Aðsend

Brenglað bragðskyn eftir COVID –„Þetta er bara allt svo steikt!“

Hann finnur myglubragð af papriku og „COVID-lykt“ í miðbænum. Það skrítnasta er þó að hann finnur alls enga skítafýlu. Háskólaneminn Kolbeinn Arnarson fékk COVID-19 síðasta vetur og segir einangrunina, sem stóð í mánuð, hafa tekið verulega á.

Þegar kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn hófst hér á landi í byrjun mars voru Kol­beinn Arn­ar­son og vinur hans að ræða það í gríni hver í vina­hópnum væri lík­leg­astur til að fá COVID-19. „Kol­beinn, þú,“ sagði vin­ur­inn. „Það ert þú sem ert lík­leg­astur til þess.“





Og þar reynd­ist hann sann­spár. Kol­beinn, sem er 23 ára nem­andi í stjórn­mála­fræði með hag­fræði sem aukafag í Háskóla Íslands, greind­ist með sjúk­dóm­inn í byrjun apr­íl. „Ég hafði verið að gera grín að þessu öllu saman og það kom svo ræki­lega í bakið á mér,“ segir Kol­beinn þegar hann rifjar þetta upp í sam­tali við Kjarn­ann.





Síðan eru liðnir um fimm mán­uð­ir. Kol­beinn hefur jafnað sig að mestu, er í fjar­námi í flestum fögum eins og aðrir háskóla­nemar og starfar með­fram nám­inu sem vín­þjónn á vín­barnum Port 9.



Auglýsing

Í fyrstu bylgju far­ald­urs­ins í vetur fékk öll fjöl­skylda Kol­beins, for­eldr­arnir Berg­þóra Njála Guð­munds­dóttir og Örn Bald­urs­son og systir hans Auð­ur, COVID-19. Það var fjöl­skyldu­fað­ir­inn sem veikt­ist fyrst og smitrakn­ing leiddi síðar í ljós að hann hafði smit­ast á vinnu­stað sín­um.



 „Í lok mars fór pabbi að finna fyrir ein­kennum og mamma sendi hann út í bíl­skúr í ein­angrun en við systk­inin og hún fórum í sótt­kví í hús­in­u,“ segir Kol­beinn. Bíl­skúr­inn er þó alls ekki óvist­leg­ur, svo því sé haldið til haga, enda dval­ar­staður Kol­beins sjálfs alla jafna. „Mamma var auð­vitað að von­ast til þess að hann hefði ekki náð að smita okkur en fljót­lega fóru hún og systir mín að finna fyrir smá­vægi­legum ein­kenn­um. Á þessum tíma var pinna­skortur í land­inu svo aðeins þeir sem höfðu ein­kenni komust í sýna­töku. Þær fóru og voru greindar með COVID og ég taldi þá mjög ólík­legt að ég hefði slopp­ið. Ég fékk svo ein­hver smá ein­kenni, fór í sýna­töku og fékk nið­ur­stöð­una: Ég var líka með COVID.“



Kolbeinn missti algjörlega allt bragð- og lyktarskyn í upphafi veikindanna. Mynd: AðsendKol­beini fannst það reyndar óraun­veru­legt og efað­ist stundum um að grein­ingin væri rétt. Ein­kennin voru svo lít­il. Í nokkra daga hafði hann óvenju­lega til­finn­ingu í háls­inum og hóstaði annað slag­ið. „Fyrir tveimur árum hefði ég hik­laust mætt í skól­ann með þessi ein­kenn­i.“



En þegar hann var að bíða eftir nið­ur­stöðum úr sýna­tök­unni fóru und­ar­legir hlutir að ger­ast. „Ég sat heima og var að maula á kexi og fatt­aði svo allt í einu að ég fann ekk­ert súkkulaði­bragð af því. Mér brá og vildi ekki alveg trúa þessu svo ég end­aði á að sprauta rakspíra út í loftið og ganga í gegnum ský­ið. En ég fann ekki nokkra lykt. Þannig að ég hugs­aði með mér að ég hefði lík­lega smit­ast af þess­ari blessuðu veiru.“



Sem reynd­ist raun­in.



Þegar þarna var komið við sögu var Kol­beinn í sótt­kví sem breytt­ist svo í ein­angr­un. Hann hafði misst bæði bragð- og lykt­ar­skyn algjör­lega. „Það var rosa­lega skrítin upp­lifun að fá sér kaffi­bolla, finna enga lykt af kaff­inu og taka svo sopa og það eina sem ég fann var heitur vökvi á tung­unni. Bók­staf­lega alls ekk­ert bragð.“



Og þar sem bragð­skynið var farið var auð­vitað upp­lagt að borða bara hollt, segir hann og hlær. „Ég fór að velja mat út frá áferð frekar en nokkru öðru. Hvernig áferð mig lang­aði í þennan dag­inn frekar en hvaða bragði ég væri að sækj­ast eft­ir.“



