Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, hafi brotið lög með miðlun upplýsinga um hælisleitandann Tony Omos og fleiri til Gísla Freys Valdórssonar, fyrrum aðstoðarmanns Hönnu Birna Kristjánsdóttur, þá innanríkisráðherra. Niðurstaðan er alveg skýr. Samkvæmt henni hafi það „farið í bága við“ við tvær málsgreinar tveggja greina um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga að miðla gögnunum með þessum hætti. (1. og 2. mgr. 11. og 12. gr. laga nr. 77/2000)
Það er enginn vafi á því að þetta er niðurstaðan. Það má vel vera að þarna sé verið að fjalla um form frekar en efni, en Sigríður Björk braut lög að mati Persónuverndar.
Ekki lögbrot ef þú veist ekki að um lögbrot sé að ræða?
Sigríður Björk mætti í viðtal við RÚV á föstudag, eftir að Kjarninn hafði birt úrskurð Persónuverndar fyrstur fjölmiðla. Þar sagðist hún ekki telja að hún hefði brotið lög. Í yfirlýsingu sem hún sendi segist hún, sem sendandi upplýsinganna, einfaldlega hvorki getað „vitað né tryggt“ að miðlun skýrsludraga um hælisleitendurna hafi verið óheimil.
Þetta er makalaus málflutningur. Getur íbúi í réttarríki raunverulega borið fyrir sig að hann hafi ekki brotið lög, þegar eftirlitsaðili hefur komist að þeirri niðurstöðu að hann hafi sannarlega gert það, einfaldlega vegna þess að hann hafi ekki vitað að hann hafi verið að brjóta lög? Á lögbrotið þá ekki að hafa neinar afleiðingar? Geta helstu kúnnar þess embættis sem Sigríður Björk stýrir, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, borið fyrir sig sömu rök? Að síbrot þeirra séu í raun ekki lögbrot vegna þess að þeir vissu ekki að þeir væru að brjóta lög? Eða gilda aðrar reglur og önnur lög um þá en lögreglustjórann?
Geta helstu kúnnar þess embættis sem Sigríður Björk stýrir, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, borið fyrir sig sömu rök? Að síbrot þeirra séu í raun ekki lögbrot vegna þess að þeir vissu ekki að þeir væru að brjóta lög? Eða gilda aðrar reglur og önnur lög um þá en lögreglustjórann?
Og hvaða skilaboð sendir það út í samfélagið ef lögreglustjóri langstærsta umdæmis landsins má brjóta lög án afleiðinga? Er hún hafin yfir lög? Þarf lögreglustjóri ekki að mæta afleiðingum gjörða sinna þegar hann brýtur samfélagssáttmálann en ætlar samt áfram að útdeila réttlæti gagnvart öðrum sem gera það? Það er ekki sérlega trúverðugt.
Það vantar botn í málið
Það er margt í úrskurði Persónuverndar sem er afar áhugavert. Í minnisblaðinu fræga, sem Gísli Freyr hefur verið dæmdur fyrir að leka í fjölmiðla, var búið að bæta við upplýsingum um að Omos væri viðriðinn mansalsmál sem voru ekki í upprunalega minnisblaðinu. Gísli Freyr hefur viðurkennt að hafa bætt þeim upplýsingum við minnisblaðið. Hann hefur hins vegar neitað því staðfastlega að Sigríður Björk hafi sent honum þær upplýsingar. Þeirra skeytasendingar hafi átt sér stað 20. nóvember 2013, sama dag og fjölmiðlarnir birtu fréttir byggðar á minnisblaðinu. Sigríður Björk hefur haldið hinu sama fram. Greint hefur verið frá því í fjölmiðlum að Gísli Freyr og Sigríður Björk hafi talað saman í síma þennan sama morgun.
