Allskyns hópar á vinnumarkaði eru í verkfalli þessi misserin. Á meðal þeirra hópa sem hafa lagt niður vinnu undanfarnar vikur eru sérfræðingar sem starfa á sjúkrahúsum á borð við geislafræðinga og ljósmæður. Verkföll starfsfólks sjúkrahúsa hafa eðlilega haft mikil áhrif á annað starfsfólk og auðvitað þá sem nýta sér þjónustu heilbrigðisþjónustunnar, sjúklinganna sjálfa.
Verkfall dýralækna hefur líka haft í för með sér allskyns vandkvæði. Vegna þess er til að mynda ekki hægt að slátra svínum og alifuglum á borð við kjúklingum á þeim búum sem framleiða og selja afurðir unnar úr þeim dýrum. Sú staða hefur leitt af sér að skortur eru á ýmsu kjöti í verslunum og á veitingastöðum landsins. Kjúklingastaðurinn KFC hefur til að mynda þurft að loka nokkrum stöðum sínum tímabundið vegna kjúklingaskorts.
Greiningardeild Creditinfo, sem rekur meðal annars Fjölmiðlavaktina, tók eftir því að kjúklingar og sjúklingar hafi því eðlilega verið mikið í fréttum upp á síðkastið. Hún tók því saman gögn þar sem borin er saman fjöldi frétta um annars vegar sjúklinga og sjúkrahús í tengslum við verkföll og hins vegar fréttir um kjúklinga og annað kjöt í tengslum við verkföll. Niðurstaðan var birt á Facebook-síðu fyrirtækisins og hana má sjá hér að neðan. Af henni má sjá að kjúklingarnir hafa verið meira í fréttum en sjúklingar síðustu þrjár vikur.