Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, hefur tilkynnt forsetaframboð. Það gerði hann í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun, sem var í fyrsta sinn stýrt af Páli Magnússyni, fyrrum útvarpsstjóra. Davíð er fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætis- og utanríkisráðherra og seðlabankastjóri.
Davíð segir: „Ég sjálfur er þannig að stór hluti þjóðarinnar þekkir mig mjög vel." Þjóðin þekki bæði hans kosti og galla. Ef hann væri fasteign þá væri hægt að segja að í honum væri ekki að finna neina leynda galla.
Davíð segir að hann búist við því að reynsla hans og þekking, sem sé nokkur, geti fallið vel af þessu starfi. Hann tók ákvörðunina í gær, laugardag. Davíð segir að hann geti ekki svarað því hvort að ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar um að hætta við að hætta hafi skipt höfuðmáli. Hann og Ólafur Ragnar hafi þekkst lengi og þótt þeir hafi verið andstæðingar í stjórnmálum þá hafi persónulega farið ágætlega á með þeim alla tíð. Davíð segir að hann hafi ekki kosið Ólaf Ragnar 1996 en að hann og Guðrún Katrín hafi verið glæsileg forsetahjón.
Kaus ekki Ólaf Ragnar
Davíð segir að hann hafi ekki verið eins ánægður með Ólaf Ragnar á því sem hann kallar „Útrásarskeiðið" en forsetinn hafi svo gert mjög merkilega hluti með ákvörðun sinni í Icesave-málinu. 2012, þegar að Ólafur Ragnar ákvað að bjóða sig aftur fram, þá skildi Davíð þá ákvörðun. Það hafi verið öryggi að hafa Ólaf Ragnar á Bessastöðum á þeim óvissutímum, þar sem vinstri stjórnin hefði verið að gera atlögu að stjórnarskránni og að reyna að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Davíð segir að hann hafi ekki kosið Ólaf Ragnar 2012 - hann skilaði auðu - en segir að ef litið hefði út fyrir að Ólafur Ragnar myndi tapa þá hefði hann kosið hann. Sú staða hafi hins vegar ekki verið uppi nú, þegar Ólafur Ragnar ákvað að bjóða sig aftur fram.
Davíð gengur út frá því að niðurstaða vinnuveitandans í svona kosningum, þjóðarinnar, geti orðið sú að velja einhvern annan. Davíð telur, þrátt fyrir að vera ekki vanur að tapa kosningum, þá geti hann tapað vel. „Ég mun líta á niðurstöðu kjósenda sem rétta, hver sem hún er."
Davíð segir að ef hann tapar kosningunum þá myndi hann snúa aftur í ritstjórastól Morgunblaðsins. Þar sem hann hafi einungis tekið viku í sumarfrí frá því að hann settist í þann stól þá eigi hann mikið sumarleyfi inni. Það sumarleyfi ætli hann að nýta sér nú þegar fyrir liggur að hann ætli að bjóða sig fram til forseta.
Þarf mann sem forseta sem getur brugðist við
Davíð telur að það hafi verið „absúrd" hjá Ólafi Ragnari að synja fjölmiðlalögunum undirskrift og að í hjarta sínu hljóti hann að vita það. Davíð telur að það sé eina undantekningin sem hægt sé að benda á að forseti hafi beitt neitunarvaldi sínu óvarlega. Ólafur Ragnar hefði gert það réttilega í Icesave-málunum og aðrir forsetar hafi talið sig hafa valdið, þótt þeir hafi ekki notað það.
Davíð telur að það sé ekki verið að leita að manni í forsetaembættið sem geti sinnt móttökum og veislum, heldur manni til að bregðast við. Forsetinn sé þarna til að bregðast við, alveg eins og læknar á slysadeild og slökkviliðsmenn. „Þarna þurfa að vera menn sem þjóðin veit að geta brugðist við." Menn sem þora að taka ákvörðun sem láti engan „rugla" í sér. Þessa eiginlega telur Davíð sig hafa og að þeir muni nýtast vel.
Davíð telur sig ekki vera mann sem sundrar fólki, þótt hann sé ákveðinn. Hann rökstyður það með því að þegar hann hætti sem borgarstjóri hafi hann fengið 60 prósent atkvæða. Þær kosningar fóru fram árið 1990. Enginn stjórnmálamaður hefði átt betra með að vinna með andstæðingum sínum en hann sjálfur enda hafi Davíð haldið saman ríkisstjórn lengur en nokkur annar í sögunni.
Davíð segir að það sé sanngjörn spurning að velta fyrir sér hvort að hann sjálfur eða Ólafur Ragnar séu ekki búnir að fylla upp í allt stjórnmálalegt rúm á Íslandi áratugum saman. Hvort þetta sé ekki komið gott. En Davíð telur að það séu ekki aðrir valkostir. Þingið sé veikt og við svoleiðis aðstæður væri ekki ráð að velja sér veikan forseta. „Þá væri þjóðin alveg úti að aka, og ég held að hún sé það ekki."
Ósanngjarnt að Sigmundur Davíð hrökklaðist frá
Að mati Davíðs átti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ekki að hrökklast frá með þeim hætti sem hann gerði, í kjölfar þess að hann var „tekinn í bakaríið" af sænskum fréttamanni. Það hafi ekki verið sanngjarnt gagnvart Sigmundi Davíð, sem hefði gert margt mjög vel, að hann hrökklaðist frá með þessum hætti. Það hafi verið mikið umhugsunarefni að ríkisstjórn með 38 manna meirihluta væri nálægt því að hrökkva af hjörunum. Það sé óvissa víðar. Evrópusambandið sé í upplausn, forsetaframbjóðandinn Donald Trump sé í Bandaríkjunum með málflutning sem enginn botni í. Því sé mikilvægt að einhversstaðar sé haldreipi.
Það eru ellefu ár síðan að Davíð hætti í stjórnmálum. Hann lítur ekki á forsetaslaginn sem stjórnmálalegan slag, heldur sé hann að spyrja þjóðina hvort hún geti notað sig. Eiginkona hans hafi ekki verið upprifin vegna ákvörðunar hans um að bjóða sig fram, en muni auðvitað standa með honum og styðja líkt og hún hafi alltaf gert.