Það er ekki á hvers manns færi að gera efni fyrir ljósvakamiðla, jafnvel þó ný tækni verði til og hún geri fleirum kleift að framleiða afþreygingu. Þetta segir Pálmi Guðmundsson, forstöðumaður ljósvakamiðla hjá Símanum, sem er fyrsti gestur Markaðsvarpsins í Hlaðvarpi Kjarnans. Markaðsvarpið hóf göngu sína í dag undir stjórn Bjarka Péturssonar og Trausta Haraldssonar.
„Megininntakið er ennþá óbreytt. Það er auðvitað eitthvað efni, einhver efniviður sem við höfum áhuga fyrir og samsvörum við,“ segir Pálmi. „Tæknin er í sjálfu sér aukaatriði í þessu samhengi. Tæknin þarf að sjálfsögðu að fylgja með en það eru sögurnar sem drífa þetta áfram. Við erum öll með einhverskonar filter-kerfi. Við ýtum frá okkur því sem við höfum ekki áhuga á og við drekkjum okkur í því sem við höfum áhuga á.“
Pálmi ræðir um stefnu Skjásins á íslenskum sjónvarpsmarkaði, línulega sjónvarpsdagskrá, þróun tækninnar og sýn sína á hvernig áhorf og notkun sjónvarps verður árið 2025. „Við getum svo hlegið saman eftir sjö ár þegar spáin mín hefur ekki gengið eftir,“ segir Pálmi en hann hefur nær alla sína tíð starfað í fjölmiðlum og hefur mikla reynslu af stjórnun og rekstri ljósvakamiðla.
Markaðsvarpið nýr þáttur í Hlaðvarpi Kjarnans
Markaðsvarpið verður á dagskrá í Hlaðvarpi Kjarnans á þriðjudögum þar sem Bjarki og Trausti taka fyrir allt það sem tengist markaðsmálum í víðum skilningi. Þeir hafa saman yfir 50 ára reynslu af markaðsstarfi. Þeir segja markaðsmál vera mjög stórt hugtak sem tekur á þáttum eins og auglýsinga- og kynningamálum, rannsóknum, tækni, starfsmanna-, gæða-, sölu- og þjónustumálum. „Á mannamáli eru öll fyrirtæki að finna leiðir til að aðgreina sig á markaðinum og hámarka arðsemina,“ segja þeir Bjarki og Trausti.
„Stjörnurnar í þáttunum eru allir þeir sérfræðingar og stjórnendur sem lifa og hrærast í þessum heimi. Markmið Markaðsvarpsins er fyrst og fremst að vera með athyglisverðar umræður sem aðrir geta notfært sér í sínu starfi,“ segja þeir.
Hægt er að hlusta á fyrsta þáttinn hér að neðan eða í helstu hlaðvarpsöppum.