Er það launahækkun ef hluti af heildarlaunum er færður frá yfirvinnuhluta inn í fastar mánaðargreiðslur?
Það fer eftir því hvernig það er gert. Ef um er að ræða hækkun sem leggst á jafnmikla yfirvinnu og fyrir er þá er svarið já, þetta er launahækkun.
Ef aftur á móti launakerfinu er breytt jafnhliða og dregið úr yfirvinnu með breyttu vinnufyrirkomulagi þannig að heildarlaunagreiðslur verði þær sömu fyrir og eftir breytingu er þetta þá líka launahækkun?
Þá er þetta hvorki launahækkun né launalækkun í krónum talið.
Ef yfirvinna er felld niður í framhaldi af svona breytingum þá getur þetta verið launalækkun, nema að hækkun fastra mánaðarlauna nemi allt að 50 % og jafnvel meira, hjá sumum stéttum rannsóknasviðs Landspítalans.
Ef skoðuð er röðun starfa eftir launaflokkum hjá BHM þá kemur í ljós að lífeindafræðingar, sem margir starfa á rannsóknasviði Landspítalans, eru meðal þeirra sem lægst hafa launin. Ef litið er á röðun starfa eftir útborguðum heildarlaunum þá kemur í ljós að laun lífeindafræðinga eru um meðallag innan BHM.
Þetta þýðir í raun að lífeindafræðingar vinna meira en flestar stéttir innan BHM til að ná þessum heildarlaunum. Ef við berum það nú saman við upplýsingar sem áður hafa birst um meðalaldur stéttarinnar hjá Landspítalanum þá er útkoman sú að eldri konur (þvi langflestir lífeindafræðingar hjá Landspítalanum eru konur, sem eru flestar komnar yfir fimmtugt, en meðalaldur stéttarinnar hjá Landspítalanum er 54,7 ár og af heildinni eru 25% 64 ára eða eldri), eru að vinna einna mestu yfirvinnu sem tíðkast innan BHM.
Starfsmenn rannsóknasviðs Landspítalans eru langflestir lífeinda- og geislafræðingar og nám í þessum fögum er 3 – 5 ár við læknadeild Háskóla Íslands.
Telst þetta í raun og veru boðlegt á íslenskum vinnumarkaði árið 2015?
Getur verið að karlmenn fáist ekki í þessi störf vegna lélegra launa og langs vinnutíma?
Getur verið að umræðan sé á villigötum þegar fram koma upplýsingar um að farið sé fram á allt að 70 % launahækkanir og launafólk sé með ósvífni gagnvart vinnuveitendum?
Getur verið að það vanti vandaðri umfjöllun og greiningu á því hvernig störf eru metin til launa?
Svarið við öllum þessum spurningum held ég að geti vel verið já, því miður.
Slíkt bil er orðið á milli fastra mánaðarlauna og heildartekna að ekki tekur nokkru tali. Það hefur verið stefnan í áraraðir af hálfu okkar viðsemjenda að halda mánaðarlaununum eins lágum og mögulegt hefur verið og keyra fólk svo áfram með yfirvinnu og vaktaálagi.
Ég tel þetta ekki bara kolranga stefnu heldur stórhættulega stefnu og kostnaðarsama fyrir Landspítalann.
Það vita þeir sem vilja vita að líkur á mistökum aukast þegar fólk er þreytt, veikindadögum fjölgar þegar álag er of mikið, langtímaveikindi aukast og örorka sömuleiðis. Allt slíkt kostar beinharða peninga sem vinnuveitandinn borgar.
Mannauður rannsóknasviðsins er að mínu mati ekki tekinn með í reikninginn þegar kemur að því að semja um kaup og kjör. Vinnutími er slíkur að fólk er útkeyrt og þó ekki sé til rannsókn frá okkar vinnustað held ég að það megi alveg yfirfæra rannsóknir annars staðar frá sem sýna að framleiðni minnkar eftir því sem vinnutíminn lengist. Það eru því áhöld um hvort það sé launahækkun til starfsmanna að stytta vinnutíma en halda heildarlaunum óbreyttum. Styttri vinnutími mun að öllum líkum skila sér í aukinni framleiðni, minni veikindaforföllum og færri tæknilegum mistökum, sem aftur skilar sér í minni kostnaði við viðhald á tækjum að ógleymdri aukinni starfsánægju, sem skilar betri vinnu.
Þó það hafi verið þakkarvert framtak að bjóða starfsfólki Landspítalans ókeypis kaffi og te í vinnunni og ávaxtakörfu tvisvar í viku á kaffistofuna, þá dugir það lítið betur en ísinn sem starfsfólk ónefndrar fiskvinnslu fékk í glaðning eftir metafköst. Þegar svona langtímaskekkja er orðin í launakerfinu þá dugir ekkert annað en að leiðrétta hana. Um þá leiðréttingu verður að semja.
Höfundur er lífeindafraedingur á rannsóknarkjarna. Greinin er skrifuð vegna verkfalla á rannsóknasviði Landspítalans.