Hætta á áfallastreitu hjá þeim sem fengu COVID-19
Einbeitingarskortur. Minnistap. Kvíði og depurð. Eftirköst COVID-19 eru ekki síður sálræn en líkamleg. Að greinast með nýjan og lífshættulegan sjúkdóm getur eitt og sér verið áfall og veita þarf fólki stuðning sem fyrst svo það þrói ekki með sér alvarlegri kvilla, segir forstöðusálfræðingur Reykjalundar.
Að lenda í slysi eða veikjast alvarlega getur reynst fólki mikið áfall. Að upplifa sig í lífshættu getur haft margvíslegar sálrænar afleiðingar – jafnvel til lengri tíma. Og að greinast með nýjan sjúkdóm getur eitt og sér reynst fólki erfitt og fyllt það ótta og áhyggjum. Hvað þá ef sjúkdómurinn er lífshættulegur og óvíst hvort allir nái sér að fullu.
Margir þættir geta því orðið til þess að kvíði lætur á sér kræla sem og depurð og jafnvel vonleysi. Inn í þetta ferli er mikilvægt að grípa sem fyrst, segir Inga Hrefna Jónsdóttir, forstöðusálfræðingur á Reykjalundi, því annars er hætta á því að fólk þrói með sér enn alvarlegri kvilla.
Um sjö mánuðir eru liðnir frá því að fyrstu tilfelli COVID-19 greindust hér á landi. Fólk sem þá sýktist af kórónuveirunni glímir margt hvert enn við eftirköst sjúkdómsins sem geta bæði verið líkamleg og andleg. Þetta hefur gert það að verkum að sumir eru enn óvinnufærir og þurfa á endurhæfingu að halda.
Þar kemur Reykjalundur til skjalanna en innan stofnunarinnar er að finna víðtæka reynslu og þekkingu af endurhæfingu eftir langvinn veikindi og alvarleg slys. Á fjórða tug beiðna vegna fólks sem fékk COVID-19 hafa borist Reykjalundi og hluti þess hóps hefur þegar hafið meðferð.
Það eru ekki aðeins verkir, mæði, þrekleysi og síþreyta sem fólkið finnur fyrir heldur ýmsir sálrænir kvillar. Oft helst þetta í hendur og því er tekið heildrænt á vandanum af sérfræðingum Reykjalundar.
Inga Hrefna er hluti af sérfræðingateyminu. Hún segir það sína tilfinningu og annarra sem sinna þessum hópi að fólk glími margt hvert við alls konar sálræna erfiðleika auk líkamlegu einkennanna. „Við sjáum að fólk er kvíðið og dapurt og sumt hvert í áfalli yfir því að hafa veikst af COVID-19 og vegna alls þess álags sem því fylgdi.“
Þeir sem eru í endurhæfingu á Reykjalundi veiktust flestir alvarlega og hafa sömuleiðis glímt við alvarleg eftirköst. Margir þurftu þeir að vera í einangrun vegna veikindanna sem hefur einnig sín áhrif á líðan. „Við vitum að einangrun getur verið mjög erfið og í ofanálag bætist við ótti, óöryggi og kvíði gagnvart veikindunum sjálfum og framtíðinni. Allt þetta getur fólk upplifað sem mikið sálrænt áfall og því getur svo aftur fylgt fjölmörg einkenni, bæði líkamleg og andleg. Allir þeir skjólstæðingar sem ég hef hitt tala um einbeitingarskort, framtaksleysi, svefntruflanir og erfiðleika með minni, svo dæmi séu tekin. Sumir tala um að þeir eigi erfitt með að finna réttu orðin þegar þeir vilja tjá sig.“
Sérfræðingar eru byrjaðir að skoða hvað það er sem veldur þessum hugrænu einkennum og hvort geti verið að í kjölfar veikinda sitji eftir einhver áhrif á starfsemi heilans. Ekki er enn komin mikil reynsla á að meta hugræna getu þeirra sem eru að takast á við eftirstöðvar af COVID-19 á Reykjalundi og því of snemmt að fullyrða nokkuð.