Pabbi hans flutti inn úr bíl­skúrnum og ein­angrun allrar fjöl­skyld­unnar hófst. Kol­beinn seg­ist ekki hafa verið stress­aður eftir að grein­ast með COVID-19. Hann hafi ekki ótt­ast um líf sitt eða verið hrædd­ur. „Ég er ungur og hraustur og vissi að ég væri ekki í áhættu­hópi.“ Hins vegar seg­ist hann hafa haft vissar áhyggj­ur  af pabba sínum en hann var sá sem veikt­ist mest í fjöl­skyld­unni. „En þessar áhyggjur mínar voru aldrei mjög alvar­leg­ar. Og ég var alltaf viss um að þetta myndi allt saman líða hjá og að við myndum öll ná bata.“



Kol­beinn seg­ist ekki hafa verið mjög upp­tek­inn af fréttum af útbreiðslu far­ald­urs­ins og sjúk­dómnum sjálf­um. Hann hafi hlakkað mest til að losna úr ein­angr­un. „Ég er mikil félags­vera og var kom­inn með vott af „cabin fever“ þegar leið á ein­angr­un­ina. Við vorum öll saman heima í heilan mánuð og ég get alveg upp­lýst um það núna að við vorum komin með pínu ógeð hvert á öðru á ákveðnum tíma­punkt­u­m,“ segir hann og skellir upp úr.



 Þegar far­ald­ur­inn skall á og bygg­ingum fram­halds- og háskóla var skellt í lás hófst fjar­nám hjá Kol­beini eins og öðr­um. „Mér fannst ekk­ert mál að vera í fjar­námi. Önnin var komin vel af stað þegar það hófst og við tóku verk­efna­skil og und­ir­bún­ingur fyrir loka­próf.“



Hann seg­ist hins vegar hafa átt erfitt með að festa hug­ann við námið þegar hann var í ein­angr­un­inni. „Ég var frekar orku- og áhuga­laus,“ segir hann en það tengir hann frekar við aðstæð­urnar en sjúk­dóm­inn sjálf­an. „Ég var ein­hvern veg­inn bara búinn á því. Að geta ekki farið út tók á. Ég fór í mesta lagi út í garð með kett­in­um. Það var nú öll úti­ver­an.“



Ein­angr­unin hafi í einu orði sagt verið erf­ið. „Þetta var hálf glatað og ég mæli ekki með þessu,“ segir hann. Til að létta sér lífið spil­aði hann tölvu­leiki á net­inu með vinum sín­um. „Það full­nægði félags­þörf­inni að ein­hverju leyti. Auð­vitað hefði ég átt að lesa meira, til­einka mér eitt­hvað nýtt eins og að læra á gítar en satt best að segja þá var ég ein­fald­lega ekki í stuði til þess.“



Þetta er eins og með annað, maður verður að taka hlutum eins og þessum, sem maður hefur enga stjórn á, af æðruleysi.
Kolbeinn ásamt kettinum Steingrími Hnoðra. Þeir eyddu miklum tíma saman í einangruninni.
Aðsend

Smám saman fór Kol­beinn að finna bragð og lykt aft­ur. En ekki alltaf sama bragð og sömu lykt og fyrir veik­ind­in. Hann segir erfitt að lýsa þessu svo vel sé en gerir eft­ir­far­andi til­raun til þess: „Ýmsir hlutir bragð­ast og lykta öðru­vísi en áður. Sem dæmi þá finn ég eitt­hvað auka­bragð af papriku. Það er alveg sama hvort hún er soð­in, steikt eða hrá, ég finn eins og ónátt­úru­legt verk­smiðju­bragð en samt líka ein­hvers konar myglu­bragð. Þetta er ekki gott bragð, svo mikið er víst. Og paprika, sem var eitt upp­á­halds græn­metið mitt, hefur fallið niður vin­sælda­list­ann hjá mér.“



Hann tekur annað dæmi: „Tann­krem. Allt í einu finn ég öðru­vísi bragð af því. Það er ekki gott bragð en heldur ekk­ert vont. Bara nýtt.“



Kolbeinn var frelsinu feginn eftir einangrunina. Hann fór m.a. í göngu á Norðurlandi í sumar. Mynd: AðsendHvað lykt­ar­skynið varðar segir hann það almennt dauf­ara en áður. Hann tekur dæmi: „Í sumar keyrðum við vin­irnir til Hvera­gerð­is. Og eins og vana­lega, þegar við vorum á Hell­is­heiði, þá fer að finn­ast hvera­lykt. Og eins og vana­lega fóru vin­irnir að hlæja og spyrja hver hafi verið að prumpa. En ég tengdi ekki við þetta grín. Fann alls enga lykt.“



Þá seg­ist hann nú finna algjör­lega nýja lykt sem kann kallar COVID-­lykt­ina. Hana finnur hann oft núna, t.d. þegar hann er á gangi fram hjá útblæstri eld­húsa veit­inga­staða í mið­bæn­um. „Þetta er mat­ar­lykt sem verður að nýrri lykt. Ég held að það sem kom­ist næst því að lýsa þessu sé rauð­lauk­ur,“ segir Kol­beinn og við­ur­kennir að hann hafi eytt drjúgum hluta gær­dags­ins í að þefa af rauð­lauk. „Þetta er lykt­in,“ seg­ist hann hafa hugsað mér sér. Lykt af rauð­lauk er hins vegar ekki sem verst að hans mati, „en þetta er bara allt svo steikt!“

