Stuðningur við framboð Guðna Th. Jóhannessonar, sagnfræðings, í embætti forseta Íslands hefur minnkað nokkuð síðan fyrsta kosningaspáin um niðurstöður forsetakosninganna var gerð 13. maí síðastliðinn. Ný kosningaspá var gerð föstudaginn 27. maí og mælir Guðna með stuðning 60,5 prósent kjósenda, miðað við þau 67,8 prósent sem hann hefur mest mælst með 14. maí.
Guðni er þó enn lang vinsælasti frambjóðandinn af þeim níu sem gefa kost á sér. Næstur kemur Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, með 20,3 prósent stuðning. Fylgi við Davíð hefur aukist stöðugt milli þess sem kosningaspá er gerð úr fyrirliggjandi könnunum á fylgi frambjóðenda til embættis forseta Íslands. Þann 13. maí mældist Davíð með 14,3 prósent atkvæða.
Næstur þar á eftir mælist Andri Snær Magnason, rithöfundur, með 11,7 prósent. Það er einnig það mesta sem Andri Snær hefur mælst með síðan kosningaspáin var fyrst gerð. Sömu sögu er að segja um stuðning við framboð Höllu Tómasdóttur, athafnakonu. Hún mælist nú með stuðning 3,8 prósent kjósenda.
Aðrir frambjóðendur myndu fá minna en tvö prósent atkvæða ef gengið yrði að kjörborðinu nú. Alls eru níu í framboði. Þau sem ekki hafa verið nefnd hér að ofan eru Sturla Jónsson, Elísabet Jökulsdóttir, Ástþór Magnússon, Hildur Þórðardóttir og Guðrún Margrét Pálsdóttir.
Kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar er gerð í fyrsta sinn fyrir forsetakosningar. Kjarninn hefur áður birt niðurstöður kosningaspálíkansins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2014 fyrir fylgi framboða í Reykjavík. Þá verða niðurstöður líkansins um fylgi stjórnmálaflokka í fyrirhuguðum alþingiskosningum birtar á vef Kjarnans í aðdraganda kosninganna í haust. Í nýjustu kosningaspánni fyrir forsetakosningarnar eru nýjustu kannanirnar vegnar:
- Skoðanakönnun Maskínu 20. til 27. maí (vægi 17,9%)
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins 23. til 24. maí (vægi 16,4%)
- Skoðanakönnun Frélagsvísindastofnunar HÍ fyrir stuðningsmenn Guðna Th. Jóhannessonar 23. til 25. maí (vægi 24,4%)
- Skoðanakönnun Gallup fyrir stuðningsmenn Davíðs Oddssonar 19. til 25. maí (vægi 20,8%)
- Skoðanakönnun MMR 12. til 20. maí (vægi 20,5%)
Hvað er kosningaspáin?
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Kjarninn birti Kosningaspá Baldurs fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og reyndist sú tilraun vel. Á vefnum kosningaspá.is má lesa niðurstöður þeirrar spár og hvernig vægi kannana var í takt við frávik kannana miðað við kosningaúrslitin.
Áreiðanleiki könnunaraðila er reiknaður út frá sögulegum skoðanakönnunum og kosningaúrslitum. Einnig hefur það vægi hversu langt er síðan könnunin var framkvæmd og svo hversu margir svara í könnununum.