365 miðlar hafa sagt sig úr Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunni (ÍKSA), sem halda hina árlegu Edduverðlaunahátíð. Þetta staðfestir Brynhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri ÍKSA/Eddunnar í samtali við Kjarnann.
Edduverðlaunin munu samt sem áður fara fram og hátíðin verður haldin um mánaðarmótin febrúar/mars 2016. Óvissa er um hvort 365 miðlar muni tilnefna efni sem fyrirtækið framleiðir innanhúss til Edduverðlaunanna en Brynhildur gerir ráð fyrir því að sjálfstæðir framleiðendur, sem framleiða efni sem sýnt er á stöðvum 365 miðla, muni halda áfram að tilnefna það til verðlaunanna. Á meðal þeirra er SagaFilm, sem framleiðir hina vinsælu þætti Rétt, sem sýndir eru á Stöð 2.
Kjarninn reyndi að ná sambandi við Sævar Frey Þráinsson, forstjóra 365 miðla, til að fá skýringar á því að fyrirtækið hafi sagt sig úr ÍKSA, en án árangurs.
Stöð 2 vann engin verðlaun á síðustu hátíð
Edduverðlaunin voru síðast veitt 21. febrúar síðastliðinn. Sjónvarpað var beint frá viðburðinum á Stöð 2 og hitað var upp með beinni útsendingu frá rauða dreglinum, líkt og tíðkast á stærstu kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunahátíðum heims. Góður rómur var gerður af hátðinni, hún þótti skemmtileg og sérstaklega vel útfærð.
Það vakti hins vegar athygli að Stöð 2, stærsta einkarekna sjónvarpsstöð landsins, vann ekki ein einustu verðlaun. Mörg af helstu flaggskipum stöðvarinnar voru tilnefnd en ekkert þeirra hlaut náð fyrir augum akademíunnar. Eina verkið með tengingu við Stöð 2 sem vann til verðlauna var heimildarmyndin Höggið, sem var sýnd á stöðinni í janúar.
Sjónvarpsþættir og –fólk helsta samkeppnisaðila Stöðvar 2, RÚV, sópuðu hins vegar til sín verðlaunum. RÚV vann nánast alla flokka sem stöðin gat unnið. Ævar vísindamaður vann sem besta barna- og unglingaefni ársins, Landinn sem frétta- eða viðtalsþáttur ársins, Hraunið sem leikið sjónvarpsefni ársins, Hæpið sem lífstílsþáttur ársins, Vesturfarar sem menningarþáttur ársins, Orðbragð sem skemmtiþáttur ársins og Brynja Þorgeirsdóttir frá RÚV var valin sjónvarpsmaður ársins. Þá fékk Ómar Ragnarsson, sem undanfarin ár hefur unnið fyrir RÚV, heiðursverðlaun Eddunnar árið 2015.
Kvikmyndin Vonarstræti sópaði síðan til sín kvikmyndaverðlaunum Eddunnar 2015. Alls fékk hún tólf verðlaun, meðal annars sem kvikmynd ársins, fyrir leikstjórn, handrit, kvikmyndatöku og klippingu. Báðir aðalleikararnir í Vonarstræti, þau Þorsteinn Bachmann og Hera Hilmarsdóttir hlutu Eddustyttuna. Edduna fyrir aukahlutverk fengu þau Helgi Björnsson og Nanna Kristín Magnúsdóttir fyrir hlutverk sín í kvikmyndinni París norðursins.