„Það er mikilvægt að við skoðum það hvort það sé nauðsynlegt á þessari stundu að flóttamönnum, eða hælisleitendum, sé snúið við í Keflavík og þeir sendir aftur til síns heima.“ Þetta sagði Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag.
Ásmundur sagði að fréttir af því að hælisleitandi á Kjalarnesi hafi hótað að kveikja í sér í gær hafi vakið með honum óhug. „Flóttamannastraumurinn er stórkostlegt vandamál eins og við höfum heyrt á undanförnum mánuðum. Svíar og Danir hafa lokað landamærum sínum til að takmarka komu flóttamanna og til að geta fylgst með því hverjir koma til landsins. Austurríkismenn og Balkanlöndin hafa fundað sérstaklega vegna vanda Schengen-svæðisins en Grikkland er galopið og þar streymir flóttafólk inn sem aldrei fyrr og á þá greiða leið inn í Schengen-löndin.“
Hann spurði því næst hvort Íslendingar ættu að fara að ráðum Svía og Dana og takmarka aðgengi fólks til landsins eins og var fyrir tilkomu Schengen.
„Ég auðvitað þekki það af eigin raun hvað það er erfitt að taka þátt í þessari umræðu. Maður er rifinn í sig af góða fólkinu og fjölmiðlum ef maður þorir að opna munninn og hafa skoðun. Fólkið í landinu þorir ekki að opinbera skoðun á þessum málum,“ sagði Ásmundur. Hann sagðist því telja að í þingsal þyrfti að ræða hvort ekki þurfi að gera breytingar á opnum landamærum landsins. „Ég held að það sé mál að linni.“
Vildi kanna bakgrunn múslima
Fyrir rúmu ári síðan skapaðist mikil umræða eftir að Ásmundur spurði að því á Facebook-síðu sinni hvort bakgrunnur múslima á Íslandi hafi verið kannaður, og hvort einhverjir þeirra hafi farið í þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna eða barist í löndum þar sem „óöld ríkir meðal múslima.“ Ásmundur sagði þá að hann væri að vekja umræðu um þessi mál. „Ég velti því fyrir mér hvort við þurfum að hafa áhyggjur af því að hér leynist slíkt fólk. Ég hef ekki hugmynd um það. Mér finnst að við eigum að taka umræðuna um það. Hvað við viljum gera og hvernig við viljum standa að þessu,“ sagði Ásmundur í viðtali við Vísi og þvertók fyrir að ummæli hans lituðust af rasisma.
Ummæli hans vöktu hins vegar hörð viðbrögð, meðal annars úr hans eigin flokki. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, sem nú er ritari Sjálfstæðisflokksins, sagði það vera „vægast sagt átakanlegt“ að vera í sama flokki og Ásmundur. „Fordómar og fáfræði einkenna ummæli hans og passa engan veginn við þær frelsis og frjálslyndishugmyndir sem ég trúi að meirihluti Sjálfstæðismanna standa fyrir. Velti fyrir mér hvort hann eigi ekki betur heima í öðrum flokki sem hefur gælt við þessar skoðanir áður með mjög ósmekklegum hætti."
Ummæli hans í dag eru ekki í fyrsta sinn sem hann kvartar undan umræðunni. Hann gerði hryðjuverkin í Kaupmannahöfn að umtalsefni í febrúar í fyrra á þinginu. „Þeir sem vekja athygli á hættunni sem steðjar að nágrönnum okkar eru skotnir niður og ataðir auri í samfélagsumræðunni sem aldrei kemst á það stig að rætt sé um málefnið.“ Hann sagði tjáningarfrelsið vera fótum troðið og að það virðist oft á tíðum aðeins vera fyrir útvalda. Hann fagnaði því að Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefði hafið umræðu um forvirkar rannsóknarheimildir. „Tökum umræðuna um þá ógn sem steðjar að í nágrannalöndum okkar, en við getum ekki tekið þá áhættu að hún berist ekki hingað,“ sagði Ásmundur.