Breski fjölmiðillinn The Guardian birti í morgun helstu upplýsingar sem varða aðgerðir lögreglunnar í Sviss sem beinast að háttsettum mönnum sem starfa, eða hafa starfað, fyrir FIFA. New York Times fjallar síðan ítarlega um málið í dag og hefur raunar leitt umfjöllun um málið frá árinu 2013. Bandarísk yfirvöld fara með rannsókn málsins en grunur er uppi um að einstaklingarnar sem um ræðir hafi þegið mútur upp á hið minnsta 150 milljónir Bandríkjadala, eða sem nemur um þrettán milljörðum króna, vegna undirbúnings fyrir staðaval HM í fótbolta sem haldið verður í Rússlandi 2018 og Kata 2012.
Hverjir voru handteknir?
Samkvæmt frétt New York Times verður ákæra gefin út á hendur alls átta stjórnendum og stjórnarmönnum FIFA til viðbótar við þá sex sem voru handteknir í Sviss. Á meðal þeirra sem einnig verða ákærðir, en voru handteknir í morgun, eru Jack Warner, fyrrum varaforseti FIFA frá Trinidad og Tobago, Jeffrey Webb frá Cayman Islands, varaforseti framkvæmdastjórnar FIFA, og Eugenio Figueredo frá Úrúgvæ. Búist er við að nokkrir stjórnendur íþróttamarkaðsfyrirtækja frá Bandaríkjunum og Suður-Ameríku verði líka ákærðir en þeir eru grunaðir um að hafa greitt meira en 150 milljónir dala, um 20,2 milljarða króna, í mútur og greiðslur undir borðið og fengið í staðinn arðvæna fjölmiðlasamninga í tengslum við stórar knattspyrnukeppnir á vegum FIFA. Sepp Blatter, forseti FIFA, er ekki á meðal þeirra sem hafa verið handteknir, en ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort hann sjálfur er til rannsóknar hjá bandarískum yfirvöldum.
Hvers vegna var gripið til aðgerða núna?
Lögregluyfirvöld í Sviss virðast hafa tímasett aðgerðirnar fyrir ársfund FIFA sem hefst á föstudaginn, þar sem flestir þeirra sem hafa nú verið handteknir voru komnir saman á sama stað. Þeir voru á Baur au Lac, lúxushóteli í Sviss með útsýni yfir svissnesku Alpana.
Hvers vegna eru bandarísk yfirvöld að rannsaka FIFA?
Saksóknari í Bandaríkjunum hefur þegar boðað til blaðamannafundar síðar í dag, þar sem farið verður yfir þau atriði sem rannsóknin beinist að, að því er fram kemur í Guardian í dag. Alríkislögreglan FBI hefur verið með mútumál sem tengist stjórnendum FIFA til rannsóknar undanfarin ár, en fréttir þess efnis voru sagðar í fjölmiðlum í mars 2013, og síðan í nóvember 2014. Chuck Blazer, fyrrverandi meðlimur í framkvæmdastjórn FIFA, er sagður hafa unnið með FBI eftir að gögn fundust um skattaundanskot hans. Samkvæmt frásögn The New York Daily News í nóvember í fyrra, sem Guardian vitnar til, var Blazer með upptökugræjur frá FBI inn á sér þegar hann ræddi við nokkra þeirra sem hafa nú verið handteknir á fundi. Þetta eru sögð lykilgögn í málinu.
Hver er Chuck Blazer?
Chuck Blazer. Mynd: EPA.
Blazer hætti störfum hjá FIFA í maí 2013, og var bannað að hafa afskipti af fótbolta í nítíu daga, vegna ásakana um að hann hefði þegið mútur upp á tuttugu milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um 2,6 milljarða króna. Blazer er sjötugur, og sagður hafa verið maðurinn á bak við mikinn árangur sem náðst hefur við markaðssetningu fótbolta í Bandaríkjunum á síðustu árum. Blazer er þekktur fyrir áberandi lúxus-lífstíl en hann á íbúð á besta stað á Manhattan og einnig risavaxna villu á Bahamas. Hann hefur oft verið nefndur Herra tíu prósent (Mr. Ten Percent) vegna samninga sem hann gerði við knattspyrnusambönd Mið-Ameríku um að fá til sín tíu prósent af tekjum.
Sepp Blatter, forseti FIFA, sagði á blaðamannafundi í morgun að engar húsleitir hefðu verið gerðar á skrifstofum FIFA. Þá sagði hann ennfremur að samkvæmt upplýsingum sem hann hefði, þá væri FIFA þolandinn í málinu.