Fjármála- og efnahagsráðuneytið telur að það yrði að „skaðlausu“ að veita fjármálafyrirtækjum heimild til að greiða tvöfalt hærri bónusgreiðslur en núverandi reglur kveða á um og þær megi því vera allt að 50 prósent af föstum árslaunum starfsmann. Þá mætti einnig skoða að smærri fjármálafyrirtækjum yrði leyft að greiða hlutfallslega enn hærri kaupauka til starfsmanna, til dæmis 100 prósent af árslaunum, heldur en stóru viðskiptabönkunum. Samkvæmt lögum sem nú eru í gildi mega bónusar starfsmanna fjármálafyrirtækja vera 25 prósent af föstum árslaunum þeirra.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í minnisblaði sem fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi í gær til efnahags- og viðskiptanefndar vegna frumvarps sem nefndin hefur til umræðu um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Greint er frá efni bréfsins, sem er 28 blaðsíður, í DV í dag.
Andstætt stefnu Framsóknarflokksins
Ljóst er að Framsóknarflokkurinn verður ekki hrifinn af þessari hugmynd. Á flokksþingi hans fyrr í þessum mánuði var samþykkt tillaga Karls Garðarssonar, þingmanns flokksins, um að bónusar í bankakerfinu verði alfarið bannaðir. Í ályktunum flokksþingsins segir: "Framsóknarflokkurinn er andvígur heimildum til kaupauka í fjármálafyrirtækjum."
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, gagnrýndi umræðu um hækkun á bankabónusum harðlega í ræðu sinni á ársfundi Samtaka atvinnulífsins þann 16. apríl síðastliðinn. „Óskir um fjórfalda hækkun bankabónusa er af sama meiði. Bankakerfi í höftum, varið að mestu fyrir erlendri samkeppni, býr ekki til slík verðmæti að það réttlæti að launakerfi þess séu á skjön við aðra markaði og réttlætiskennd almennings.“
Afstaða Framsóknarflokks er því í andstöðu við þá stefnu um bónusa í fjármálakerfinu sem mörkuð er í minniblaði ráðuneytis Bjarna Benediktssonar.
Samtök fjármálafyrirtækja skiluðu nýverið umsögn um frumvarpið þar sem fram kom að takmörkun á bónusgreiðslum væri íþyngjandi að þeirra mati. Samtökin lögðu til að evrópskur lagarammi yrði fullnýttur og fjármálafyrirtækjum gert kleift að greiða starfsmönnum sínum á bilinu 100 til 200 prósenta af árslaunum í kaupauka.
Tveir bankar hafa gjaldfært 1,5 milljarð vegna bónusa á tveimur árum
Íslandsbanki og Arion banki gjaldfærðu samtals um 835 milljónir króna vegna kaupaukagreiðslna til starfsmanna sinna á síðasta ári. Um hundrað starfsmenn fá slíkar greiðslur hjá hvorum banka fyrir sig. Arion banki gjaldfærði 477 milljónir króna í fyrra sem var 25 milljónum króna meira en árið á undan. Samtals hefur bankinn því gjaldfært tæpan milljarð króna vegna kaupaaukakerfis síns á síðustu tveimur árum. Íslandsbanki gjaldfærði 258 milljónir króna í fyrra, eða 17 milljónum krónum meira en árið 2013. Samtals nema kaupaukar til starfsmanna bankans því rúmum hálfum milljarði króna á tveimur árum.
Vert er að taka fram að í samræmi við reglur Fjármálaeftirlitsins er greiðslu á að minnsta kosti 40 prósent kaupauka frestað um þrjú ár.
Landsbankinn, sem er að mestu í eigu ríkisins, er ekki með árangurstengdar greiðslur. Um 1.400 núverandi og fyrrverandi starfsmenn bankans fengu hins vegar 0,78 prósent gefins árið 2013 og fá greiddan arð vegna hans. Heildargreiðslan verður um 200 milljónir króna. Gjörningurinn var liður í samkomulagi frá árinu 2009, um fjárhagsuppgjör milli gamla og nýja Landsbankans. Skattalegt verðmæti hlutabréfanna nam 4,7 milljörðum króna.