Píratar mælast nú með 36 prósent fylgi samkvæmt nýjustu könnun Gallup og hafa aldrei mælst hærri í könnunum fyrirtækisins. Flokkurinn bætir við sig fjórum prósentustigum milli mánaða. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 22 prósent fylgi og hefur ekki mælst með lægra fylgi á þessu kjörtímabili. Raunar hefur fylgi flokksins ekki mælst lægra frá því í miðju hruni, eða í nóvember 2008. Frá þessu var greint í útvarpsfréttum RÚV.
Það er ekki bara Sjálfstæðisflokkurinn sem glímir við sögulega lægð. Samfylkingin mælist með einungis níu prósent fylgi, sem er lægsta fylgi flokksins samkvæmt mælingum síðan í maí 1998, ári áður en flokkurinn bauð fyrst fram til Alþingis.
Framsóknarflokkurinn dalar lítillega milli kannana og er nú með um ellefu prósent fylgi, aðeins minna en Vinstri grænir sem mælast með tólf prósent. Vinstri grænir bæta heilum þremur prósentustigum við sig milli kannana.
Það blæs ekki byrlega fyrir Bjartri framtíð frekar en undanfarna mánuði. Flokkurinn hefur átt í miklum innanflokksdeilum og framundan er algjör skipting á forystu flokksins á ársfundi um næstu helgi. Fylgi Bjartrar framtíðar heldur samt sem áður áfram að dala og mælist nú einungis rúm fjögur prósent. Það myndi ekki duga flokknum til að ná inn manni á þing ef kosið yrði í dag.