En svo er það eitt það skrítnasta: „Ég finn ekki lengur skíta­lykt,“ segir Kol­beinn ákveð­ið. Hvort það er gott eða slæmt skal látið liggja á milli hluta en hann segir sögu af því þegar hann var á ferða­lagi á afskekktum stað á Norð­ur­landi í sumar í námunda við sveitabæ þar sem skólpið er látið fara óhreinsað í sjó­inn. „Svo kemur flóð og kúk­ur­inn fer upp á land og þar verður hann eftir þegar það fjarar út,“ segir hann. „Ferða­fé­lag­arnir fundu væg­ast sagt rosa­lega vonda skíta­lykt og flúðu undan henni. En ekki ég. Ég fann enga lykt. Og þegar ég hugsa um það þá hef ég bara ekki fundið þess konar lykt frá því að ég fékk COVID.“

Kol­beinn er byrj­aður að gera ráð fyrir því að þetta breytta lykt­ar- og bragð­skyn sé komið til að vera. „Þetta er eins og með ann­að, maður verður að taka hlutum eins og þessum, sem maður hefur enga stjórn á, af æðru­leysi. Og þetta er ekki alvar­legt miðað við það sem margir aðrir eru að ganga í gegn­um. Þetta brenglaða bragð- og lykt­ar­skyn er ekk­ert hræði­legt en það er hins vegar ekki ákjós­an­legt held­ur.“



Auglýsing

Spurður hvort að hann finni fyrir skertri ein­beit­ingu eða minnistapi líkt og margir þeir sem fengu COVID-19 hafa upp­lifað segir hann svo ekki vera. „Nei, ég er bara jafn ein­beit­ing­ar­laus og venju­lega,“ segir hann kím­inn. „En að öllu gríni slepptu þá finn ég enga breyt­ingu á hug­rænni get­u.“



Góðu frétt­irnar eru þær að Kol­beinn finnur sömu góðu lykt­ina af kaffi og áður og bragðið af því líka.



Spurður hvort hann hafi ein­hverjar ráð­legg­ingar handa ungu fólki sem greinst hefur nýverið með COVID-19 og er í ein­angrun svarar Kol­beinn að lyk­il­at­riði sé að reyna að halda sér í virkni – að missa ekki damp­inn. „Þetta er hund­leið­in­legt ferli. Ég var stundum orð­inn það þreyttur á ein­angr­un­inni að mig lang­aði að gefa skít í allt og fara bara út. En auð­vitað gerði ég það ekki – það var aldrei inni í mynd­inni. Maður verður að takast á við þetta af æðru­leysi. Ekki missa móð­inn, það er það sem ég vil segja fólki sem er í þessum spor­um.“

Kolbeinn tekur lífinu létt. Hann segist ekki mæla með því við neinn að fá COVID-19. Mynd: AðsendSvo segir hann ekki úr vegi að hvetja fólk til að gera það sem hann gerði ekki: Að næra hug­ann með lestri eða að læra eitt­hvað nýtt. „En ég skil það rosa­lega vel að fólk nenni því ekki. Þetta er auð­veld­ara sagt en gert. Ég þekki það manna best, ég spil­aði eig­in­lega tölvu­leiki í mán­uð.“



Kol­beinn segir að fjöl­skyldan hafi reynt að finna jákvæðar hliðar á því að hafa gengið í gegnum þessi veik­indi. Að nú gæti hún fengið vott­orð um að hafa fengið COVID-19 og ferð­ast svo saman um heim­inn. En Kol­beinn dró stutta stráið í því – engin mótefni mæl­ast í lík­ama hans svo lík­lega fær hann ekki slíkt vott­orð. „En nei, ég mæli svo sann­ar­lega ekki með því að fá COVID-19. Þó að ég hafi veikst lítið og mín lang­tíma­ein­kenni hafi verið væg­ari en margra þá myndi ég nú gefa mikið til að fá aftur lykt­ar- og bragð­skynið mitt eins og það var áður.“



Sama dag og Kol­beinn losn­aði úr ein­angrun þráði hann að gera eitt­hvað skemmti­legt og fannst það þjóð­ráð að ganga á Esj­una með vinum sín­um. „Sem var auð­vitað galin hug­mynd eftir að hafa varla hreyft mig lengra en frá sóf­anum að ísskápnum í margar vik­ur.“



Af meira kappi en for­sjá lagði hann þó af stað og komst upp að Steini án vand­kvæða. En þegar næsti kafli göng­unnar hófst bentu vin­irnir honum á að hann væri orð­inn náfölur í framan og hann ákvað að snúa við. „Þetta var aðeins of bratt svona til að byrja með. Það var hel­víti metn­að­ar­fullt að ætla að fara í heila fjall­göngu dag­inn sem maður losn­aði úr ein­angr­un,“ segir hann og hlær. „En eftir langa inni­lokun er það samt skilj­an­legt. Að maður vilji hitta vin­ina og hlaupa helst á fjöll.“



Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal