Leiðarahöfundur Morgunblaðsins ásakar forsetaframbjóðandann Guðna Th. Jóhannesson um að hafa veist með árásum að Morgunblaðinu á fyrirlestri sem hann hélt um þorskastríðin í gær. Slíkt sé einsdæmi í forsetakosningum á Íslandi. Í leiðaranum er einnig rakið hvernig það hafi gagnast Donald Trump, sem sækist eftir því að verða forsetaframbjóðandi repúblikana í Bandaríkjunum, að ráðast að fjölmiðlum.
Í fyrirlestrinum skýrði Guðni Th. Frá því að ummæli sem honum voru eignuð í frétt og skrifum í Staksteinum Morgunblaðsins sem birtust í blaðinu á þriðjudag um þorskastríðin hefðu annars vegar ekki verið hans og hins vegar slitin úr samhengi. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins segir: „En það var ekki aðeins að hann færi að þrasa við Staksteina um staðreyndir sem fyrir liggja, hann kaus líka að ráðast á Morgunblaðið fyrir að hafa ekki fjallað um að fjörutíu ár eru liðin frá lokum þorskastríðanna. „Öðruvísi mér áður brá,“ sagði frambjóðandinn hneykslaður á því að um þetta hefði ekki verið fjallað.“
Leiðarahöfundurinn, sem er ekki merktur fyrir skrifunum líkt og venja er á Morgunblaðinu, segir þetta þó ekki vera meginatriðið heldur hitt að forsetaframbjóðandi telja sér sæmandi að veitast með slíkum hætti að fjölmiðli. „Ætlar hann að taka aðra fjölmiðla sömu tökum og finna að því fram að kosningum að þeir skuli ekki hafa fjallað um þessi tímamót eða önnur? Eða er það aðeins sá fjölmiðill sem leyfir sér að gagnrýna frambjóðandann sem fær yfir sig gusurnar? Og verður sami háttur hafður á komist Guðni alla leið á Bessastaði? Fá þeir fjölmiðlar sem þá munu hugsanlega leyfa sér að gagnrýna forsetann eða forsetaembættið fá að kenna á reiði forsetans? Það getur orðið sérkennileg staða, jafnt fyrir forsetann sem fjölmiðlana.“
Í niðurlagi leiðarans er Háskóli Íslands síðan gagnrýndur fyrir að blanda sér í kosningabaráttu um forsetaembættið og sagt að það sé einsdæmi. „Háskólinn á að vera hlutlaus vettvangur til kennslu og vísindastarfa en ekki vettvangur fyrir útvalda frambjóðendur að koma sér á framfæri. Jafnvel þó að frambjóðandinn hefði haldið eigin kosningabaráttu utan við fyrirlesturinn hefði þetta verið óviðeigandi. Þegar fyrirlesturinn er hins vegar notaður - eða öllu heldur misnotaður - í þágu framboðsins, er augljóst að mikil mistök hafa verið gerð.“
Ritstjórar Morgunblaðsins eru Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen. Davíð er í leyfi frá störfum vegna forsetaframboðs síns en samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans mælist hann með næst mest fylgi þeirra sem eru í framboði, um 20 prósent. Fyrir ofan hann er Guðni Th. Jóhannesson sem mælist með um 60 prósent fylgi.
Byrjaði í Eyjunni
Guðni Th. var spurður út í ummæli sín á fyrirlestri sem hann hélt á Bifröst árið 2013 í þættinum Eyjunni, sem stýrt er af Birni Inga Hrafnssyni, á sunnudag. Þau ummæli voru: „Er fávís lýðurinn aftur að pródúsera rangar sameiginlegar minningar?"
Morgunblaðið fjallaði svo um ummælin í frétt á þriðjudag og í Staksteinum, þar sem Guðni Th. hefur ítrekað orðið fyrir harðri gagnrýni að undanförnu. Auk þess var birt samanklippt myndband sem fylgdi frétt um málið á fréttavef Morgunblaðsins, mbl.is, á mánudag.
Guðni Th. sagði í fyrirlestrinum í gær að ekki ætti að taka ummælin bókstaflega og að þau væru slitin úr samhengi. Auk þess væri um að ræða orð fyrrverandi nemanda hans um móður sína og að það hafi komið skýrt fram í fyrirlestrinum.