Orkuverð Landsvirkjunar til álvera á síðasta ári var um 34 prósent lægra en heimsmeðaltal, samkvæmt greiningu Öskju Energy, ráðgjafafyrirtækis Ketils Sigurjónssonar, en vísað er til umfjöllunar CRU Group, þegar kemur að heimsmarkaðnum.
Verðið féll um tólf prósent á heimsvísu í fyrra, og er skýringin öðru fremur rakin til verðlækkunar á áli, en algengt er að orkusölusamningar til álfyrirtækja séu tengdir, í það minnsta að hluta, verðsveiflum á áli.
Hæst var verðið í Kína, tæplega 45 Bandaríkjadalir á megavattstund, en heimsmarkaðsverðið var nálægt 38 Bandaríkjadölum.
Landsvirkjun fékk að meðaltali 24,5 Bandaríkjadali á megavattstund með flutningskostnaði fyrir raforkuna í fyrra, í viðskiptum við stóriðjuna, en þar vega álver Century Aluminum á Grundartanga, Rio Tinto í Straumsvík og á Alcoa á Reyðarfirði, langsamlega þyngst.
Raforkuverðið til stóriðju var 25,9 Bandaríkjadalir á megavattstund árið 2014, samkvæmt upplýsingum sem fram koma í ársreikningi Landsvirkjunar.