Aðilar vinnumarkaðarins ræða nú um að gera kjarasamning til lengri tíma en áður stóð til, jafnvel allt að þriggja ára. Í slíkum samningi yrði gert að aðalatriði að hann myndi skila raunverulegri kaupmáttaraukningu og að kjör lægstu tekjuhópanna myndu hækka meira en annarra. Til stendur að kynna samningsdrög fyrir stóru samningsnefndum þeirra stéttarfélaga sem að samningnum koma síðdegis í dag eða í kvöld. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu.
Tilkynnt var nokkuð skyndilega í gær að að forsvarsmenn samninganefnda VR, LÍV, Flóabandalagsins, StéttVest og Samtaka atvinnulífsins (SA) hefðu náð samkomulagi um að fresta verkfallsaðgerðum sem áttu að hefjast næsta fimmtudag, þann 28. maí. Aðgerðunum var frestað um fimm sólarhringa.
Í tilkynningu sem VR sendi frá sér vegna þessa sagði: „Ekki verður upplýst um einstaka efnisþætti viðræðna aðila fyrr en gengið hefur verið frá drögum að samningi sem lagðar verði fyrir samninganefndir félaganna. Stefnt er að því að niðurstaða liggi fyrir eigi síðar en 28. maí næstkomandi.“
Samkomulagið um frestun var afleiðing þriggja sólarhringa samningalotu um og fyrir hvítasunnuhelgina.
Verri staða á opinbera markaðinum
Staðan í viðræðum ríkisins við opinbera starfsmenn er hins vegar ekki jafn góð. Forsvarsmenn BHM efuðust um helgina um samningsumboð viðmælenda sinna eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra lét hafa eftir sér í fréttum Stöðvar 2 um helgina að ríkið væri ekki í aðstöðu til að byrja að semja yrr en það sæi í hvað stefndi á almenna vinnumarkaðnum. Sigmundur Davíð sagði einnig að til greina kæmi að hækka skatta ef komandi kjarasamningar fælu í sér launahækkanir sem myndu ógna efnahagslegum stöðugleika. Að lokum sagði Sigmundur Davíð að stjórnvöld myndu hugsanlega grípa inn í verkfall heilbrigðisstarfsmanna með lagasetningu ef lífi fólks væri stefnt í hætt.
Morgunblaðið greinir frá því í morgun að allt útlit sé fyrir að allsherjarverkfall hjúkrunarfræðinga hefjist á miðnætti. Af 1.600 stöðugildum hjúkrunarfræðinga hjá ríkinu eru 500 á undanþágulista og því fara 1.100 stöðugildi í verkfall. Hvítasunnuhelgin var notuð til að undirbúa aðgerðirnar, t.d. með því að rýma sjúkrarúm og senda sjúklinga sem ekki voru bráðveikir heim.