Fjölmiðlar sækja tekjur sínar að mestu með tvennskonar hætti: áskriftum eða auglýsingum. Í ljósi þess að íslenski auglýsingamarkaðurinn gefur af sér um tíu milljarða króna á ári er eftir miklu að sækjast á honum. Margir fjölmiðlar bjóða til að mynda upp á svokallaðar kynningar þar sem efnið sjálft verður auglýsing. Í fjölmiðlalögum er tekið sérstaklega fram að viðskiptaboð skuli vera auðþekkjanleg og „vera skýrt afmörkuð frá öðru en með þeim hætti sem best hentar því formi miðlunar sem notað er hverju sinni“. Þá séu dulin viðskiptaboð óheimil.
Það vakti því athygli í bakherberginu þegar listi yfir efnisþætti í Íslandi í dag, magasínþætti Stöðvar 2, sem Stöð 2 sendi til Gallup, sem mælir sjónvarpsáhorf, barst þangað inn. Samkvæmt listanum var eitt þeirra efna sem þátturinn sýndi 28. maí síðastliðinn kallað „MS plögg“.
Í umfjölluninni, sem er sex mínútna löng, er sagt ítarlega frá nýrri herferð Mjólkursamsölunnar (MS), eins stærsta auglýsanda á Íslandi, sem snýst meðal annars um að auka vitneskju um örnefni. Auglýsingar úr herferðinni eru sýndar í heild sinni, viðtöl tekin við markaðsstjóra MS og myndir sýndar af því þegar örnefnaupplýsingar eru prentaðar á mjólkurfernur. Hvergi er þess getið að um kynningu, eða „plögg“, sé að ræða. Hægt er að horfa á umfjöllunina hér.
Í þættinum daginn eftir, er efnisþáttur kallaður „plögg allt“. Í þeim hluta mættti meðal annars Bubbi Morthens, sem starfar hjá 365, til að kynna tónleika sem hann er að fara að halda.
Fjölmiðlaheimurinn er að breytast mjög hratt og fjölmiðlar þurfa að finna sér nýjar leiðir til að afla tekna. Kynningar, eða „plögg“, eru ein slík leið fyrir suma miðla, og ekkert út á það að setja. Í bakherbergjunum er því hins vegar velt fyrir sér hvort fyrir sér hvort ekki sé heiðarlegra að merkja „plöggið“ almennilega þannig að áhorfandinn viti að hann sé að horfa á slíkt. Svona eins og lög gera ráð fyrir.