Lögreglan blikkaði okkur. Við litum hissa fyrir aftan okkur, og sáum þar rauð og blá ljósin. Bíllinn nam staðar fljótt. Við vorum þrír í honum. Ég var í aftursætinu, tveir vinnufélagar mínir í framsætunum. Ökumaðurinn í steingrárri hettupeysu og metalhljómsveitarbol, hann var með hrafnsvart hár sem náði niður að baki og fölleitur. Lögreglumaðurinn kom að bílnum bílstjóramegin og bauð góðan dag.
Hann rabbaði stuttlega við ökumanninn. Ökumaðurinn spurði hvers vegna við værum stoppaðir. Það voru fáleg svör. Hann sagðist ekki þekkja bílinn. Við værum aðkomumenn í Ólafsvík. Ökumaðurinn sagði honum að við værum að vinna hér, værum að mála. Samræðurnar héldu áfram í þá átt, þar til félagi minn var beðinn að stíga úr bílnum. Löggan leit til okkar; hún beindi að hinum félaga mínum í framsætinu að hafa hendurnar sperrtar og á hanskahólfinu. Ég átti að geyma mínar, beinar, á hauspúðanum fyrir framan mig. Fyrst áttum við samt að rétta honum skilríkin okkar, segja kennitölu og sakaferil. Það var skipun, ekki boð.
Við fylgdum skipunum hans. Annar lögreglumaður meðfram vinstri hlið bílsins. Hann eygði okkur grunsamlega, og gáði eftir grunsemdarmunum í gegnum bílrúðurnar. Rabbið milli ökumannsins og hinnar löggunnar var ennþá í gangi. Ég heyrði lítið hvað um var rætt, en mér heyrðust þeir ennþá vera að ræða ástæður okkar fyrir dvöl í Ólafsvík. Ég fékk á tilfinninguna að hann héldi að allir sem færu til Ólafsvíkur hlytu að vera lyfjaðir.
Lögreglan sagði mér, og félaga mínum í framsætinu að stíga úr bílnum. Spurningaflaumurinn hélt áfram. Við sögðum að við þyrftum að drífa okkur til Reykjavíkur þennan föstudag, því að við áttum að hitta yfirmann okkar þar um kvöldið. Það virtist talað fyrir daufum eyrum. Lögreglumaðurinn lagði fyrir okkur afarkosti: Ef við játuðum núna að við værum með fíkniefni og afhendum þau strax myndi málið klárast hér á núll-einni við yrðum bókaðir og mættum svo halda áfram för okkar. Ef þeir þyrftu hins vegar að leita og í framhaldi þess finndu fíkniefni myndu þeir fara með okkur niður á stöð. Það væri vesen og tæki langan tíma. Yrðum seint komnir í Reykjavík. Það var öll réttarstaðan sem okkur var kynnt. Við sögðumst vera tómhentir, laganna verðir voru vonsviknir að sjá.
Annar lögregluþjónninn steig fram. Án fyrirvara stakk hann höndunum í níðþröngan vasann á Levis-gallabuxunum mínum. Fann ekkert. Stakk hönd í hinn níðþrönga vasann. Fann eitthvað. Sperrtist. Varð aftur slakur. Þetta reyndist bara vera steinvala sem ég hafði tínt í Reynisfjöru síðustu helgi og gleymt í vasanum. Hann henti henni til hliðar, steig frá mér og stakk höndunum inn á félaga mína. Þetta voru engar lambburðarhendur.
Hinn lögregluþjónninn byrjaði þá að ræða við okkur um daginn og veginn. Rólegt rabb, aðallega um hluti sem við höfðum þegar talað um. Við vorum stuttir í svörum, í frekar mikilli vörn og fúllyndir í þokkabót. Það var skrítið að eiga hálfgert kaffirabb á meðan félagi hans tók sig til, gekk að bílnum hægra megin, opnaði farþegahurðina og byrjaði að tæta í gegnum ferðatöskuna mína. Ég sá hann þeytast á hundraði í gegnum ”Christiano Ronaldo” nærbrækurnar mínar og tjónkaðan peltorinn minn. Samhliða því hélt hin löggan kaffirabbinu áfram. Talaði um fegurð Snæfellsbæjar og skildi lítið hvers vegna undirtektin var ekki meiri. Við fengum á tilfinninguna að nærgætnar spurningarnar væru leið til að sjá hvort málaraferill okkar væri uppspuni. Furðulegt í ljósi þess að við vorum allir með óþvegna málningu, sem hafði skvest yfir okkur, vítt og dreift um andlitið.
Að lokum hætti hin löggan að leita bílnum. Gekk að félaga sínum og mælti fá orð við hann og beindi svo röddinni að okkur. Sagði í blíðum tón; ”Það er gott að það sé búið að leita á ykkur, þá þurfum við ekki að gera það aftur”. Þeir kvöddu og keyrðu brott.
Heimferðin var furðuleg. Við skildum ekki hvers vegna við höfðum verið teknir svo hressilega í bakaríið. Vorum við svona óvenju dópistalegir? Hafði einhver hringt í lögguna og bent á okkur sem líklega glæpamenn? Eru allir aðkomumenn sem koma í heimsókn teknir svona hressilega í gegn?
Þetta gerðist á föstudegi. Helgin leið rólega í gegn. Ég keyrði aftur til vinnu í Ólafsvík að mánudagsmorgni, gætti þess að vera í víðum buxum og með allar lagareglur sem vörðuðu starfsemi lögreglunnar á hreinu. Það var ennþá í mér mikil reiði. Ég kíkti á Vísi og Moggann. Þar sá ég loksins útskýringu. Um helgina hafði farið fram á Hellissandi lítil hátíð sem hét því graslega heiti ”Extreme Chill Festival”. Þar var víst sett met í dóptöku miðað við höfðafjölda. 200 manns og 29 handtökur. Vegatálmar á Ólafsvík á laugardeginum.
Ég hringdi samt í lögregluna á Vesturlandi og kvartaði, vildi skilja þetta betur. Var nauðsyn að taka svona á okkur? Eftir langar samræður, þar sem ég hækkaði málróminn oftar en gott þykir, fékk ég þá útskýringu að menn hefðu víst „bara verið komnir í þennan gír“. Ég skil hann vel. Þegar menn eru komnir í réttan gír, þá eru sjálfsögð mannréttindi og lagareglur auðvitað bara fyrir. Sama hver fer í gegn, þá er gírstöngin föst í rökstuddum grun.
Ég veit að það þarf ótvírætt samþykki til að leita á mér eða í bílnum mínum. Það var samþykki sem ég veitti aldrei. Lögreglan hefði í það minnsta þurft að hafa rökstuddan grun fyrir káfinu, og leitarheimild fyrir bílnum. Samt gerði ég ekkert gegn valdníðslunni, sem fór þarna fram í boðhætti. Ég held, ég hafi bara verið svo hissa. Ég gat ekki skilið að það væri verið að koma svona fram við mig. Ég hafði nefnilega verið verkamaður víða, en aðeins glæpamaður í Ólafsvík.