Það er ekki bara þunglyndi og kvíði sem fólk með langvinn veikindi getur upplifað heldur líka breyting á lífinu, að vera allt í einu komið með sjúkdóm eða eftirköst veikinda sem þarf að aðlagast.
Þó skal nefna að þær fáu niðurstöður sem nú liggja fyrir úr taugasálfræðilegu mati virðast benda til að þau einkenni sem einstaklingar eru að glíma við varðandi hugræna getu tengist frekar almennu úthaldsleysi, álagi og streitu en skaða í taugakerfinu. Að minnsta kosti hjá þeim sem voru við góða heilsu áður en þeir veiktust. Í því felst vissulega léttir fyrir þetta fólk sem var jafnvel mjög hrætt við að hafa misst varanlega getu til ýmissa hluta. „Þetta þarf auðvitað að rannsaka mun betur en okkar fyrstu prófanir benda til að einkennin tengist áfallinu og muni því ganga til baka þó að það taki tíma. En vissulega er fólk að glíma við þessi einkenni núna og það getur tekið á.“
Inga Hrefna segir skerta hugræna getu þekktan fylgifisk veikinda. Fólk sem komi til endurhæfingar á Reykjalundi vegna ýmissa sjúkdóma glími við sambærileg einkenni og þeir sem eru að jafna sig af COVID-19. „Fólki finnst það vera að tapa áttum, að það sé að verða minnislaust og óttast að vera komið með alvarlega sjúkdóma á borð við Alzheimer.“
Hún bendir á að þegar um er að ræða nýjan sjúkdóm sé ekkert skrítið að fólk fari að ímynda sér hið versta. En þekkt er að líkamlegt og sálrænt álag getur valdið einkennum á borð við einbeitingarskort og tímabundið minnistap. „Þegar fólk er farið að upplifa þetta er mjög mikilvægt að það fái sálrænan stuðning. Við, sálfræðingarnir á Reykjalundi, erum ekki sérfræðingar í COVID frekar en aðrir. Þannig að við reynum að taka á þessu eins og hjá öðrum einstaklingum sem koma til okkar í endurhæfingu.“
Í fyrstu felst ein mikilvægasta hjálpin í því að fá fólk til að átta sig á að þau sálrænu einkenni sem það finnur, bæði tilfinningar og hugsanir, eru eðlileg miðað við allt sem það hefur gengið í gegnum. „Flestir sem ganga í gegnum erfiða lífsreynslu eru með mörg svipuð einkenni,“ bendir Inga Hrefna á. „Og það er eðlilegt að vera með þessi einkenni í fyrstu. Oftast dregur úr þeim á innan við fjórum til sex vikum. En ef fólk er enn með alvarleg einkenni áfallastreitu að þeim tíma liðnum þá þarf það að fá sérhæfða og sálræna áfallameðferð.“
Alvarleg einkenni í langan tíma geta þróast út í áfallastreituröskun. Fólk getur þá til dæmis verið að endurupplifa áfallið og fundið fyrir neikvæðum breytingum á hugarfari og líðan almennt. Að vera stöðugt á varðbergi, tilbúinn að takast á við ósýnilega ógn, er enn eitt einkennið. Til að fólk sé greint með áfallastreituröskun þurfa alvarleg einkenni að hafa verið til staðar í að minnsta kosti mánuð og trufla verulega líf viðkomandi.
Margir áhættuþættir áfallastreitu eru til staðar hjá þeim sem greinst hafa með COVID-19. Framhjá því verður ekki horft. Inga Hrefna segir að þótt flestir muni ná sér að fullu af hinum hugrænu einkennum verði allir að hafa vakandi auga fyrir því að hætta á áfallastreitu sé fyrir hendi. „Fólk sem er í því ástandi forðast að hugsa um áfallið sjálft en þó geta hugsanir um það sótt á það. Og einnig getur ákveðin hugsanaskekkja myndast,“ segir Inga Hrefna. Meðferðin felst m.a. í því sem er kallað „berskjöldun“ þar sem fólk er leitt í gegnum áfallið og þær aðstæður sem því tengjast. Fólk getur fest sig í þeirri hugsun að það sé því sjálfu að kenna að það veiktist eða slasaðist og slíkar hugsanir hindra batann.
