Frá áramótum hefur fylgi Pírata aukist hratt og í síðustu könnunum mældist það vel yfir 30 prósentum. Það þýðir að Píratar mælast með meira fylgi en báðir ríkisstjórnarflokkarnir til samans. Fylgið hefur vakið mikla athygli, og jafnvel undrun, en er það einsdæmi? Hvernig hefur fylgi nýrra flokka þróast í sögulegu samhengi? Kjarninn kannaði hvernig nokkrum öðrum flokkum hefur vegnað í gegnum tíðina.
Píratar eru í sérstakri stöðu hvað þetta varðar. Þeir voru þegar komnir inn á þing þegar fylgi við þá fór að aukast, en margir aðrir flokkar hafa fengið mikið fylgi til að byrja með og svo hefur fylgið farið hratt lækkandi. Í viðtali á RÚV fyrir skömmu sagði Stefanía Óskarsdóttir, prófessor í stjórnmálafræði, að árangur Pírata sé einstæður, en þó sé helst hægt að bera hann saman við fylgi Besta flokksins í sveitarstjórnarkosningunum árið 2010. Besti flokkurinn fór hratt upp á við í könnunum, og viku fyrir kosningar mældu Fréttablaðið og Stöð 2 Besta flokkinn með hreinan meirihluta og 44 prósenta atkvæði. Það fór þó ekki svo en niðurstaðan var þó glæsileg fyrir flokkinn, 34,7 prósenta fylgi.
Lilja Mósesdóttir og Birgir Örn Guðjónsson, Biggi lögga, á aðalfundi Samstöðu haustið 2012. Mynd: Samstaða
Samstaða Lilju Mósesdóttur
Eitt þekktasta dæmi undanfarinna ára um nýjan flokk með mikið fylgi er Samstaða. Lilja Mósesdóttir sagði sig úr þingflokki VG árið 2011 og tæpu ári síðar var stjórnmálaflokkur undir formennsku hennar, Samstaða - flokkur lýðræðis og velferðar, stofnaður. Flokkurinn boðaði nýja hugsun í stjórnmálum, sem væri hvorki til hægri né vinstri.
Það var 7. febrúar 2012 og þremur dögum síðar, 10. febrúar, birtist könnun á fylgi flokkanna í Fréttablaðinu. Þá mældist flokkurinn með 21,3 prósenta fylgi og fjórtán þingmenn. Það var langmesta fylgið sem flokkurinn mældist nokkurn tímann með. 29. febrúar mældist flokkurinn með 11,3 prósent í könnun Gallup og 18. mars með 9,1 prósent hjá MMR.
Strax í næstu könnunum á eftir fór þó að halla undan fæti og í ágúst tilkynnti Lilja að hún myndi ekki bjóða sig fram til formanns á ný á aðalfundi í október, og axlaði þannig ábyrgð á fylgistapi flokksins. Í október var því kjörinn nýr formaður, Birgir Örn Guðjónsson, sem seinna varð frægur á Íslandi sem Biggi lögga. Í samtali við mbl.is sagði hann Samstöðu sýna hugrekki með því að gefa „þessum venjulega millistéttarmanni tækifæri“ og nú færi í hönd kosningabarátta, enda ætlaði flokkurinn að bjóða fram í kosningunum 2013.
Flokkurinn hélt þó áfram að tapa fylgi og í síðustu könnun sem flokkurinn var mældur í hjá MMR, í febrúar 2013, var fylgið 0,7 prósent. Í febrúar var haldinn landsfundur þar sem ákveðið var að bjóða ekki fram í kosningunum, og Lilja var aftur kjörin formaður í stað Birgis.
Róbert Marshall og Björt Ólafsdóttir eru meðal sex þingmanna Bjartrar framtíðar.
Rysjótt gengi Bjartrar framtíðar
Eins og skrifað var hér að ofan var árangur Besta flokksins í sveitarstjórnarkosningunum einstakur. Björt framtíð var stofnuð árið 2012 og varð eins konar systurflokkur Besta flokksins. Fylgi flokksins hefur verið rysjótt en fór hæst í 18,6 prósent í lok janúar 2013 hjá Gallup og mældist um svipað leyti 17,6 og 17,8 prósent hjá MMR. Flokkurinn fór svo lægst í 7,7 prósenta fylgi hjá MMR og 6,6% hjá Gallup skömmu fyrir kosningar en þegar að þeim kom var fylgið 8,2 prósent.
Það fór svo upp á við strax eftir kosningar og fór hæst í 17,5 prósenta fylgi hjá Gallup í lok mars í fyrra og í 21,8 prósent í júní í fyrra hjá MMR. Það sveiflaðist milli 15 og 20 prósenta hjá MMR fram í febrúar á þessu ári en hefur síðan farið niður á við. Í síðustu könnun MMR fór fylgi flokksins í fyrsta sinn undir kjörfylgið, og mældist 6,3 prósent. Hjá Gallup hefur fylgið farið undir kjörfylgi í apríl og maí, í 7,8 og 7,4 prósent.
Þjóðvaki Jóhönnu og Borgaraflokkur Alberts hátt upp og niður
Það eru líka eldri dæmi um flokka sem byrja vel en missa fylgi fljótt. Þjóðvaki Jóhönnu Sigurðardóttur mældist með 17,5 prósenta fylgi fyrst eftir að flokkurinn var stofnaður, sem klofningur út úr Alþýðuflokknum árið 1995. Fylgið minnkaði og var mánuði síðar orðið 10,5 prósent og þegar að kosningum kom var fylgið farið niður í 7,2 prósent, en það þýddi þó fjóra menn inn á þing.
Sömu sögu má segja af Borgaraflokki Alberts Guðmundssonar, sem bauð fram í alþingiskosningunum árið 1987, sem mældist fyrst með um 20 prósenta fylgi í könnunum en endaði með að fá 11 prósent í kosningunum. Þróunin var eins hjá Bandalagi jafnaðarmanna, með Vilmund Gylfason í forystu, sem byrjaði mjög hátt en endaði með rúmlega sjö prósenta fylgi.
„Þannig að það eru ýmis dæmi um það að flokkar hafi mælst um tuttugu prósent og endað við tíu prósent,“ sagði Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, við Vísi árið 2012 þegar Samstaða hafði fengið mikið fylgi.