Birting auglýsinga sem birtar hafa verið í nafni ríkisstjórnar Íslands í völdum fjölmiðlum undanfarið kostaði 2,3 milljónir króna. Þær voru kostaðar af svonefndu ráðstöðunarfé ríkisstjórnarinnar og hún tók ákvörðun um gerð og birtingu auglýsinganna. Þetta kemur fram í svari skrifstofustjórnar skrifstofu yfirstjórnar hjá forsætisráðuneytinu við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Þegar valið var hvar auglýsingarnar ættu að birtast var „litið til útbreiðslu miðlana og dreifingu á landsvísu. Um fordæmi má vísa til auglýsinga sem birtar voru m.a. í nafni ríkisstjórnarinnar í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins í janúar 2014 um forsendur kjarasamninga um verðstöðugleika."
Auglýsingarnar birtust m.a. í Fréttablaðinu, Morgunblaðinu, Viðskiptablaðinu, DV og Fréttatímanum. Auk þess birtist auglýsing á vefmiðlinum Eyjan.is, sem tilheyrir Pressu/DV-fjölmiðlafjölskyldunni.
Í svari skrifstofustjórans segir: „Tilgangur fyrri auglýsingarinnar var að hvetja neytendur til að fylgjast með verðlagi og beina viðskiptum sínum til þeirra sem standa sig best í frjálsri samkeppni. Hvatningin var sett fram í tengslum við lagabreytingar sem fólu í sér lækkanir á tollum af fötum, skóm og öðrum nauðsynjavörum sem tóku gildi um áramótin. Tilgangur síðari auglýsingarinnar var að vekja athygli almennings á þeirri þverpólitísku samstöðu sem náðist á Alþingi við samþykkt fjárlaga um að verja bæri tekjum sem renna munu í ríkissjóð vegna stöðuleikaframlaga föllnu bankanna, á grundvelli nauðasamninga þeirra, til niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs og ná þannig fram lækkun á vaxtabyrði ríkissjóðs. Kostnaður vegna auglýsinganna nam 2,3 millj. kr. Ekki eru fyrirhugaðar frekari birtingar auglýsinga."
Auglýsingarnar hafa verið harðlega gagnrýndar af stjórnarandstöðuflokkunum, sem taka ekki undir að tilgangur þeirra sé að vekja áthygli almennings á þverpólitískri samstöðu um ráðstöfun stöðugleikaframlaga. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði við Vísi.is í gær að um hreinar og klárar áróðursauglýsingar að ræða. „Okkur finnst þetta mjög undarleg ráðstöfun á almannafé, enda um hreinar áróðursauglýsingar að ræða en ekki neinar upplýsingar til almennings um rétt sem fólk er að fá eða slíkt. Þá vekur athygli að fyrirbærið „ríkisstjórn Íslands“ stendur fyrir auglýsingunum, en það fyrirbæri er ekki til sem stjórnarfarsleg eining og hefur ekki kennitölu."
Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna, skrifaði pistil á bloggsíðu sína snemma í janúar og sagði að með birtingu auglýsinganna hefði ríkisstjórnin hægriflokkanna gripið til þess ráðs að auglýsa meint ágæti sitt undir nafni ríkisstjórnar Íslands. „Það hlýtur að teljast vera nokkuð sérstök aðgerð og til vitnis um lítið sjálfstraust að þurfa að kaupa heilsíður í fjölmiðlum í þessum tilgangi og leita allt aftur í Hrunárin eftir hagstæðum samanburði.“
Kjarninn beindi fyrirspurn sinni til ráðuneytisins 10. janúar síðastliðinn. Í gær beindi Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, fyrirspurn til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um kostnað við auglýsingarnar.
Fyrirspurn Katrínar er eftirfarandi:
- Hversu miklu fjármagni hefur verið varið í auglýsingar frá ríkisstjórninni frá og með júní 2013 til dagsins í dag og hvert hefur efni þeirra verið, brotið niður á einstaka miðla með kostnaði?
- Hversu mikið hefur hingað til kostað auglýsingaherferð, sem nýlega var farið að birta, m.a. um verk ríkisstjórnarinnar og stöðu efnahagsmála og hver er áætlaður heildarkostnaður hennar?
- Hversu margar auglýsingar hafa verið birtar í þessari herferð, brotið niður á einstaka miðla með kostnaði? Óskað er eftir upplýsingum um birtingaráætlun fyrir frekari auglýsingar.
- Hvar var ákvörðun tekin um að hefja slíkar auglýsingar og af hvaða fjárlagalið eru þær greiddar?
- Hvers vegna var ákveðið að ráðast í birtingu auglýsinga til að kynna sérstaklega verk ríkisstjórnarinnar? Telur forsætisráðherra þetta upplýsingar er varða slíka almannahagsmuni að setja beri fjármuni í að auglýsa? Hafa þessar upplýsingar ekki birst í fjölmiðlaumfjöllun um þjóð- og efnahagsmál eða verið aðgengilegar að öðru leyti?
- Hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi auglýsingar? Telur forsætisráðherra eðlilegt að auglýsa án þess að um sérstakar leiðbeiningar eða nauðsynlegar upplýsingar til almennings sé að ræða? Hvar liggja mörk upplýsingaskyldu og flokkapólitískrar auglýsingaherferðar að mati ráðherra?