Traust til lögreglunnar minnkar um 5% milli ára, samkvæmt nýrri könnun MMR. 75% aðspurðra segjast treysta lögreglunni frekar eða mjög mikið í nýrri könnun, en 80% sögðust treysta henni á sama tíma í fyrra. Traust til ríkislögreglustjóra minnkar einnig milli ára, fer úr 46% í 43%.
Þrátt fyrir að traust til lögreglunnar minnki treysta samt fleiri lögreglunni en öllum öðrum stofnunum á sviði réttarfars og dómsmála, nema Landhelgisgæslunni. Landhelgisgæslan nýtur trausts 76% þeirra sem svöruðu. Það er 5% meira en í fyrra.
Traust til dómstóla og saksóknara eykst
Traust til sérstaks saksóknara og ríkissaksóknara eykst á milli ára. Sérstakur saksóknari nýtur frekar mikils eða mjög mikils trausts 44% en 39% sögðust treysta embættinu í fyrra. Ríkissaksóknaraembættið nýtur trausts 41% en það er hækkun úr 35% í fyrra.
Þá vekur athygli að bæði héraðsdómstólarnir og Hæstiréttur njóta meira trausts nú en í fyrra, en könnunin var gerð í október, áður en mikil umræða hófst í samfélaginu um dómstóla í tengslum við kynferðisbrotadóma. Hæstiréttur naut frekar mikils eða mjög mikils trausts hjá 34% í fyrra, en 41% nú. Héraðsdómstólarnir njóta trausts 35% nú en 31% í fyrra. Dómskerfið í heils sinni nýtur trausts hjá 33%.
Útlendingastofnun nýtur minna trausts
Traust til Útlendingastofnunar minnkar um 2% milli ára en það er þó innan vikmarka. Marktækur munur er hins vegar á vantrausti til Útlendingastofnunar milli ára, en þeim sem treysta stofnuninni frekar eða mjög lítið fjölgar úr 38% í 45%. Flestir aðspurðra sögðust bera lítið traust til stofnunarinnar. Vantraust til allra annarra stofnanna í dómsmálum og réttarfari minnkar, nema hjá lögreglunni, þar sem þeim sem treysta lögreglunni lítið eða mjög lítið fjölgar úr 8% í 11% milli ára.
Vikmörk í könnuninni geta verið allt að 3,1 prósent í hvora átt, það þýðir að líklegt er að raunverulegt traust geti verið einhvers staðar á bilinu 3,1 hærra til 3,1 prósent lægra en niðurstaðan gefur til kynna.