Velferðarráðuneytið mun flytja úr Hafnarhúsinu í Tryggvagötu, og það eins fljótt og hægt er. Ástæðan er ástand hússins, þar sem endurtekið hefur fundist raki og myglusveppur, nú síðast nýlega. Augljóst þykir að ráðast þurfi í miklar endurbætur á húsinu.
Því hefur verið ákveðið að finna ráðuneytinu, sem undir heyra bæði félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið, nýtt húsnæði.
Faxaflóahafnir eiga húsið sem ráðuneytið er í, og hefur náðst samkomulag um það milli fyrirtækisins og ráðuneytisins að losa ráðuneytið undan leigusamningi. Byrjað er að leita að nýju húsnæði fyrir ráðuneytið, sem mun flytja eins fljótt og hægt er.
Árið 2013 var sagt frá því að taka hefði þurft eina álmu ráðuneytisins í gegn vegna þess að starfsmenn höfðu fundið fyrir óþægindum sem voru talin tengjast myglusvepp. Þetta hefur komið upp oftar og ekki hefur tekist að uppræta sveppinn. Árið 2014 fannst líka myglusveppur í fjármálaráðuneytinu, sem er til húsa í Arnarhvoli. Þar olli myglusveppur starfsfólki líka ama. Myglusveppur hefur líka fundist í skrifstofum Alþingis.
Þá hefur myglusveppur fundist víða í húsakynnum Landspítalans, og hefur valdið starfsfólki þar miklum óþægindum.
Í gær greindi Kjarninn frá því að myglusveppur hafi fundist í höfuðstöðvum Íslandsbanka á Kirkjusandi.