Ef nýr samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnað, sem um samdist í vikunni, tekur gildi gæti verð á vissum innfluttum matvörum lækkað um tugi prósenta. Samhliða gildistöku samningsins mun innflutningskvóti Íslendinga á lambakjöti inn á innri markað Evrópu, næstum tvöfaldast, fara úr 1.850 tonnum á ári í 3.350 tonn. Íslenskir framleiðendur Skyrs fá auk þess að flytja út tíu sinnum meira en áður inn á markaði í Evrópusambandslöndununum. Í dag mega þeir selja 380 tonn af skyri þar án tolla en það magn fer upp í 4.000 tonn með nýja samningnum. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Tilkynnt var um það á fimmtudag að nýir samningar Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur hefðu náðst á samningafundi sem staðið hafði í tvo daga í Reykjavík. í tilkynningu sagði að "samningarnir munu stuðla að auknu vöruúrvali og lægra vöruverði á Íslandi til hagsbóta fyrir neytendur. Jafnframt fela samningarnir í sér veruleg ný tækifæri fyrir útflytjendur." Vonir standa til að samningarnir geti tekið gildi í árslok 2016 eða byrjun árs 2017, að fenginni staðfestingu stofnana ESB og Íslands.
Kjúklingabændur ásaka stjórnvöld um "baktjaldarmakk"
Þar er meðal annars rætt við Sindra Sigurgeirsson, formann Bændasamtakanna, sem segir jákvætt að fá aukinn aðgang að innri markaði Evrópusambandsins. Þó sé ljóst að staðan verði erfið fyrir sumar búgreinar, meðal annars alifugla- og svínarækt. Kvótar á innflutning kjúklinga um nánast fjórfaldast með nýja samkomulaginu auk þess sem heimilt verður að flytja inn 200 tonn af lífrænum alífuglum, en innflutningur á þeim er óheimill í dag. Þá mun íslenskum innflytjendum vera heimilt að flytja inn sjö sinnum meira nautakjöt en þeir gera í dag og 3,5 sinnum meira svínakjöt. Auk þess verða heimildir til að flytja inn osta stórauknar.
Ingimundur Bergmann, formaður Félags kjúklingabænda, gagnrýnir vinnubrögð stjórnvalda harðlega í samtali við blaðið. "Þetta er baktjaldamakk. Það var látið í veðri vaka við okkur að þetta væri í undirbúningi og hugsanlega inni í myndinni, ekki að málið væri komið á þetta stig."
Verslunin sátt en vill meira
Talsmenn verslunarinnar á Íslandi eru hins vegar mun kátari með breytingarnar. Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir breytingarnar frábærar fréttir fyrir neytendur og verslunina. Þær geti lækkað verð á ákveðnum vörutegundum um tugi prósenta. En eigi þó eftir að taka mjög stór skref í þessum efnum. "Okkur sýnist sem breytingarnar nái ekki til allra unninna landbúnaðarvara. Samkvæmt mínum upplýsingum hafa breytingarnar þannig ekki áhrif á skinku, parmesanost og pylsur almennt, svo dæmi sé tekið. Þetta eru ef til vill minni breytingar en væntingar stóðu til varðandi unnar landbúnaðarvörur."
Gæti aukið verðbólgu
Ingólfur H. Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka, segir að óljóst sé hversu mikið verð á matvöru muni lækka. Afnám tolla, sem sé lækkun óbeinna skatta, leiði til lægra verðs og auki kaupmátt. Aðgerðið sé hins vegar einnig eftirspurnarhvetjandi fyrir hagkerfið, ef ekki komi til mótvægisaðgerðir af hálfu stjórnvalda. "Án mótvægisaðgerða hefur þetta þannig þensluáhrif fyrir hagkerfið á tímum þegar spenna er í kerfinu. Þau áhrif eru til að auka verðbólguna."