Erlendir ferðamenn greiddu með greiðslukortum sínum 9,3 milljarða króna í apríl sem er 39,4 prósent hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.
Líkt og undanfarna mánuði var hæsti útgjaldaliðurinn greiðslur til innlendra ferðaskipuleggjenda vegna ferða um landið. Fyrir slíkar ferðir greiddu ferðamenn 2,5 milljarða króna í mánuðinum sem er 113 prósent hærri upphæð en í apríl í fyrra. Þá jókst erlend kortavelta vegna gistingar um 37 prósent á milli ára. Erlend kortavelta í íslenskum verslunum nam 1,2 milljarði króna í apríl sem er 14 prósent vöxtur frá sama mánuði í fyrra. Mestur vöxtur erlendrar kortaveltu í verslunum var í gjafa- og minjagripaverslunum, eða sem nam 43 prósentum, að því er segir í tilkynningunni.
„Athygli vekur að í apríl var 15,3 prósent hærri greiðslukortavelta á hvern erlendan ferðamann sem kom til landsins heldur en í apríl fyrir ári síðan, ef miðað er við fjölda ferðamanna samkvæmt talningu Ferðamálastofu í Leifsstöð. Svisslendingar og Rússar eru þeir sem eyða mestu á hvern einstakling þegar borin eru saman þjóðerni ferðamanna,“ segir í tilkynningunni.
1,1 milljarður í bílaleigur og bensín
Athyglisvert er að greina ferðamáta erlendra gesta innanlands þegar höfð er til hliðsjónar velta greiðslukorta eftir útgjaldaliðum. Samkvæmt útgjaldatölum virðast þeir ferðamenn sem ferðast á eigin vegum helst kjósa að ferðast í bílaleigubílum. Næst hæstum upphæðum er varið í flug, í þriðja sæti eru rútuferðir og að lokum ferjusiglingar.
Hæsta upphæðin vegna ferðalaga innanlands í apríl var vegna leigu á bílaleigubílum eða 863 millj. kr. Erlend kortavelta vegna eldsneytiskaupa, sem ætla má að sé aðallega vegna akstur bílaleigubíla, var 281 millj. kr. Samtals nam þessi upphæð því liðlega 1,1 milljarði króna í mánuðinum.
Útlendingar greiddu með kortum sínum vegna flugferða hér á landi í apríl 272 millj. kr. Þá greiddu þeir 75 millj. kr. fyrir ferðir með hópferðabílum og 9 millj. kr. vegna ferjusiglinga. Hér eru almennt ekki meðtaldar greiðslur vegna skipulegra skoðunarferða sem farnar eru með fararstjórum eða svokallaðar pakkaferðir.
Samanlögð kortavelta erlendra ferðamanna fyrstu fjóra mánuði þessa árs var 38 prósent meiri en sömu fjóra mánuði í fyrra.