Fylgi Pírata heldur áfram að minnka samkvæmt nýjustu kosningaspá Baldurs Héðinssonar og Kjarnans sem unnin var í morgun úr fyrirliggjandi könnunum sem gerðar hafa verið á fylgi stjórnmálaflokka. Sjálfstæðisflokkurinn er nú með mest fylgi samkvæmt kosningaspánni en tapar þó fylgi síðan spáin var gerð síðast.
Kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar er nú gerð í annað sinn, fyrir Alþingiskosningar sem boðaðar hafa verið í haust. Baldur hefur útbúið spálíkan sem vigtar kannanir sem gerðar eru á fylgi stjórnmálaflokka eftir áreiðanleika. Sama líkan var notað fyrir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2014 fyrir fylgi framboða í Reykjavík og niðurstaðan birt á vef Kjarnans og á vefnum kosningaspá.is. Í nýjustu kosningaspánni eru nýjustu kannanirnar vegnar: Skoðnanakönnun Félagsvísindastofunar HÍ fyrir Morgunblaðið 17. maí, skoðanakannanir Fréttablaðsins 9. maí og 2. til 3. maí, Þjóðarpúls Gallup 14. til 28. apríl og skoðanakönnun MMR 22. til 26. apríl.
Í nýjustu kosningaspánni mælast Píratar með 28,1 prósent fylgi, miðað við 29,3 prósent í síðustu kosningaspá. Sjálfstæðisflokkur minnkar um hálft prósentustig og er með 28,5 prósent fylgi.
Tvö ný framboð mælast í nýjustu kosningaspánni. Það eru Dögun og Alþýðufylkingin sem bæði mælast með undir eitt prósent fylgi. Önnur framboð mælast varla.
Hvað er kosningaspáin?
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Kjarninn birti Kosningaspá Baldurs fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og reyndist sú tilraun vel. Á vefnum kosningaspá.is má lesa niðurstöður þeirrar spár og hvernig vægi kannana var í takt við frávik kannana miðað við kosningaúrslitin.
Áreiðanleiki könnunaraðila er reiknaður út frá sögulegum skoðanakönnunum og kosningaúrslitum. Einnig hefur það vægi hversu langt er síðan könnunin var framkvæmd og svo hversu margir svara í könnununum.