Einungis tíu prósent Íslendinga yfir 18 ára aldri reyktu daglega í fyrra. Daglegar reykingar eru algengastar hjá fólki í aldurshópnum 45 til 54 ára þar sem 14 prósent kveikir enn í. Í yngsta aldurshópnum, 18 til 24 ára, reykja hins vegar einungis fimm prósent daglega og 73 prósent hafa aldrei reykt. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu sem byggir umfjöllun sína á Talnabrunni embættis landslæknis.
Reykingar hafa dregist hratt saman á undanförnum árum. Um aldarmótin síðustu reyktu um 25 prósent Íslendinga daglega, árið 2007 var það hlutfall komið í 18 prósent þjóðarinnar og árið 2014 niður í 14 prósent. Íslendingar eru því að drepa í sígarettum sínum á miklum hraða. Lítill munur er á milli kynja þeirra sem reykja enn daglega.
Í Talnabrunninum kemur einnig fram að Íslendingum finnst ennþá gott að drekka sig reglulega ölvaða. Til að meta umfang áfengisneyslu voru lagðar fyrir þrjár spurningar. Í fyrsta lagi var spurt hversu oft á síðustu 12 mánuðum viðkomandi hefur drukkið a.m.k. eitt glas sem inniheldur áfengi. Í öðru lagi var spurt um ölvunardrykkju, þ.e. hversu oft á síðustu 12 mánuðum viðkomandi hefur drukkið á einum degi að minnsta kosti 5 glös sem innihalda áfengi. Þá var að lokum spurt hversu marga áfenga drykki viðkomandi drekkur að jafnaði þegar áfengis er neytt.
Í niðurstöðum Talnabrunnsins kemur fram a karlar drekka oftar áfengi að jafnaði en konur, eða að meðaltali fimm sinnum í mánuði en konur rúmlega þrisvar sinnum.
35 prósent karla segjast drekka sig ölvaða einu sinn í mánuði eða oftar en 18 prósent kvenna. Karlar drekka sig ölvaða 18 sinnum á ári að meðaltali og konur að meðaltali 8 sinnum.
Það eru sérstaklega yngri karlar sem drekka sig oft ölvaða. 52 prósent karla í aldurshópnum 18 -24 drekka sig ölvaða einu sinni eða oftar í mánuði samanborði við 30 prósent í aldurshópnum 45 til 54 ára. Yngstu konurnar drekka sig líka oftast ölvaðar einu sinni í mánuði eða oftar, eða 45 prósent þeirra. Það hlutfall er einungis 15 prósent á meðal kvenna í aldurshópnum 45 til 54 ára.
Ölvunardrykkja kvenna einu sinni í mánuði eða oftar mælist 45% í aldurshópnum 18-24 ára,
Í Talnabrunninum kemur fram að um helmingur fullorðinna Íslendinga hreyfir sig í samræmi við ráðleggingar og er það sambærilegt við fyrri kannanir á hreyfingu. Áhyggjuefni er hins vegar að umtalsverður hluti landsmanna hreyfir sig lítið sem ekkert.