Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans, Ívar Guðjónsson, fyrrum forstöðumaður eigin fjárfestinga Landsbankans, og Júlíus S. Heiðarsson, sem var sérfræðingur í sömu deild, og Sindri Sveinsson, sem starfaði við eigin fjárfestingar hjá Landsbankanum, voru allir dæmdir sekir um markaðsmisnotkun í Hæstarétti í dag. Sigurjón hlaut eins árs og sex mánaða fangelsisdóm. Ívar var dæmdur í tveggja ára fangelsi en Júlíus og Sindri hlutu eins árs fangelsisdóma. RÚV greinir frá.
Mennirnir fjórir voru ákærðir fyrir markaðsmisnotkun á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 3. október 2008. Samkvæmt ákæru áttu þeir að hafa handstýrt verðmyndun hlutabréfa í Landsbankanum og með því blekkt „fjárfesta, kröfuhafa, stjórnvöld og samfélagið í heild.“
Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu 19. nóvember 2014 að þrír mannanna hefðu gerst sekir um markaðsmisnotkun. Sigurjón var þar dæmdur í tólf mánaða fangelsi, þar voru níu mánuðir skilorðsbundnir. Ívar og Júlíus voru dæmdir í níu mánaða fangelsi, þar af eru sex mánuðir skilorðsbundnir. Sindri var hins vegar sýknaður í héraði.
Ákærðu neituðu allir alfarið sök í málinu. Sigurjón Þ . Árnason hefur sagt opinberlega að það séu mikil „vonbrigði“ hvernig málið sé sett fram. Fyrst og fremst vegna þess í að því hafi öllu verið snúið á haus.
Hafði áður hlotið þriggja og hálfs árs dóm
Í október 2015 var Sigurjón dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti vegna Ímon-málsins svokallaða. Sá dómur sem hann hlaut í dag bætist við þann dóm. Elín Sigfúsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, var dæmd í 18 mánaða fangelsi í því máli og Steinþór Gunnarsson, fyrrum forstöðumaður verðbréfamiðlunar bankans, var dæmdur í níu mánaða óskilorðsbundið fangelsi.
Í málinu snéri Hæstiréttur við dómi héraðsdóms yfir Sigurjóni og Elínu, sem voru bæði sýknuð þar. Steinþór hlaut níu mánaða dóm í héraði en hluti hans var þá skilorðsbundinn. Sá dómur var kveðinn upp 5. júní 2014. Í dómi Hæstaréttar segir m.a.: "Brotin [...] beindust í senn að öllum almenningi og fjármálamarkaðinum hér á landi og verður tjónið, sem af þeim hlaust, ekki metið til fjár".
Imon-málið snérist um sölu Landsbankans á eigin bréfum til tveggja eignarhaldsfélaga í lok september og byrjun október árið 2008. Félögin tvö voru Imon ehf. og Azalea Resources Ltd. Landsbankinn fjármagnaði kaupin að fullu og taldi saksóknari viðskiptin vera markaðsmisnotkun og umboðssvik. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að Sigurjón sé fundinn sekur um að hafa framið umboðssvik og markaðsmisnotkun. Elín var fundin sek um umboðssvik og hlutdeild í markaðsnisnotkun og Steinþór var sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun.
Málarekstri gegn Sigurjóni er ekki að öllu leyti lokið. Hann var, ásamt Elínu Sigfúsdóttur, sýknaður í héraðsdómi vegna ákæru fyrir umboðssvik upp á 13,6 milljarða króna í október 2014. Þeim sýknudómi hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.