Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, verður næsti forsætisráðherra Íslands. Til stóð að Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, kæmi inn í ríkisstjórn og settist í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið en það var ekki fullrætt við þingflokk flokksins. Þingkosningar verða í október eða nóvember. Þetta herma heimildir Kjarnans úr röðum stjórnarþingmanna. Ný ríkisstjórn verður kynnt í kvöld.
Báðir þingflokkar stjórnarflokkanna hafa verið boðaðir til fundar í þnighúsinu og eiga þeir að hefjast klukkan korter fyrir sjö. Þar verður þessi ráðstöfun kynnt þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
Sigurður Ingi og Ásmundur Einar funduðu fyrr í dag í Stjórnarráðinu með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fráfarandi forsætisráðherra. Þegar þeim fundi lauk sagði Sigurður Ingi að niðurstaðan verði kynnt um klukkan 19.