Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði standa á bak við þá tillögu í bæjarstjórn að stórauka fræðslu um samkynhneigð í skólastarfinu. Það er alltaf ánægjulegt að sjá unga stjórnmálamenn taka prinsippafstöðu með mannréttindum. Í fréttatilkynningu frá Samfylkingunni mátti skilja að tillagan hefði verið samþykkt og að hún fæli m.a. í sér að nemendur hefðu brátt aðgang að fulltrúum frá Samtökunum 78 í skólanum og að þeir og kennarar fengju fræðslu – auk þess sem samtökin færu í námsefnisgerð með bænum.
Miðað við mínar upplýsingar var fréttatilkynningin ónákvæm. Bæjarstjórnin ku hafa tekið vel í málið (þvert á flokkslínur, sem er ánægjulegt) en þaðan var því vísað til fræðslunefndar til frekari skoðunar. Þetta er mikilvægt. Óháð því hve málefnið er göfugt, þá er ekki hægt að samþykkja það að stjórnmálamenn geti stjórnað námsefni, kennslu og kennsluháttum að vild. Það er bara ekki boðlegt. Stjórnmálamenn verða að virða ákveðin mörk um sjálfstæði og fagmennsku skólanna.
Hinir kjörnu fulltrúar eiga ekki að vera áhrifalausir um skólamál en þeirra er að marka stefnur í stórum dráttum og styðja við skólakerfið án þess að taka sér beint boðvald yfir því.
Viðeigandi mál fyrir Hafnarfjörð
Það er dálítið viðeigandi að þetta mál hafi komið upp í Hafnarfirði. Hafnarfjörður hefur eitthvert það miðstýrðasta skólakerfi sem finnst á Íslandi. Að mínu mati og margra annarra eru alltof margar ákvarðanir um skólamál í Hafnarfirði teknar ofan frá. Kennurum í bænum hefur t.d. beinlínis verið sagt að ef þeir eigi í vandræðum með að sætta sig við ákveðin (umdeilanleg) atriði í skólastefnunni þá sé þeim sjálfsagt að finna sér annað sveitarfélag til að kenna í – ef þeir vilji vera í Hafnarfirði skulu þeir gjöra svo vel og gera það sem fyrir þá er lagt. Slíkt er ekki heillavænlegt ef ætlunin er að styðja við gróskumikla skólaþróun. Þaðan af síður er æskilegt að opin boðleið sé frá kjörnum fulltrúum til starfsins í skólunum. Hinir kjörnu fulltrúar eiga ekki að vera áhrifalausir um skólamál en þeirra er að marka stefnur í stórum dráttum og styðja við skólakerfið án þess að taka sér beint boðvald yfir því.
Málið í Hafnarfirði hlýtur um leið að kallast á við mál Snorra Óskarssonar á Akureyri. Miðað við nýjustu upplýsingar telja þeir sem ráku hann að það hafi verið þess virði þrátt fyrir að það hafi verið ólöglegt því með því hefðu meiri hagsmunir verið teknir fram yfir minni. Börnin ættu að njóta vafans. Með öðrum orðum: þá má ímynda sér að hann sé skaðlegur einhverjum börnum og þess vegna á ekki að taka sénsinn.
Það vildi ég að börn nytu vafans miklu oftar í skólakerfinu. Ég kalla t.d. eftir því að menn meti hvort algengustu kennsluhættir og áherslur séu ævinlega í samræmi við það sem börnum er talið hollt. Mig grunar að röðin á höggstokkinn verði ansi löng ef hreinsa á út úr skólum allt það sem valdið getur sálarangist eða vanlíðan.
Öðru máli hefði gegnt hefði Snorri verið sakaður um tiltekin afglöp í starfi. Um það gilda skýrar og einfaldar reglur. Reglur sem eiga að byggja á hófsemd og koma í veg fyrir spillingu. Það er nefnilega algjörlega ómögulegt að sveitarfélögin sjálf séu æðstu dómarar um það hvaða starfsfólk er samboðið virðingu þeirra. Hvar lægju mörkin? Myndum við vilja losna við kennara sem hefði reynt að rífa brunaslöngu af þingverði? Mættu kennarar berjast fyrir lögleiðingu fíkniefna? Eða syngja lög um að það sé gott að fá það í bossann?
Þar afhjúpaði sig hver fáráðurinn á fætur öðrum sem hómófóbískan asna sem heldur að hlutskipti samkynhneigðra í lífinu sé að vera kynóðir barnaníðingar á þermisstigi.
Hver fáráðurinn á fætur öðrum afhjúpaði sig
Það er nefnilega svo að ekkert svið mannlegrar breytni er laust við skörun við móðgunargirni einhverra. Allt getur misboðið einhverjum. Málið í Hafnarfirði sýndi það einmitt glögglega þegar dreggjarnar á Útvarpi Sögu streymdu út í ljósvakann og töluðu af slíku hyldjúpu skilningsleysi um málefni samkynhneigðra að Gylfi Ægisson virkar hýr í samanburðinum. Þar afhjúpaði sig hver fáráðurinn á fætur öðrum sem hómófóbískan asna sem heldur að hlutskipti samkynhneigðra í lífinu sé að vera kynóðir barnaníðingar á þermisstigi. „Þarf ekki fræðslan um samkynhneigð að vera sýnikennsla?“ spurði fleiri en einn. Viðbrögð sem þessi sýna svo ekki er um villst að ungu jafnaðarmennirnir í Hafnarfirði hafa fullkomlega á réttu að standa þegar þeir telja þörf á því að auka fræðslu um hinseginmál. Krafa um fræðslu verður aldrei að hræsnislausu kæfð í fáfræði.
