Erlendir fjárfestar héldu áfram að kaupa innlend ríkisskuldabréf í síðasta mánuði. Í mánuðinum jókst eign þeirra á ríkisskuldabréfum um 18 milljarða króna og nam eignin alls 186 milljörðum króna um síðustu mánaðarmót, samanborið við um 168 milljarða króna mánuði fyrr. Þetta má sjá í mánaðarlegu markaðsupplýsingaskjali Lánamála ríkisins.
Helst eru erlendir fjárfestar áhugasamir um löng óverðtryggð ríkisbréf, það eru flokkar sem eru á gjalddaga árin 2022, 2025 og 2031.
Áhugi erlendra fjárfesta á skuldabréfum íslenska ríkisins hefur aukist verulega á undanförnum mánuðum. Fjárfesting þeirra upp á átján milljarða í ágúst kemur til viðbótar við rúmlega átta milljarða króna kaup þeirra á skuldabréfamarkaði yfir sumarmánuðina.
Vextir á Íslandi eru háir í samanburði við mörg önnur ríki, gengi krónunnar hefur verið stöðugt gagnvart evru og í kjölfar áætlunar stjórnvalda um losun fjármagnshafta hafa erlend matsfyrirtæki hækkað lánshæfi Íslands. Þetta hefur allt glætt áhuga erlendra aðila á að fjárfesta hérlendis.
Vaxtarmunarviðskiptin snúa aftur
Vaxtarmunarviðskipti voru afar vinsæl hérlendis fyrir hrun. Vaxtakjör á Íslandi voru mun hærri en í flestum öðrum ríkjum og til landsins streymdu hundruðir milljarða króna sem fjárfest var í skuldabréfum með háum vöxtum. Þótt upphæðirnar sem um ræðir í dag séu ekki í námunda við það sem þekktist fyrir hrun, þá hafa stjórnvöld verið á varðbergi. Í ágúst sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að vextir á Íslandi mættu ekki vera of háir í samanburði við önnur lönd, eigi að koma í veg fyrir óeðlilega mikið innflæði fjármagns.
Við kynningu ákvörðunar peningastefnunefndar í ágúst um hækkun stýrivaxta greindi Már Guðmundsson seðlabankastjóri síðan frá því að bankinn muni leggja skatt eða bindingu á vaxtarmunarviðskipti í framtíðinni. Þessum stýritækjum verður komið á áður en flæði fjármagns verður frjálst án fjármagnshafta. Að sögn seðlabankastjóra mun þetta auka bit peningastefnunnar en nákvæm útfærsla liggur ekki fyrir. Boltinn er hjá Seðlabankanum og búast má við fréttum af þessu á næstu mánuðum, sagði Már í ágúst.