti athygli á kreddunum sem búa í mörgum okkar. Og fyrir einmitt það þökkuðu íbúar Evrópu henni með því að krýna hana sem sigurvegara.
Ég viðurkenni nefnilega, með trega þó, að Conchita kom mér spánskt fyrir sjónir í fyrsta skiptið þegar ég sá hana eitt kvöldið í upphitunarþættinum Alla leið sem sýndur var á RÚV í aðdraganda Eurovision-keppninnar. Þarna blasti við mér sjón sem ég átti ekki að venjast, alskeggjuð kona í glæsilegum kjól, og ég vissi hreinlega ekki alveg hvað mér ætti að finnast. Auðvitað hef ég oft séð karla í draggi, en skeggið gerði útlit hennar þeim mun áhrifameira.
Nokkrum sekúndubrotum síðar áttaði ég mig á því að mér ætti bara ekki að finnast neitt annað en að þetta væri fullkomlega eðlilegt allt saman og í stakasta lagi og brosið skreið fram.
Um leið gerði ég mér grein fyrir hvernig staðalímyndir og hugmyndir um hlutverk kynjanna hafa smeygt sér inn í höfuðkúpuna og tekið sér bólfestu án þess að ég hafi nokkru sinni boðið þeim að kíkja í kaffi. Þessi auto-pilot stilling getur farið alveg hrikalega í taugarnar á mér. Ég sem lít á mig sem svo opinn og nútímalega þenkjandi uppalanda.
Gleðin sem ég fann þegar ég uppgötvaði hvað ég er ekki nógu víðsýnn heldur forpokaður breytist fljótlega í leiða. Ég varð leiður yfir því að hafa látið Conchitu setja mig út af laginu. Ég áttaði mig á því hvað það var fáránlegt, og satt best að segja skammaðist ég mín.
Ég sat eins og þorri landsmanna límdur við sjónvarpsskjáinn, ásamt fjölskyldunni, á milli þess sem ég stökk út á svalir og kíkti á hamborgarana brenna á gasgrillinu. Við skemmtum okkur konunglega saman yfir keppninni og misjöfnu lögunum. Ekkert lag var frábært, nokkur lög voru þokkaleg en flest þeirra hræðileg. Sviðsframkoma pólsku stúlknanna varpaði hins vegar skugga á annars skemmtilega kvöldstund, þar sem þær kepptust við að snara atkvæði Evrópubúa í flegnum búningum með nektina að vopni. Ég leyfi mér að efast stórlega um að þær hafi teiknað búningana sína sjálfar.
Mín upplifun af Conchitu, fyrst furða, svo uppljóstrun, gleði og sorg, er því miður ekki sama upplifun og hatursmenn hennar upplifðu. Þeir forhertust öllu heldur í hatrinu, hommafælninni og fordómunum. Þeir eru brjálaðir út í hana fyrir að reyna að raska heimsmyndinni þeirra, sem þeim finnst ekkert annað en eðlilegt og sjálfsagt að þröngva upp á aðra og þá oft og tíðum með ofbeldi.
Rússneski vitfirringurinn Vladimír Zhirinovskí, sem vildi eitt sinn breyta Íslandi í fanganýlendu, fordæmdi til að mynda Conchitu og sagði hana marka upphaf endaloka Evrópu. Aðrir, sem mig minnir að hafi aðallega verið Rússar líka, hafa sömuleiðis drullað yfir keppnina og Conchita hefur fengið sinn skerf af forheimskunni. Sumir hafa meira að segja gengið svo langt að saka áhorfendur í keppnishöllinni í Kaupmannahöfn um vanvirðingu í garð keppenda Rússlands. Á sama tíma og þeir opinbera fordómasýkt höfuð sín kvarta þeir undan því að áhorfendur sýni atriði frá landi sem lemur á hinsegin fólki vanþóknun. Hræsni.
Rússnesku hatursmennirnir virðast hins vegar sem betur fer nokkuð einangraðir í afstöðu sinni, sé mið tekið af því hvernig Evrópa tók Conchitu opnum örmum. Það er sterk vísbending um að við séum á réttri leið.
Conchita opnaði augu mín, og fyrir það er ég þakklátur. Ætlun mín með þessum skrifum er ekki að fordæma þá sem ekki sáu ljósið og stóðu naktir frammi fyrir fordómum sínum eða hugmyndum um stöðu og hlutverk kynjanna. Það er of stór pöntun að ætlast til að allir breytist til hins betra eða að allir verði umburðarlyndir gagnvart fjölbreytileika tilverunnar.
Hins vegar er ekki til of mikils mælst að við séum öll alltaf meðvituð um að við getum breyst til hins betra. Að við tökum breytingum fagnandi, og hvetjum fólk til að koma út úr skelinni frekar en að hanga þar inni hrætt við fólk sem nennir ekki að breytast.
Oft þarf ekki meira til en skeggjaða konu til að opna augu manns. Ég held nefnilega að Conchita sé boðberi réttra viðhorfa.
Leiðarinn birtist fyrst í nýjasta Kjarnanum. Lestu hann hér.