Lesendur Bandaríska dagblaðsins USA Today hafa valið Dohop besta vefinn og appið fyrir ferðalög (Best App/Website for transportation). Þetta var tilkynnt á vef blaðsins, USA Today, í dag, en greint er frá þessu í tilkynnningu frá Dohop.
Lesendur USA Today völdu Dohop framyfir 19 önnur fyrirtæki í ferðaiðnaðinum. Á meðal samkeppnisaðila voru þekkt fyrirtæki á borð við Kayak og umdeilda leigubílafyrirtækið Uber.
Vefur USA Today er með um 80 milljón heimsóknir í hverjum mánuði og um 900 milljónir flettinga, auk þess sem prentútgáfa blaðsins nær til þriggja milljóna lesenda daglega, að því er segir í tilkynningu. „Þetta er stórkostlegt. Okkur fannst frábært en þó óvænt að vera tilnefnd þar sem við erum ekki með stóra hlutdeild á bandaríska markaðnum. En að fá þessa viðurkenningu frá lesendum blaðsins er ótrúlegt. Í þeirra augum erum við ekki íslenskt fyrirtæki heldur bara frábær vefsíða,” segir Davíð Gunnarsson, framkvæmdastjóri Dohop, í tilkynningu vegna viðurkenningarinnar.
Dohop var stofnað á Íslandi árið 2004 og fyrsta útgáfa flugleitarinnar fór í loftið 2005. Vefurinn er hannaður til að einfalda leit að ódýru flugi með hugbúnaði sem leitar að verði hjá fjölda flugfélaga og ferðaskrifstofa á netinu. Dohop á og rekur Dohop.is ásamt sambærilegum vefjum á 29 tungumálum þar sem finna má flug, hótelgistingu og bílaleigu.