62 prósent þeirra sem taka afstöðu eru andvíg því að bjór og léttvín veðri selt í matvöruverslunum. 38 prósent eru fylgjandi því að áfengi verði selt í slíkum búðum. Þegar öll svör eru skoðuð kemur í ljós að 35 prósent þeirra sem voru spurðir eru fylgjandi sölu á bjór og léttvini í matvöruverslunum en 56 prósent segjast vera á móti því. 9 prósent segjast óákveðin í málinu.
Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Fréttablaðið, Vísir og Stöð 2 hafa gert. Niðurstöðurnar voru birtar í Fréttablaðinu í morgun. Andstaðan við sölu á áfengi í matvöruverslunum er meiri á meðal Íslendinga eldri en fimmtugt og á meðal kvenna. Fréttablaðið lagði sömu spurningar fyrir landsmenn í könnun sem framkvæmd var í mars 2015. Þá voru 45 prósent þeirra sem tóku afstöðu fylgjandi sölu í matvöruverslunum en 55 prósent á móti því. Andstaðan hefur því aukist umtalsvert.
Í dag er ÁTVR, stofnun í eigu ríkisins með einokun á sölu áfengis. Hún fer fram í heildsölu og í gegnum 50 verslanir ÁTVR sem reknar eru út um allt land. ÁTVR hefur stóraukið þjónustu sína á undanförnum áratugum. Seint á níunda áratugnum voru verslanir ÁTVR 13 talsins og opnunartími takmarkaður. Nú eru margar verslanir ÁTVR opnar til allt að klukkan 20 á ákveðnum dögum og til klukkan 18 á laugardögum. Auk þess hefur vörframboð aukist mikið og ÁTVR selur nú hátt í þrjú þúsund vörutegundir.
Alþingi ræðir um þessar mundir frumvarp Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um afnám einkasölu ríkisins á áfengi. Vilhjálmur segir við Fréttablaðið að niðurstaðan komi sér ekki á óvart í ljós þess hvernig spurningin hafi verið orðuð. Frumvarpið sé ekki miðað að því að áfengi verði einungis selt í matvöruverslunum, líkt og spurning Fréttablaðsins/Vísis/Stöðvar 2 gefi til kynna.
Samkvæmt upplýsingum sem settar eru fram í Fréttablaðinu fór könnunin þannig fram að hringt var í 1.158 manns þar til náðist í 801 samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 26. og 27. janúar. Svarhlutfallið var 69,2 prósent. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu og aldri. Spurt var: Finnst þér að það eigi að heimila sölu á bjór og léttvíni í matvöruverslunum? Alls tóku 90 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar.