Félagið Klappir Development ehf. og China Nonferrous Metal Industry´s Foreign Engineering and Construction (NFC) hafa undirritað viljayfirlýsingu um fjármögnun á byggingu 120 þúsund tonna álvers við Hafurstaði í Skagabyggð, sem er í Norðvesturkjördæmi norðan við Blönduós. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Zhang Weidong, sendiherra Kína á Íslandi, fluttu ávörp við undirritunina, sem fór fram í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu síðdegis í gær.
Í tilkynningu vegna þess segir að Klappir og NFC vinni um þessar mundir í sameiningu að hagkvæmniathugun vegna byggingar og reksturs fyrirhugaðs álvers. Heildarkostnaður verkefnisins sé áætlaður rúmir 100 milljarðar króna, eða um 780 milljónir Bandaríkjadala. Áætlanir geri ráð fyrir 240 varanlegum störfum í álveri Klappa og allt að 800 tímabundnum störfum á byggartíma.
Ætla að fjármagna í gegnum kínverska eða aðra banka
Þar er haft eftir Ingvari U. Skúlasyni, framkvæmdastjóra Klappa Development að undirritunin sé mikilvægur áfangi í unfirbúningsferlinu. "Klappir og sveitarfélögin á Norðurlandi vestra fagna því að jafn öflugur og traustur aðili og NFC skuldbindi sig til þáttöku í þróun verkefnisins. Framboð á nauðsynlegri orku mun ráða því hvenær hægt verður að hefja rekstur álvers að Hafursstöðum." Ingvar er skráður eini eigandi Klappa Development í fyrirtækjaskrá.
Í viljayfirlýsingunni á milli Klappa Development og NFC er kínverska samstarfsaðilanum falin svokölluð „alframkvæmd“ (e. turnkey) verkefnisins. Samkvæmt yfirlýsingunni ábyrgist NFC fjármögnun a.m.k. 70 prósent kostnaðar við framkvæmdina og uppbyggingu innviða í gegnum kínverska eða aðra banka, auk þess að ábyrgjast byggingu allra mannvirkja sem og rekstur álversins á meðan uppkeyrslu þess stendur. Í viljayfirlýsingunni er einnig kveðið á um samvinnu Klappa og NFC um gerð samninga við þriðja aðila um forsölu framleiðsluafurða (e. offtake) sem og um samstarf um gerð samninga við seljendur hráefnis.
Orka liggur ekki á lausu
Ljóst er að orka fyrir verkefni að þessari stærðargráðu liggur ekki á lausu. Í Morgunblaðinu í morgun var greint frá því að í kjölfar þess að Alþingi samþykkti breytingartillögu við rammaáætlun, sem felur í sér að hvorki Holtavirkjun né Urriðafossvirkjun eru settar í nýtingarflokk, væri ljóst að Landsvirkjun muni ekki geta útvegað nægilega orku til að anna tveimur stórum stóriðjuverkefnum í Helguvík og á Grundartanga. Um er að ræða kísilmálmverksmiðju Thorsil á fyrrnefnda staðnum og sólarkísilverksmiðju Silicor Materials á þeim síðarnefnda. Þau verkefni eru bæði komin lengra á veg en fyrirhugað álver í Skagabyggð.
Landvernd hefur lagst alfarið á móti því að reist verði álver á Norðvesturlandi en sveitarfélög á svæðinu höfðu þegar skrifað undir viljayfirlýsingu við Klappir vegna verkefnisins.