Í þessu sambandi er mjög mikilvægt að samfélagið fari ekki að kenna einhverjum einstaklingum um þær aðstæður sem hafa skapast. Það gerir engum gott en getur valdið þeim sem smituðust vanlíðan.
Langflestir komast þó hjá því að fara svo djúpt í vanlíðan eftir áfall. En depurð og kvíði, jafnvel mánuðum saman, eru einnig kvillar sem fólk sem fékk COVID-19 er að upplifa og á þeim þarf líka að taka að mati Ingu Hrefnu. „Þetta er erfið lífsreynsla, fólk hefur einangrast og jafnvel lent í mikilli hættu,“ segir hún. Þar sem um nýjan og lífshættulegan sjúkdóm er að ræða, sem stöðugt er fjallað um í fréttum, er „stórhætta fyrir hendi á því að fólk fari að ofhugsa og oftúlka og sjái hið versta fyrir sér strax við greiningu“.
Að hennar sögn er mikið unnið með því að hjálpa fólki að komast hjá því að detta í slíkan farveg og hvetja það til að taka einn dag í einu. „Því fyrr sem gripið er inn í – því betra.“ Því er að hennar mati mikilvægt að fræðslan og stuðningurinn sem fólk fær strax við greiningu taki bæði á líkamlegum og andlegum þáttum. „Fólk þarf að vita hverju það gæti átt von á, að það megi búast við streitu og kvíða en að þau einkenni séu ekki hættuleg heldur eðlileg miðað við aðstæður.“
Forðast verður vítahring hugsanaskekkju
Svo þarf að að sjá til þess að fólk geti leitað stuðnings og aðstoðar svo það byrgi ekki hugsanir sínar inni og endi í vítahring hugsanaskekkju og rangra hugmynda. Þessar hugmyndir geta magnast upp þar sem margir fara að kenna sjálfum sér um að hafa veikst í stað þess að líta svo á að það að smitast af kórónuveirunni geti komið fyrir okkur öll. „Í þessu sambandi er mjög mikilvægt að samfélagið fari ekki að kenna einhverjum einstaklingum um þær aðstæður sem hafa skapast. Það gerir engum gott en getur valdið þeim sem smituðust vanlíðan. Við þurfum að minna hvert annað á að þetta er eitthvað sem allir geta lent í og er ekkert til að skammast sín fyrir.“
Þeir sem koma til endurhæfingar á Reykjalundi eru skimaðir fyrir kvíða og þunglyndi og býðst sálræn aðstoð sem hluta af sinni meðferð. Þeir geta einnig sjálfir óskað eftir því að hitta sálfræðing. „Það er ekki bara þunglyndi og kvíði sem fólk með langvinn veikindi getur upplifað heldur líka breyting á lífinu, að vera allt í einu komið með sjúkdóm eða eftirköst veikinda sem þarf að aðlagast. Fólk finnur að það getur ekki gert allt það sama og áður og því finnst mörgum erfitt að kyngja og þurfa stuðning til að takast á við það.“
Heilsugæslan er í framlínunni þegar kemur að því að veita aðstoð til þeirra sem fengu COVID-19. Innan hennar starfa sálfræðingar. „Þannig að ef einhverjir sem fengu COVID-19 eru að glíma við sálræn einkenni eins og ég hef lýst þá er fyrsta skrefið að hafa samband við heilsugæslustöð,“ segir Inga Hrefna.
Hún minnir á að Alþingi hafi í vor samþykkt að fella sálfræðimeðferðir undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands. Niðurgreiðsla á slíkum meðferðum er þó ekki enn komin til framkvæmdar. „Þó að það sé búið að fjölga sálfræðingum hjá heilsugæslunni þá eru þeir enn of fáir til að anna allri eftirspurn. Þess vegna myndi það auðvitað breyta miklu fyrir fólk að geta leitað til sálfræðinga á stofum eins og til sjúkraþjálfara eða annarra sérfræðinga og fengið kostnaðinn niðurgreiddan. Það má ekki vera þannig að fólk hiki við að leita sér þessarar aðstoðar af því að það hafi ekki efni á henni en því miður er það stundum þannig í dag.“