Um 22 þúsund manns vinna að jafnaði í ferðaþjónustu á þessu ári, eða rúmlega tíu prósent starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði. Sex þúsund þessara einstaklinga eru útlendingar. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem Stjórnstöð ferðamála gerði á mannaflaþörf og þörf fyrir fræðslu/hæfni í ferðaþjónustu á Íslandi.
Líklega munu 40% nýrra starfsmanna í ferðaþjónustunni á þessu ári og því næsta koma erlendis frá.
Samkvæmt könnuninni þurfa fyrirtæki að ráða flesta starfsmenn í ræstingar og þrif, eða 26,2% fyrirtækja. 12 prósent fyrirtækja þurfa að ráða leiðsögumenn, og um og yfir átta prósent þurfa starsfmenn í gestamóttöku, sölu- og afgreiðslu, stjórnendur eða faglærða matreiðslumenn. Að sama skapi hafa fyrirtæki í ferðaþjónustu átt erfiðast með að manna störf í ræstingum og þrifum, og faglærða matreiðslumenn.