Ég vil samt aftur ítreka: Stjórnmálamenn eiga ekki að hafa heimild til að stjórna því hvað er kennt og hvernig. Skólar eru bundnir af námskrá. Aðalnámskrá hefur reglugerðarígildi. Eftir henni eiga skólar að fara. Þeir hafa um leið hið vandasama hlutverk að útfæra aðalnámskrána með ýmsum hætti. Sú vinna á að byggja á fagmennsku starfsfólks skólanna og lýðræðislegum vinnubrögðum. Lýðræðisleg vinnubrögð eru ekki það að einhver vinni kosningu og fái þá að ráða hvað allir aðrir gera. Það þarf að virða ýmis mörk. Það þarf ekki að benda á annað en að nákvæmlega þessi mörk hafa oft og ítrekað orðið skólakerfum til bjargar þegar reynt er að sveigja skólana til fylgis við ákveðna hugmyndafræði eða skoðanir. Mörk eru nefnilega þannig að þau eru sett til höfuðs hálfvitunum en hinir vitibornu verða líka að virða þau. Annars eru þau engin mörk.
Við viljum heldur ekki að bæjarstjórn Akureyrar ákveði að allir skólar í bænum kenni eingöngu norðlenskan framburð og ljóð Davíðs Stefánssonar.
Það er væntanlega þess vegna sem bæjarstjórn vísaði málinu áfram í stað þess að samþykkja það eins og haldið hefur verið fram. Nú á að reyna að finna því þann búning sem skarast ekki á við eðlileg vinnubrögð. Við viljum ekki opna á það að í næsta mánuði ákveði bæjarstjórn Garðabæjar að allir kennarar og öll börn skuli fá fjármálafræðslu frá Landsbankanum og að í hverri unglingadeild skuli vera starfandi þjónustufulltrúi. Við viljum heldur ekki að bæjarstjórn Akureyrar ákveði að allir skólar í bænum kenni eingöngu norðlenskan framburð og ljóð Davíðs Stefánssonar.
Sjálfstæði og fjölbreytni
Skólar þurfa að fá að þróast á eigin forsendum og innan þess ramma sem þeim er ætlaður. Til þess þurfa þeir úrræði og frelsi. Það er enginn skortur á kröfum um fræðslu um samkynhneigð og hinseginfræði í námskrá. Þar er kveðið mjög skýrt á um þessi mál. Skólarnir eiga að kenna þetta. Það þarf enga bæjarstjórn til.
En þá má velta fyrir sér hvort skólarnir séu ekki að standa sig. Og ef svo, hvernig skyldi standa á því?
Jú, skólaþróun byggist á sjálfstæði skóla og fjölbreytni. Það er aldrei verið að gera allt í einu. Ef áhersla er lögð á hinseginfræði þá er sjaldnast verið að skoða fötlunarfræði á meðan. Þannig virka hlutirnir bara. Sum sveitarfélög telja að skólaþróun sé best þannig að ein skrifstofa ákveði hvað allir skólarnir gera. Þannig er það í Hafnarfirði. Nýlega var þar ákveðið að upplýsingatækniþróun í skólastarfi krefðist þess að í allar stofur yrði settur skjávarpi (sem er líklega það tæki sem hraðast hverfur af skólaþróunarsviðinu þessi misserin). Miklu nær væri að leyfa skólum að setja sér sín eigin markmið og efla kennara til að efla á endanum börn og aðra meðlimi skólasamfélagsins.
Það er eðlilegt að yngsti bæjarstjórnarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar sé ekki alveg með það á hreinu hvernig best er að hrinda hugsjónum sínum í framkvæmd og koma á æskilegri hreyfingu í kerfinu.
Skólar eru í of mörgum tilfellum með svo bundnar hendur um starfsemi sína að skólaþróun líður fyrir það. Þess vegna eru hinseginfræði ekki á dagskrá nógu víða. Og jafnvel þótt þeim sé bætt inn miðlægt og að ofan þá merkir það að eitthvað annað fellur út í staðinn. Eitthvað sem eflaust er líka gríðarlega mikilvægt.
Samtökin 78 hafa reynst afar öflug við fræðslustarfsemi. Á sama tíma glíma þau við fjáröflunarvanda og skort á stoðum undir starfsemina. Hafnarfjarðarbæ væri að mínu mati nær að styrkja samtökin beint til að sýna stuðning sinn í verki og stuðla síðan að því að þeir skólar í sveitarfélaginu sem skara fram úr á þessu sviði jafnréttisfræðslu fái þá athygli og þann stuðning sem þeir eiga skilið. Þeir skólar gefa þá til skólasamfélagsins en fá á móti eitthvað annað sem aðrir hafa þróað. Þannig býr maður til öflugt skólasamfélag sem aðlagast breytilegum veruleika.
Það er eðlilegt að yngsti bæjarstjórnarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar sé ekki alveg með það á hreinu hvernig best er að hrinda hugsjónum sínum í framkvæmd og koma á æskilegri hreyfingu í kerfinu. Það sem er kvíðvænlegt er að henni eldri og reyndari bæjarfulltrúar um allt land virðast oft ekki vera meðvitaðir um þessi mörk – eða bera að minnsta kosti takmarkaða virðingu fyrir þeim. Það er samt afar mikilvægt að þeir átti sig. Að ekki sé talað um að menn sjái að það er ótækt að gera lýðræðis- og jafnréttisumbætur með pólitísku vöðvaafli.
Höfundur er kennari.