Við rannsókn sína kallaði Persónuvernd eftir tölvupóstsamskiptum Gísla Freys og Sigríðar Bjarkar, sem áttu að hafa átt sér stað 20. nóvember 2013 en eru ekki skráð í málaskráarkerfi lögreglunnar. Gísli Freyr sagðist ekki hafa tölvupóstsamskiptin undir höndum og Sigríður Björk sendi Persónuvernd útprentun af tölvubréfi síns til Gísla Freys, auðkenndu sem „Trúnaðarmál“ í efnislínu en með svohljóðandi texta í meginmáli: „Sent skv. umtali. Hefur ekki verið sýnt öðrum í þessu formi.“
Sama dag og þessi gögn bárust sendi Sigríður Björk Persónuvernd tölvubréf sem hafði að geyma skjámynd af tengiliðaupplýsingum fyrir Gísla Frey, þar á meðal netfang, en af skjámyndinni má sjá að þessar tengiliðaupplýsingar birtast í samhengi við fyrrgreint tölvubréf til Gísla Freys. Í niðurstöðunni segir hins vegar: „Í tölvubréfinu sjálfu birtist ekki sjálft netfangið heldur aðeins nafn hans, en í tengiliðaupplýsingunum kemur fram að tölvubréfið hafi verið sent á vinnunetfang hans hjá innanríkisráðuneytinu.“
Samkvæmt þessari lýsingu er alls ekki hafið yfir allan vafa hvenær Sigríður Björk sendi upplýsingarnar á Gísla Freyr og þar af leiðandi ekki skýrt hvort að þær upplýsingar hafi myndað andlag þess sem hann bætti við lekna minnisblaðið.
Samkvæmt þessari lýsingu er alls ekki hafið yfir allan vafa hvenær Sigríður Björk sendi upplýsingarnar á Gísla Freyr og þar af leiðandi ekki skýrt hvort að þær upplýsingar hafi myndað andlag þess sem hann bætti við lekna minnisblaðið. Persónuvernd fær einfaldlega afrit af tölvupósti sem Sigríður Björk segir að hafi verið sendur 20. nóvember 2013 til Gísla Freys. Það er kannski ekki Persónuverndar að kanna sannleiksgildi þessa betur, en það ætti einhver að þurfa að gera það. Botn er ekki kominn í það hvort Sigríður Björk hafi veitt Gísla Frey umræddar upplýsingar.
Af hverju sagði hún ekki neitt?
Og það er ekki sérlega mikil ástæða til að treysta því að Sigríður Björk hafi mikinn vilja til að upplýsa um alla fleti þessa máls. Það er vægast sagt, umhugsunarefni af hverju hún tilkynnti aldrei þeim sem rannsökuðu lekamálið um samskipti sín við Gísla Frey þessa daga í nóvember 2013. Mánuðum saman var verið að rannsaka hver hafði lekið minnisblaðinu og Gísli Freyr var sá sem lá helst undir grun. Augljóst var að upplýsingar um þessi samskipti hefðu skipt gríðarlega miklu máli fyrir rannsóknina.
Varla getur lekamálið hafa farið framhjá Sigríði Björk? Fréttir sem hafa verið sagðar af því hlaupa á hundruðum hið minnsta. Um stærsta fréttamál síðasta árs er að ræða.
Varla getur lekamálið hafa farið framhjá Sigríði Björk? Fréttir sem hafa verið sagðar af því hlaupa á hundruðum hið minnsta. Um stærsta fréttamál síðasta árs er að ræða. Það er því algjörlega óskiljanlegt að Sigríður Björk, fyrst sem lögreglustjórinn á Suðurnesjum og síðar sem lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins (Hanna Birna skipaði hana í það starf sumarið 2014 eftir að Stefán Eiríksson hafði hætt), hafi aldrei dottið í hug að pikka í kollega sína, og síðar undirmenn sína, og láta þá vita af því að Gísli Freyr hefði beðið hana um upplýsingar um Tony Omos í nóvember 2013.
Þegar dylgjum og spuna er ýtt til hliðar
Það má vel vera að við ákveðum að taka enn einn þvældan snúning á þessu máli í umræðunni. Það var reynt að gera Gísla Frey að fórnarlambi í lekamálinu, þangað til að hann játaði og hlaut dóm. Það var reynt að gera Hönnu Birnu að fórnarlambi, þar til að hún sagði af sér og umboðsmaður Alþingis tók hana pólitískt af lífi með niðurstöðu sinni um valdníðslutilburði gagnvart Stefáni Eiríkssyni. Og nú er verið að reyna að gera Sigríði Björk að fórnarlambi. Að það séu einhverjir af annarlegum hvötum að draga hana niður. Að samsæri sé í gangi. Að það sé engin ástæða fyrir hana að segja af sér vegna hegðunar í starfi sem eftirlitsstofnun segir að brjóti í bága við lög.
En þegar dylgjunum og spunanum er ýtt til hliðar stendur eftir nakin niðurstaða: Lögreglustjóri braut lög. Getur hann setið áfram sem slíkur og beitt refsingum gagnvart öðrum borgurum þegar hann telur sig sjálfan ekki þurfa að búa við sama veruleika? Auðvitað ekki. Almenningur þarf að treysta lögreglustjóra.
Það traust er ekki lengur fyrir hendi.