Jón Gnarr, framkvæmdastjóri dagskrársviðs 365, segir RÚV hafa haft 70 prósent vægi í dómnefnd Edduverðlaunanna en að 365 beri helming kostnaðar vegna veitingu þeirra. 365 hefðu lagt fram ýmsar tillögur um að auka vægi almennings í kjöri á verðlaunahöfum en þær tillögur hafi ekki hlotið brautargengi. Því hafi fyrirtækið ákveðið að segja sig úr Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunni (ÍKSA), sem heldur Edduverðlaunahátíðina.
Kjarninn greindi frá þeirri ákvörðun fyrr í dag.
Edduverðlaunin munu samt sem áður fara fram og hátíðin verður haldin um mánaðarmótin febrúar/mars 2016. Óvissa er um hvort 365 muni tilnefna efni sem fyrirtækið framleiðir innanhúss til Edduverðlaunanna en Brynhildur gerir ráð fyrir því að sjálfstæðir framleiðendur, sem framleiða efni sem sýnt er á stöðvum 365, muni halda áfram að tilnefna það til verðlaunanna. Á meðal þeirra er SagaFilm, sem framleiðir hina vinsælu þætti Rétt, sem sýndir eru á Stöð 2.
Jón segist mikill aðdáandi verðlaunahátíða á borð við Edduna. Þær séu skemmtilegar og nauðsynlegar uppskeruhátíðir fyrir geirann. Til greina komi að kanna möguleikann á nýrri verðlaunahátíð sem 365 miðlar myndu taka þátt í að halda. Engin ákvörðun hefur hins vegar verið tekin um það.
Á síðustu Edduverðlaunahátíð, sem fór fram í febrúar 2015, fékk Stöð 2 engin verðlaun.Sjónvarpsþættir og –fólk RÚV sópuðu hins vegar til sín verðlaunum. RÚV vann nánast alla flokka sem stöðin gat unnið. Ævar vísindamaður vann sem besta barna- og unglingaefni ársins, Landinn sem frétta- eða viðtalsþáttur ársins, Hraunið sem leikið sjónvarpsefni ársins, Hæpið sem lífstílsþáttur ársins, Vesturfarar sem menningarþáttur ársins, Orðbragð sem skemmtiþáttur ársins og Brynja Þorgeirsdóttir frá RÚV var valin sjónvarpsmaður ársins. Þá fékk Ómar Ragnarsson, sem undanfarin ár hefur unnið fyrir RÚV, heiðursverðlaun Eddunnar árið 2015.