Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, telur að Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrum innanríkisráðherra, eigi afturkvæmt á Alþingi og segist telja að traust þingflokks Sjálfstæðisflokksins til hennar sé óskorað. Þetta kemur fram í viðtali við Bjarna á mbl.is.
Þar er Bjarni spurður hvort Hanna Birna eigi afturkvæmt á þing og svarar: „Já, það tel ég algjörlega. Það er algjörlega í hennar höndum að koma aftur til þingsins og halda áfram sínum stjórnmálastörfum“.
Spurður um hvort þingflokkur Sjálfstæðisflokksins beri traust til Hönnu Birnu sagði Bjarni: „Það tel ég að það sé alveg óskorað“.
Hann sagði það hins vegar engum blöðum um að flétta að Hanna Birna hefði borið skaða af lekamálinu. „Hún gerir sér vel grein fyrir því sjálf. Það breytir því ekki að réttur hennar til að starfa áfram sem þingmaður er algjörlega óbreyttur“.
Fór langt út fyrir valdsvið sitt
Umboðsmaður Alþingis birti á föstudag niðurstöðu frumkvæðisathugunar sinnar á samskiptum Hönnu Birnu og Stefáns Eiríksson, fyrrum lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, vegna rannsóknar lekamálsins svokallaða. Þar sagði meðal annars að að ráðherra hafi farið langt út fyrir valdsvið sitt í samskiptunum. Málið er nú á borði stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Bjarni Benediktsson tjáði sig ekkert um málið um helgina og því er um fyrstu opinberu viðbrögð hans að ræða.
Hanna Birna Kristjánsdóttir er varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
Lekamálið hófst í nóvember 2013 þegar minnisblaði um hælisleitandann Tony Omos var lekið til Fréttablaðsins og mbl.is. Gísli Freyr Valdórsson, fyrrum aðstoðarmaður Hönnu Birnu, var dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi í nóvember 2014 fyrir að leka minnisblaðinu. Gísli Freyr játaði brotið daginn áður en mál hans fór fyrir dóm. Hanna Birna sagði af sér embætti innanríkisráðherra skömmu síðar og hefur verið í leyfi frá þingstörfum síðan að afsögnin átti sér stað. Hún hefur lýst því yfir að hún ætli að setjast aftur á þing í mars.
Hanna Birna hefur hins vegar ekki viljað tjá sig við fjölmiðla um málið frá því að niðurstaða umboðsmanns Alþingis var kunngjörð á föstudag utan þess að hún sendi athugasemd til fréttastofu RÚV vegna fréttar sem hún birti. Í athugasemdinni sagðist Hanna Birna ekki hafa haft áhrif á rannsókn lögreglu á lekamálinu né hafi hún viðurkennt að hafa reynt það.