Hörður Þórhallsson hefur verið ráðinn forstjóri hjá Icepharma í stað Margrétar Guðmundsdóttur, sem lætur af störfum í lok júní næstkomandi. Hörður hefur undanfarið gegnt starfi framkvæmdastjóra Stjórnstöðvar ferðamála en tilkynnt var fyrr í mánuðinum að hann myndi hverfa til annarra starfa og starf framkvæmdastjóra auglýst á næstunni.
Tilkynnt var um stofnun Stjórnstöðvar ferðamála með viðhafnarkynningu í Hörpu í byrjun október 2015. Hlutverk Stjórnstöðvarinnar á að vera að samhæfa aðgerðir og útfæra leiðir í samvinnu við opinberar stofnanir og hagsmunaaðila í ferðaþjónustu. Stjórnstöðinni er ætlað að starfa í fimm ár eða til ársloka 2020. Hún var sett á laggirnar á grundvelli samkomulags milli ríkistjórnarinnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka ferðaþjónustunnar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, skipaði í tíu fulltrúa í stjórn Stjórnstöðvarinnar. Fjórir ráðherrar eiga þar sæti, fjórir fulltrúar frá Samtökum ferðaþjonustunnar og tveir fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, er formaður Stjórnstöðvarinnar.
Hörður var ráðinn í starfið á sama tíma af atvinnuvegaráðuneytinu. Þar var hann með verktakasamning og fékk 1.950 þúsund krónur í heildarlaun á mánuði. Stjórn Stjórnstöðvarinnar tók ákvörðun um ráðningu hans og staða framkvæmdastjóra Stjórnstöðvar ferðamála var ekki auglýst.
Ráðningarferlið þótti mjög umdeilt og var gagnrýnt víða í samfélaginu. Ragnheiður Elín sagði í viðtali við Spegilinn í á þeim tíma að nýskipuð stjórn Stjórnstöðvarinnar hafi viljað „þungarvigtarmann" í stöðu framkvæmdastjóra. Þau hafi orðið þess áskynja að Hörður væri á lausu og Ragnheiður Elín sagði að hann hefði uppfyllt þau skilyrði sem sett hefðu verið fyrir starfinu.