„Ef sú hagstæða efnahagsþróun sem hér hefur verið lýst á að viðhaldast eftir að fjármagnshöftum hefur verið aflétt þá er nauðsynlegt að tekið sé upp nýtt hagstjórnartæki sem minnkar virkan vaxtamun á milli Íslands og helstu viðskiptalanda. Ef þetta er ekki gert má búast við að fjárfestar reyni að hagnast á vaxtamun með því að kaupa krónur og fjárfesta í innlendum skuldabréfum. Gengi krónunnar mun þá styrkjast og afkoma ferðaþjónustu versna.“
Þetta kemur fram í grein Gylfa Zoega, hagfræðiprófessors, í Vísbendingu. Í greininni, sem ber heitið Hugleiðingar um verðbólgu og efnahagsþróun, fer hann vítt og breytt yfir stöðu efnahagsmála, og talar ekki síst um stöðu ferðaþjónustunnar, og hvað geti gerst ef gengi krónunnar styrkist of mikið. Hætta sér á því að hækkun olíuverðs leiði til versnandi samkeppnishæfni í ferðaþjónustu, einkum ef gengi krónunnar styrkist á sama tíma. „Ört vaxandi fjöldi ferðamanna felur þó í sér nokkra áhættu. Ef ferðaþjónusta verður fyrir höggi, t.d. vegna gengishækkunar krónunnar sem verður vegna spákaupmennsku í krónunni eða hækkun olíuverðs sem hækkar flugfargjöld mun ríkissjóður verða fyrir tjóni vegna eignarhalds á viðskiptabönkunum. Ekki verður hægt að kenna óreiðumönnum um í þetta skiptið. Það er því afar mikilvægt að reynt sé að búa til umhverfi fyrir ferðaþjónustu með hóflegri gjaldtöku og uppbyggingu innviða þannig að ekki fari illa, enn einu sinni, og vöxturinn verði ekki of ör,“ segir Gylfi.
Þá segir hann stöðu efnahagsmála nú, ekki síst markast af því að hagstjórnin hafi gengið vel eftir hrunið. Sérstaklega hafi Seðlabankinn náð að stýra málum betur frá árinu 2013, þegar hann fór að beita öðrum tækjum vöxtum í meira mæli, til að ná gengi krónunnar stöðugu. Inngrip á gjaldeyrismarkaði hafi heppnast vel, og stuðlað að betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum, en um þessar mundir er verðbólga 1,6 prósent, hagvöxtur um fjögur prósent og atvinnuleysi um þrjú prósent. Spár gera ráð fyrir að 1,6 milljónir ferðamanna komi til landsins á þessu ári, en árið 2010 voru þeir innan við 500 þúsund.