Í síðustu viku tilkynnti Hanna Birna Kristjánsdóttir að hún ætlaði sér ekki að bjóða sig aftur fram til embættis varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Í bréfi sem hún birti vegna þessa sagði hún m.a.: "En þegar nú blasir við að eina ferðina enn á að stilla ákvörðunum er mig varða upp sem einhverju uppgjöri við hið svokallaða lekamál þá finn ég sterkt að ég hvorki get né vil leggja enn einn slaginn um það mál á flokkinn, mig eða mína. Ég ítreka hversu miður mér þykir að það tveggja ára gamla mál skyldi fara eins og það fór, vildi óska að ég hefði vitað þá það sem ég veit nú – en endurtek að ég reyndi í öllu því ferli að gera það sem ég á hverjum tíma taldi rétt og satt."
Gísli Freyr Valdórsson, fyrrum aðstoðarmaður Hönnu Birnu sem játaði fyrir tæpu ári að hafa lekið minnisblaði um hælisleitanda til fjölmiðla og hlaut fyrir vikið átta mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm, setti stöðuuppfærslu á Facebook vegna þessarra tíðinda. Þar sagði hann það vera óbærilegt fyrir sig að upplifa að Hanna Birna skuli enn og aftur þurfa að líða og hörfa vegna þeirra mistaka sem hann gerði sem hennar aðstoðarmaður. "Eftir náið og gott samstarf valdi hún að treysta mér og trúa þegar ég leyndi hana upplýsingum. Það voru, því miður, líklega hennar stærstu mistök í málinu."
Ásdís Halla Bragadóttir, fyrrum bæjarstjóri í Garðabæ og vinkona Hönnu Birnu, setti líka stöðuuppfærslu á Facebook sem í stóð: "Fáir stjórnmálamenn hafa axlað ábyrgð með þeim hætti sem hún gerði þegar hún sagði af sér vegna lekamálsins þrátt fyrir að upphaf þess hafi mátt rekja til atburða sem hún hafði enga vitneskju um". Svo lét hún í það skína að flokksmenn Sjálfstæðisflokksins væru að leggja Hönnu Birnu í einelti.
Þótt ekki sé nema nokkrir mánuðir síðan að lekamálið var leitt til lykta af umboðsmanni Alþingis þá virðast þessar yfirlýsingar, sem allar miða að því að gera Hönnu Birnu að fórnarlambi lekamálsins, treysta á lélegt skammtímaminni þeirra sem þeim er beint að.
Ástæða þess að Hanna Birna þurfti að segja af sér sem ráðherra, og missti mikla tiltrú sem stjórnmálamaður - bæði hjá almenningi og innan eigin flokks - var ekki sú að aðstoðarmaður hennar hafi lekið minnisblaði um hælisleitanda til fjölmiðla. Ástæðan fyrir óumflýjanlegu falli Hönnu Birnu var hegðun hennar og valdníðsla í kjölfar þess að lekinn komst í hámæli.
Á því rúma ári sem leið frá því að lekamálið kom upp og þar til að Hanna Birna sagði af sér ráðherradómi átti eftirfarandi sér stað:
-
Hún hafði samband við ritstjóra DV og reyndi að fá blaðamennina sem skrifuðu um lekamálið rekna.
-
Hún bendlaði Rauða kross Íslands við lekann á minnisblaðinu.
-
Hún í besta falli villti um fyrir þingheimi og í versta falli laug hún að honum.
-
Hún skammaði samþingmenn sína fyrir að spyrja sig út í lekamálið á þingi og ásakaði þá um „ljótan pólitískan leik“.
-
Hún lét rekstrarfélag stjórnarráðsins framkvæmda hvítþvottarannsókn á lekamálinu sem skilaði villandi niðurstöðu.
-
Lögmaður fyrrum aðstoðarmanns hennar, sem starfaði í hennar umboði og á hennar ábyrgð, gaf í skyn í greinargerð sem lögð var fram fyrir dómi að ræstingarfólk eða öryggisverðir í innanríkisráðuneytinu hefði getað lekið minnisblaðinu.
-
Hún fór langt út fyrir valdsvið sitt og reyndi að hafa áhrif á lögreglurannsókn sem snéri að henni og aðstoðarmönnum hennar með því að hamast á þáverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, Stefáni Eiríkssyni, með símtölum, fundarboðum og hótunum.
-
Lögmaður á hennar vegum krafði sama lögreglustjóra, sem síðar hætti í starfi sínu, um skýringar á því sem hann hefði greint umboðsmanni Alþingis frá um samskipti þeirra.
-
Hún reyndi ítrekað að hafa áhrif á athugun umboðsmanns Alþingis á framgöngu hennar í lekamálinu og gaf í skyn að hann setti fram „eigin dylgjur og dóma án rökstuðnings eða réttarhalda."
Niðurstaða athugunar umboðsmanns Alþingis, sem var opinberuð í upphafi árs, sýndi að Hanna Birna hefði stundað fordæmalausa valdníðslu með því að hafa ítrekuð og mikil afskipti af rannsókn lekamálsins.
Það ber því enginn annar ábyrgð á þeirri stöðu sem stjórnmálamaðurinn Hanna Birna Kristjánsdóttir er í nema hún sjálf. Hún er ekki fórnarlamb lekamálsins heldur aðalgerandinn í þeirri atburðarrás sem átti sér stað í kjölfar þess að aðstoðarmaður hennar lak hinu fræga minnisblaði.