Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að röng mynd hafi verið dregin upp af stöðu frumvarps Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, um stofnframlög vegna stuðnings við félagslegt húsnæði og þeim samskiptum sem átt hafi sér stað milli ráðuneytanna tveggja vegna þess.
Eygló sagðist í samtali við Kjarnann í gær ítrekað hafa hafnað beiðnum frá fjármálaráðuneytinu um að hún dragi til baka frumvörp sín um húsnæðismál. Hún bíði eftir kostnaðarmati á þeim og þau verði lögð fram.
„Þessi framganga félagsmálaráðherra kemur mér verulega á óvart. Þetta mál er í sjálfu sér ósköp einfalt,“ segir Bjarni Benediktsson í samtali við mbl.is í dag. „Það er lagt inn frumvarp til kostnaðarmats í fjármálaráðuneytinu. Eftir að vinna hefst við að framkvæma kostnaðarmatið kemur fram að velferðarráðuneytið er að vinna að breytingum á frumvarpinu. Þá er það verklagsregla í samskiptum á milli ráðuneytanna að vinnu við kostnaðarmatið er hætt og farið fram á að ráðherrann afturkalli málið og leggi það fram að nýju þegar það hefur verið fullunnið.“
Bjarni segir það rangt að hann hafi gert efnislega athugasemd við frumvarpið og að hann hafi viljað að Eygló endurkallaði það af efnislegum ástæðum. "Ég verð að lýsa mikilli furðu á því upphlaupi sem hefur orðið út af þessu tiltekna máli allt frá því að það var fyrst lagt fram til kostnaðarmats í fjármálaráðuneytinu."
Hann segir enn fremur að Eygló verði að sætta sig við að frumvarp hennar lúti sömu reglum og önnur slík.Frumvörp þurfi að vera fullunninn áður en kostnaðarmat sé framkvæmt. Að því loknu séu þau tekin á dagskrá í ríkisstjórn og að því loknu í þingflokkum stjórnarflokkanna ef ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja þau fram á Alþingi. „Félagsmálaráðherra verður einfaldlega að sætta við það að þetta mál sé unnið eftir sömu reglum og önnur mál,“ segir Bjarni á mbl.is.
Þrátt fyrir að frumvarpið hafi ekki fengist samþykkt í ríkisstjórn þá hafi samt sem áður verið byrjað væri að ræða efnisatriði frumvarpsins við aðila vinnumarkaðarins, þar sem það hefði fallið í grýttan jarðveg.
Sjö vikur í fjármálaráðuneytinu
Fjármálaráðuneytið hefur undanfarnar sjö vikur haft til umsagnar frumvörp Eyglóar um húsnæðisbætur og um stofnframlög vegna félagslegra íbúða. Í fyrradag sagði ráðuneytið í svari við fyrirspurn Kjarnans um málið að Eygló og velferðarráðuneytið hefðu dregið til baka frumvarp um stofnframlög í þáverandi mynd. Verið væri að skoða „talsvert breytta útfærslu“ en að telja mætti „ósennilegt úr því sem komið er að lokið verði við útfærslu á nýju frumvarpi um þennan málaflokk ásamt umsögn um fjárhagsáhrif til framlagningar á vorþinginu.“
Eygló Harðardóttir.
Í samtali við Kjarnann í gær sagði Eygló þetta ekki vera rétt. „Fjármálaráðuneytið hefur óskað eftir því að ég afturkalli frumvörpin, ég hef hafnað því. Sú beiðni var ítrekuð gagnvart stofnframlögunum en ég hef hafnað því að kalla þessi frumvörp til baka og óskað eftir því að fá kostnaðarmat á þau,“ segir Eygló í samtali við Kjarnann. Aðspurð hvers vegna svo misvísandi svör komi úr ráðuneytunum segir Eygló að fjármálaráðuneytið verði að svara fyrir það hvers vegna það hafi gefið þau svör sem gefin voru í gær. Hún segir þó að samskipti hennar við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra hafi verið „með ágætum“.
Tilbúin að gera breytingar fyrir vinnumarkaðinn
Eygló sagðist þó vera tilbúin að gera breytingar á frumvörpunum til að koma til móts við aðila vinnumarkaðins. „Við höfum átt núna í nokkrar vikur í mjög miklum og góðum samtölum við aðila vinnumarkaðrins þar sem ég lýsti því yfir að ég væri tilbúin til þess að gera breytingar á mínum frumvörpum til þess að koma til móts við þeirra óskir. Hins vegar hef ég lagt áherslu á það að fá kostnaðarmat á mín frumvörp til þess að við getum þá líka áttað okkur á því hver er kostnaðaraukinn við það að koma til móts við þessar kröfur.“ Hún segir áherslu verkalýðshreyfingarinnar vera að lækka húsnæðiskostnað hjá þeim sem eru með lægstu tekjurnar og það sé hún mjög viljug að koma til móts við. Aðalatriðið sé að bæta stöðuna á húsnæðismarkaði, vinna á biðlistum eftir félagslegu húsnæði og ná niður kostnaði hjá þeim tekjulægstu.
„En það tengist náttúrulega því að við séum hér að fara að semja á grundvelli efnahagsstöðugleika, að við séum að huga að fólki sem er með lægstu og meðaltekjurnar og að allir aðilar nái saman. Allir gefi eitthvað eftir og allir komi með eitthvað að borðinu. Ef hins vegar það næst ekki niðurstaða á vinnumarkaði þannig að þetta verði hluti af okkar framlagi inn í þær deilur, þá mun ég leggja fram mín frumvörp óbreytt."