Stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþingi hafa sent sameiginlegt bréf til stofnana Evrópusambandsins vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að slíta viðræðum um aðild að Evrópusambandinu. Þetta kemur fram í tilkynningu til fjölmiðla.
„Á fundi formanna þingflokka í morgun óskuðu formenn þingflokka stjórnarandstöðuflokkanna eftir því að forseti Alþingis kæmi þeim skýru skilaboðum á framfæri við Evrópusambandið að bréf ríkisstjórnarinnar frá í gær ætti ekki stoð í ákvörðunum Alþingis og að ályktun Alþingis frá árinu 2009 væri enn í fullu gildi. Því var hafnað. Formönnum stjórnarandstöðuflokkana er því nauðugur einn kostur að senda meðfylgjandi bréf til stofnana Evrópusambandsins til að koma skýringum á framfæri og upplýsa sambandið um að ríkisstjórnin hafi hvorki umboð þings né þjóðar til að breyta stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu með þeim hætti sem tilkynnt er í bréfi utanríkisráðherra til Evrópusambandsins,“ segir í tilkynningunni til fjölmiðla.
Bréfið er sent til Martin Schulz, forseta Evrópuþingsins, Johannes Hahn, framkvæmdastjóra nágrannastefnu og aðildarviðræðna hjá framkvæmdastjórn ESB, og Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands, sem fer með formennsku nú um stundir. Það er undirritað af formönnum allra fjögurra stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi, Árna Páli Árnasyni, Guðmundi Steingrímssyni, Katrínu Jakobsdóttur og Birgittu Jónsdóttur.
Í bréfinu segir að stjórnarandstöðuflokkarnir hafi mismunandi skoðanir á aðild að ESB. Flokkarnir séu hins vegar sammála um að bréfið sem Gunnar Bragi Sveinsson sendi geti ekki breytt stöðu Íslands gagnvart sambandinu. Það sé eingöngu á valdi Alþingis að ákveða að breyta stöðu ríkisins.